Félagabrjótar eru þeir sem í krafti efnahagslegs og samfélagslegs valds vinna gegn samtakamyndun og réttindabaráttu vinnandi fólks. Félagabrjótar eru náskyldir verkfallsbrjótum og lögbrjótum enda orð og gjörðir þeirra lík. Markmið þeirra er að brjóta niður réttindi og stöðu stéttarfélaga í samfélaginu. Félagabrjótar hafa verið á kreiki hér á landi allt frá því að fyrstu stéttarfélögin litu dagsins ljós fyrir og um aldamótin 1900. Þeir eiga sér fyrirmyndir í mörgum löndum Evrópu og Ameríku, enda runnir af sömu rót atvinnurekendavalds og einokunar í efnahagslífi og stjórnmálum.
Fyrir nokkur hélt Varða - rannsóknastofnun vinnumarkaðarins fjarfund á netinu sem fjallaði um aðferðir til að berjast gegn félagabrjótum (union busting). Þar kom fram Christian Sweeney starfsmaður bandarísku verkalýðssamtakanna AFL-CIO sem telja um 12 milljónir félagsmanna. Hann sagði að félagabrot væri nú orðin ein alræmdasta útflutningsafurð bandarískra hægrimanna í formi lögfræði- og ráðgjafafyrirtækja sem tekið hafa sér bólfestu í Evrópuríkjum á síðustu árum. Þessi fyrirtæki veita atvinnurekendum sérhæfða þjónustu í niðurbroti stéttarafélaga.
Í Bandaríkjunum hefur félagsaðild verkafólks fallið síðustu fjörutíu ár, úr um einum af hverjum þremur í einn af hverjum tíu af fólki á almennum vinnumarkaði. Á sama tíma hefur hlutur millistéttarinnar í þjóðarframleiðslu landsins fallið í sama hlutfalli. Mismunurinn hefur hafnað í vösum ríkasta fólksins, eina prósentsins, sem hefur bætt eignastöðu sína með ógnarhraða á þessum tíma. Þannig hafi efnahagslegt misrétti aukist mjög í Bandarísku samfélagi á síðustu árum, og var það þó ekki lítið fyrir. Varaði Christian Sweeney evrópska verkalýðssinna við þessari þróun.
Christian rakti þær aðferðir sem félagabrjótar nota í Bandaríkjunum til að brjóta niður verkalýðssamtök. Hann nefndi fimm leiðir: gera kjarasamninga óvirka, bæla niður verkföll, stöðva stofnun nýrra verkalýðsfélaga, grafa undan grónum stéttarfélögum og tvístra samstöðu verkafólks.
„Íslensk verkalýðshreyfing hefur þurft að takast á við félagabrjóta allt frá frumbernsku“
Allar þessar aðferðir hljóma kunnuglega, bæði í fortíð og nútíð. Íslensk verkalýðshreyfing hefur þurft að takast á við félagabrjóta allt frá frumbernsku hreyfingarinnar og síðustu misseri hafa aðferðir þeirra aftur orðið áberandi í kjaradeilum sem risið hafa á milli stéttarfélaga og atvinnurekenda. Má þar nefna kjaradeilu Eflingar síðasta vetur, samningamál Flugfreyjufélags Íslands á síðustu vikum og kjaramál Félags hjúkrunarfræðinga.
Reynsla bandarískrar verkalýðshreyfingar er víti til varnaðar og fulltrúi þeirra fjallaði einnig um hvernig svokölluð ráðgjafafyrirtæki á vegum atvinnurekenda starfa við niðurbrot félaga. Nefndi hann nokkur slík fyrirtæki sem opnað hafa starfstöðvar í Evópu og ná jafnvel til Norðurlanda (sjá fyrirlestur hans á netinu).
Íslenska leiðin
Á árum áður notuðu atvinnurekendur vald sitt til að koma í veg fyrir stofnun verkalýðsfélaga eða brjóta niður félög sem stofnuð voru. Þrjár leiðir voru áberandi í þeirri viðleitni. Í fyrsta lagi að hunsa tilveru félaganna, neita öllum samningum og bægja forsprökkum þeirra frá vinnu og svipta þá þannig afkomu sinni. Í öðru lagi, ef það fyrsta dugði ekki til, að senda fulltrúa sína inn á fundi félaganna með gylliboð og viðvaranir til að koma í veg fyrir að félögin gengju í Alþýðusamband Íslands. Í þriðja lagi, ef hin tvö ráðin dugðu ekki, að stuðla að stofnun auðsveipra félaga, til að sundra samstöðu vinnandi fólks og halda ákveðnum hópum launafólks utan heildarsamtaka.
Þegar verkafólk og sjómenn á Ísafirði sameinuðust í fjölmennu verkalýðsfélagi árið 1906, brugðust stærstu atvinnurekendurnir í bænum við með því að hunsa félagið og neita öllum kröfum þess um bætt kjör. Þegar verkafólk gerði verkfall var það rekið úr vinnu, unglingar og utanbæjarmenn ráðnir í staðinn og verkfallið brotið á bak aftur. Félagið dó fljótlega á eftir og merki þess var ekki reist á ný fyrr en áratug síðar. Árið 1906 var líka stofnað Verkamannafélagið Dagsbrún í Reykjavík. Félagsmenn þess gerðu engar kröfur til atvinnurekenda fyrstu árin sem það starfaði. Þeir héldu auk þess verkakonum utanvið samtökin. Þannig lifði félagið af.
Þegar Ólafur Jóhannesson verslunarstjóri Milljónafélagsins á Patreksfirði varð þess áskynja sumarið 1908 að verkafólk ætlaði að stofna samtök og krefjast hærri launa, brá hann við skjótt, réð nokkrar stúlkur úr nærsveitum í saltfiskinn og lét það boð út ganga að þær sem fyrir voru gætu átt von á því að missa vinnuna. Ekkert varð úr stofnun verkalýðsfélags, fyrr en löngu síðar. Hældist Ólafur um í einkabréfi, fyrir að koma í veg fyrir þennan samblástur verkafólks.
Þegar verkafólk í Súðavík stóð að stofnun félags til varnar hagsmunum sínum árið 1928, var forystumönnum þess gert ókleyft að fá vinnu í plássinu. Leituðu þeir þá til skólastjórans í þorpinu, Hannibals Valdimarssonar, um að taka við forystu félagsins. Það var upphafið af gifturíkum ferli hans sem verkalýðs- og stjórnmálaleiðtoga. Hann var eini opinberi starfsmaðurinn í þorpinu og því ekki háður atvinnurekendum á staðnum um afkomu og atvinnuöryggi.
Slíkar sögur eru til víðar af landinu, þó ég haldi mig við dæmi sem ég þekki best af rannsóknum mínum á sögu verkalýðshreyfingar á Vestfjörðum.
Útsendarar á ferð
Annað ráð atvinnurekenda var að hlutast til um starf stéttarfélaga með beinni íhlutun í innra starf þeirra. Oft var það gert með útsendurum, sérstökum fulltrúum atvinnurekanda, sem báru fram sjónarmið þeirra á fundum félaganna. Í fyrirlestri fulltrúa bandarísku hreyfingarinnar kom fram að þessi aðferð er alþekkt þar í landi, allt fram á þennan dag.
Þessi aðferð var oft reynd á fyrstu árum íslenskrar verkalýðshreyfingar. Atvinnurekendur sendu fulltrúa sína inná fundi félaganna. Þar töluðu þeir máli yfirboðara sinna og báru upp tillögur til að draga úr samstöðu innan félaganna eða innan heildarsamtakanna. Grímur Jónsson útgerðarmaður í Súðavík bauðst til þess að ganga að öllum kröfum verkalýðsfélagsins, ef það gengi ekki í Alþýðusamband Íslands. Bauðst hann meiraðsegja til að stofna sjúkrasjóð fyrir verkafólk á staðnum, ef það gengi að skilyrðum hans. Að vísu átti sjóðurinn að vera undir stjórn útgerðarmannsins og sóknarprestsins fyrstu áratugina.
Á Hólmavík og Borðeyri í Strandasýslu og víðar þar sem samvinnuhreyfingin var sterk, mættu kaupfélagsstjórarnir á fundi félaganna og létu í ljós þá skoðun að óþarfi væri að stofna stéttarfélag, þar sem allir væru í kaupfélaginu. Það gætti hagsmuna allra jafnt. Reyndu þeir eða fulltrúar þeirra oft að koma í veg fyrir að félögin, ef þau voru stofnuð, gengju í heildarsamtök verkafólks.
Gul verkalýðshreyfing
Þriðja og langlífasta aðferðin til að brjóta niður stéttarfélög er að stofna velviljuð eða auðsveip félög til höfuðs almennum verkalýðsfélögum. Stundum eru þessi félög sögð „óháð“, en það er mikið rangnefni, þar sem þau eiga alla tilvist sína undir náð atvinnurekendans. Þess vegna eru þau oft kölluð „gul verkalýðsfélög“. Tvennt einkennir slík félög: Í fyrsta lagi standa þau ætíð utan heildarsamtaka launafólks. Í öðru lagi gera þau aldrei sjálfstæðar kröfur til atvinnurekenda, heldur afrita kjarasamninga sem aðrir hafa gert. Þetta geta þau vegna þess „velvilja“ sem þau njóta hjá atvinnurekendum. Þannig njóta félagsmenn þeirra ákveðinn forréttinda með því að vera undir „verndarvæng“ atvinnurekenda og fá án fyrirhafnar og án átaka þær réttindabætur og kjör sem almennu félögin ná fram með baráttu og fórnum.
Atvinnurekendur reyndu á árum áður að stofna gul verkalýðsfélög til höfuðs almennum verkalýðsfélögum, svo sem á Ólafsvík og í Bolungarvík. Oft náðu þessi félög aðeins til sjómanna, en sjaldan til verkafólks. Ekki urðu þessi félög langlíf. Þau misstu tilgang sinn þegar alvöru verkalýðsfélög sönnuðu tilveru sína í heildarsamtökum. Ein stétt var þó lengi utan heildarsamtaka og átti sér félög sem kalla má gul félög eða auðsveip stéttarfélög. Það voru verslunarmenn.
Verslunarmannafélag Reykjavíkur var lengi blandað félag launafólks og verslunarstjóra og jafnvel verslunareigenda. Sama gilti um fleiri félög verslunar- og skrifstofufólks. Það var ekki fyrr en eftir 1950 sem VR varð hreint stéttarfélag og fljótlega eftir það leitaði það inngöngu í heildarsamtök launafólks.
Ný kynslóð gulra verkalýðsfélaga
Á síðustu árum hefur nokkuð borið á nýju gulu verkalýðsfélagi, sem uppfyllir bæði skilyrði flokksins algerlega. Þetta félag er afsprengi VR, enda stofnað af fyrrum formanni þess, sem valt úr valdastóli í uppgjöri félagsmanna við fortíðina. Þetta er Félag lykilmanna, stofnað árið 2012. Félagið starfar í anda sambærilegra félaga, sem stofnuðu hafa verið á Norðurlöndunum á síðustu áratugum. Þau standa utan heildarsamtaka launafólks og gera ekki ágreining við atvinnurekendur, en afrita samninga sem önnur félög ná, án þess að leggja nokkuð til baráttunnar sjálf.
Gul verkalýðsfélög eru vopn í höndum atvinnurekenda til að grafa undan tilgangi og baráttu hefðbundinna stéttarfélaga. Þau eru líka ein af þeim aðferðum sem atvinnurekendur nota til að sundra verkalýðshreyfingunni og brjóta niður baráttu þeirra til lengri tíma.
Nýjasta útspil atvinnurekenda er að stofna til nýrra undirokaðra og leiðitamra stéttarfélaga, sem ógna hefðbundnum, frjálsum og óháðum verkalýðsfélögum. Á síðustu árum hafa komið upp slík dæmi meðal sjómanna, hjá flugmönnum og flugþjónum. Afleiðingin er sú að samtök sjómanna hér á landi eru nú klofin niður í kjöl. Sjómenn starfa bæði innan Sjómannasambands Íslands og einnig innan félags sem á rætur að rekja til Sjómannafélags Reykjavíkur, öflugasta og framsæknasta verkalýðsfélags landsins á fyrri áratugum. Það félag nefnist nú Sjómannafélag Íslands og einkennist æ meir af gulum lit, stendur utan heildarsamtaka og virðist eyða meiri orku í baráttu gegn eigin félagsmönnum, en glímu við atvinnurekendur.
Flugmenn og fleiri stéttir hafa upplifað svipaða sögu gagnvart flugfélögum sem skrásett eru í útlöndum og „útvista“ starfseminni til að forðast kjarasamninga við íslensk stéttarfélög. Afleiðingin er klofningur og upplausn og veiking hefðbundinna stéttarfélaga. Samstaða félagsmanna í Flugfreyjufélagi Íslands vakti athygli og aðdáun þegar þeir stóðust síðustu áraun forsvarsmanna stærsta flugfélags landsins, sem reyndu með hótunum um stofnun guls stéttarfélags að brjóta niður félag þeirra.
„Þannig eru félagabrjótar víða á ferðinni í íslensku samfélagi“
Á sama tíma er í fréttum talað um stofnun nýs íslensks flugfélags sem ætlar sér að stofna „auðsveip“ stéttarfélög fyrir starfsfólk sitt. Fróðlegt verður að fylgjast með framhaldinu.
Þessi þróun rímar algerlega við þær viðvaranir sem Christian Sweeney frá AFL-CIO kom á framfæri á hádegisfundi Vörðu – rannsóknarmiðstöðvar vinnumarkaðarins.
Samstaðan virkar
Þannig eru félagabrjótar víða á ferðinni í íslensku samfélagi og full þörf á að vera á verði gagnvart þeim, hvar sem þeir birtast. Vald atvinnurekenda í samfélaginu er mikið bæði efnahagslegt og samfélagslegt. Samtök atvinnurekenda ráða yfir miklu fjármagni og virðast í æ ríkari mæli nýta sér „ráðgjöf“ og „aðstoð“ sérfræðinga á sviði lögfræði, almannatengsla og áróðurs, sem beita aðferðum félagabrjóta.
Rétta leiðin gegn félagabrjótum er ætíð sú sama, hvort sem litið er til sögunnar eða til Bandaríkjanna eða annarra landa. Samstaða vinnandi fólks um réttindi sín og kjör gegnum lögleg, frjáls og óháð verkalýðsfélög.
Sameinumst um virk og öflug verkalýðssamtök. Þau eru ein af undirstöðum velferðar og lýðræðis í okkar landi.
Athugasemdir