Þeir einstaklingar sem hafa réttarstöðu grunaðra vegna rannsóknar á starfsemi Samherja í Namibíu hafa verið kallaðir til yfirheyrslu hjá héraðssaksóknara. Á meðal þeirra er fyrrverandi starfsmaður Samherja sem ljóstraði upp um mútugreiðslur, Jóhannes Stefánsson.
Þetta kemur fram í frétt Kjarnans í dag. Jóhannes staðfestir við Kjarnann að hafa haft réttarstöðu grunaðs frá því að Stundin, Kveikur, Al Jazeera og Wikileaks greindu frá því í nóvember í fyrra hvernig gögn sýndu að Samherji greiddi skipulega hundruð milljóna króna í mútur til stjórnmálamanna og tengdra aðila í Namibíu, til að fá hestamakrílkvóta sem lagði grunn að stórum hluta hagnaði félagsins undanfarin ár. Hagnaðurinn og mútugreiðslurnar runnu í gegnum net skattaskjóla.
Lög um vernd uppljóstrara voru samþykkt á Alþingi í maí, en taka ekki gildi fyrr en í upphafi næsta árs. Þetta eru fyrstu heildstæðu lögin sem ná utan um vernd uppljóstrara, en þau meðal annars banna fyrirtækjum og ríkisstofnunum að refsa starfsfólki fyrir að uppljóstra um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi, en slíkt getur varðað sektum eða upp að tveggja ára fangelsisvist. Lögin eru ekki afturvirk og vernda því ekki Jóhannes frá brottrekstri úr Samherja.
Þess ber að geta að lögin veita ekki uppljóstrurum vernd gagnvart glæpsamlegu athæfi sem þeir hafa sjálfir tekið þátt í. Í umsögn Siðfræðistofnun Háskóla Íslands með lagafrumvarpinu var einmitt bent á að milding refsingu væri æskilegt þar sem að líklegt sé „að oft séu þeir einir til frásagnar sem einhvern hlut eiga að máli og kynnu þ.a.l. að veigra sér við því að gera viðvart um háttsemina af ótta við refsiábyrgð.“
Fimm Íslendingar í málsgögnum í Namibíu
Í svari við fyrirspurn Stundarinnar segir Ólafur Þ. Hauksson héraðssaksóknari að rannsóknin sé í gangi hérlendis eins og í Namibíu. „Við höfum ekki gefið upplýsingar varðandi framvindu á einstökum þáttum rannsóknarinnar annað en að rannsókn embættisins stendur nú yfir,“ segir Ólafur. „Einnig höfum við staðfest það sem áður hefur komið fram að embættið á í samskiptum við namibísk yfirvöld í tengslum við þær rannsóknir sem eru nú í gangi í báðum löndunum.“
Málið hefur verið fyrir umfjöllun fyrir dómstól í Windhoek þar sem Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, og Tamson „Fitty“ Hatuikulipi, tengdasonur hans, munu sitja áfram í gæsluvarðhaldi vegna Samherjamálsins og fá ekki lausn gegn tryggingu. Dómstóllinn telur sönnunargögn benda til sektar þeirra.
Fimm aðilar eru tengdir málinu í Namibíu samkvæmt málsgögnum þess, Jóhannes, Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, Ingvar Júlíusson, fjármálastjóri Samherja á Kýpur og í Afríku, Aðalsteinn Helgason, fyrrum framkvæmdastjóri Kötlu Seafood, og Egill Helgi Árnason, framkvæmdastjóri Mermaria Seafood Namibia.
Jóhannes Stefánsson hefur gengist við sínum hlut í málinu og fór hann í skýrslutöku 12. nóvember í fyrra, sama dag og þáttur Kveiks um málið fór í loftið og Stundin birti tölublað þar sem farið var ítarlega yfir aðgerðir Samherja.
Jóhannes hefur sagt að Þorsteinn hafi verið yfir og allt um kring í rekstri Samherja í Namibíu: „Hann veit allt og ekkert gerist án hans samþykkis. […] Það var hann og Aðalsteinn [Helgason framkvæmdastjóri Kötlu Seafood] sem að gerðu fyrstu mútugreiðslurnar og allar beiðnir um mútu greiðslur eftir það var ég bara að miðla upplýsingum á milli manna,“ segir Jóhannes.
Björgólfur Jóhannsson tók við af Þorsteini Má sem forstjóri í kjölfar uppljóstrananna. Í mars snéri Þorsteinn Már aftur í stól forstjóra við hlið Björgólfs.
Uppfært: Í upphaflegri frétt var Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sagður hafa réttarstöðu grunaðs í málinu. Hið rétta er að þó hann sé nefndur í málsgögnum í Namibíu hefur ekki komið fram hvort hann hafi réttarstöðu grunaðs á Íslandi. Leiðréttist það hér með.
Athugasemdir