Miðflokkurinn lyktar eins og hestar, en Píratar anga ekki af skötu. Þetta kom fram í máli Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata, á Alþingi í gær þar sem hann reifaði hugmyndir um hvernig stjórnmálaflokkar lykta og bragðast.
Til umræðu var frumvarp Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem felur í sér innleiðingu á EES-reglum um vörumerki. Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um það hvernig tilkoma nýrrar tækni breyti því hvað felst í hugtakinu vörumerki.
„Breytingin felur í sér útvíkkun á því hvað getur talist vörumerki í takt við tilkomu nýrrar tækni,“ segir í frumvarpinu. „Vörumerki þarf því ekki lengur nauðsynlega að vera sýnilegt, sbr. t.d. hljóðmerki, að því tilskildu að það hafi til að bera nægjanlegt sérkenni og að unnt sé að tilgreina það í vörumerkjaskrá á nægilega skýran og nákvæman hátt. Krafan um að unnt sé að tilgreina merki á fullnægjandi hátt í vörumerkjaskrá útilokar þannig ekki skráningu óhefðbundinna merkja og er því hugsanlegt að t.d. lykt eða bragð geti verið vörumerki.“
Jón Þór ræddi sérstaklega um þetta atriði í umræðum um málið í gær. „Þegar við tökum svona ákvarðanir verðum við að passa okkur að stíga ekki skref, opna hurðargáttina, fyrir hlutum eins og því að setja lykt og bragð sem part af vörumerki. Prófum þetta. Hér er framsögumaður málsins, hin virðulega Halla Signý Kristjánsdóttir. Byrjum á Framsóknarflokknum. Hvernig mundi lykt og bragð Framsóknarflokksins vera?“
Halla Signý skaut þá inn í: „Fjósið!“
„Fjósið, fjósið segir háttvirtur þingmaður,“ sagði Jón Þór og hló. „Ókei, þarna er háttvirtur þingmaður greinilega búinn að gera tilkall til þess, þannig að þegar þessi lög eru samþykkt þá legg ég til að háttvertur þingmaður, Halla Signý Kristjánsdóttir, drífi sig niður á vörumerkjaskrifstofuna og skrái fjósið áður en að Miðflokkurinn nær fjósalyktinni.“
Þingmenn hlógu í kjölfarið. „Ég get róað háttvirtan þingmann með því að Gunnar Bragi Sveinsson, þegar ég spurði hann út í þetta, ég spurði hann einmitt hvort hann ætlaði að taka fjósalyktina og hann sagði: „Við tökum hestalyktina“.“
„ Ég held að fyrir kosningar hafi bragðið af Vinstri grænum verið ansi sætt“
Jón Þór spurði þá Njál Trausta Friðbertsson, þingmann Sjálfstæðisflokks, í framhaldinu hver lyktin eða bragðið yrði af flokknum en komust þeir ekki að niðurstöðu þó að ilmvatnið Old Spice hafi verið nefnt. „Prófum Vinstri græna. Ég held að fyrir kosningar hafi bragðið af Vinstri grænum verið ansi sætt. Bragð breytinganna og að gera betur. Mjög sætt, mjög sætt á bragðlaukana. Mig grunar samt sem áður að bragðið sé orðið ansi beiskt í dag.“
„Píratar eru mjög hrifnir af bjór“
Loks velti hann því upp hvert bragðið yrði af Pírötum. „Væri það romm? Kannski. Rommi hefur oft verið kastað að Pírötum. Bjórlykt? Það er annað, Píratar eru mjög hrifnir af bjór. Allavega ekki skötulykt, við vitum það. Við borðum ekki skötu eða annan þjóðlegan mat, þannig að kannski væri það bjórinn.“
Jón Þór bætti því við að öllu grínu sleppti væri tekið fram í greinargerð frumvarpsins að bragð og lykt geti heyrt undir skráningu vörumerkja. Hann spurði hvort hægt væri að undanskylja þessi atriði við innleiðingu EES-reglnanna. „Það er eiginlega svolítið óbragð af því,“ bætti hann við.
Halla Signý svaraði því að innleiðingin liðkaði fyrir íslenskum fyrirtækjum með markaðssetningu sína erlendis.
Athugasemdir