Þrír eru látnir eftir brunann á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu í gær. Tveir eru eru á gjörgæsludeild Landspítalans og samkvæmt heimildum Stundarinnar er að minnsta kosti annar þeirra mjög alvarlega slasaður og í bráðri lífshættu. Ennfremur herma heimildir Stundarinnar að flest bendi til að um íkveikju hafi verið að ræða.
Samkvæmt tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eru þrír látnir eftir brunann sem kom upp í húsinu um miðjan dag í gær. Eftir því sem Stundin kemst næst mun einn þeirra þriggja vera manneskja sem hoppaði út um glugga á þriðju hæð hússins í tilraun til að bjarga sér frá eldinum. Hinir tveir sem létust munu annars vegar hafa verið staddir á annarri hæð hússins og hins vegar á þriðju hæð. Slökkviliðsmenn þurftu frá að hverfa í leit að mönnunum vegna aðstæðna í húsinu en slökkviliðsmenn voru í hættu vegna hruns af efri hæðum og af þaki en einnig sökum hættu á að gólf kynni að hrynja undan þeim.
Flest bendir til þess að um íkveikju hafi verið að ræða og líklega mun eldurinn hafa komið upp á annarri hæð hússins. Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarssvæðisins, sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að það hefði komið mönnum hans á óvart hversu mikill eldurinn var orðinn og hversu hratt hann breiddist út, þegar þeir komu á staðinn.
Tvennt eru á gjörgæslu eftir brunann og mun annað þeirra vera í bráðri lífshættu. Einn hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi. Tveir voru handteknir á vettvangi fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu en sleppt eftir skýrslutökur. Einn er í haldi lögreglu í þágu rannsóknar á eldsvoðanum. Ákvörðun um hvort krafist verði gæsluvarðhalds yfir manninum verður tekin síðar í dag.






Athugasemdir