Hvar staðsetur þú þig gagnvart jafnréttissmálum? Eitthvað á þessa leið hóf ég viðtöl mín við karla sem skilgreindu sig ekki sem femínista, í viðtalsrannsókn minni til meistaragráðu í kynjafræði. Rannsóknin beindist að viðhorfum karla til jafnréttis. Niðurstaða mín var nokkuð afgerandi þar sem allir viðmælendur skilgreindu sig sem jafnréttissinna þótt fátt í viðhorfum þeirra teldist styðjandi við jafnrétti né til þess fallið að bæta stöðu jaðarsettra karla. Einkenndust viðhorf viðmælenda minna af orðræðu sem festir frekar í sessi kynjamisrétti og íhaldssamar karlmennskuhugmyndir. Auðvitað voru viðhorf viðmælenda ekki svo grímulaus að mér hefði strax verið ljóst að viðhorf þeirra væru í raun og veru ekki styðjandi við jafnrétti. Sumir þeirra tóku til að mynda undir gagnrýni femínista, töldu íhaldssamar karlmennskuhugmyndir ekki af hinu góða og töldu ofbeldi vera of algengt en … og það var þetta „en“ sem gerði útslagið.
Árásir á karla
Viðmælendur töldu femínista beita röngum aðferðum, femínistar væru að níða karla og aðferðir femínista væru til þess fallnar að skapa sundrung og glundroða. Þeim þótti varhugavert hvernig talað væri um karla, hversu mikið væri talað um ofbeldi karla og ekki nægjanlegt tillit tekið til hvítra karlmanna. Megineinkenni viðhorfa þeirra var að þau grundvölluðust á þröngri persónulegri sýn á jafnrétti þar sem femínísk barátta væri barátta gegn körlum. Þar sem þeir væru karlar, væri baráttan í raun gegn þeim og ekki fyrir þá. Viðhorf þeirra til jafnréttis voru byggð á eigin upplifun og byggðu að mörgu leyti ekki á ígrunduðum skoðunum eða viðtekinni þekkingu. Viðhorfin einkenndust því einnig af fákunnáttu og bókstaflegum skilningi á abstrakt hugtökum eins og feðraveldi. Enda höfnuðu þeir með beinum og óbeinum hætti kynjakerfinu (e. patriarchy) og efuðust eða höfnuðu því að ofbeldi karla gegn konum væri eins algengt og sýnt hefur verið fram á.
„Hver voru viðbrögð stráka og karla við þessum frásögnum? Algjör þögn.“
Er körlum skítsama?
Afneitun karla á reynslu kvenna og afskiptaleysi karla er óhugnanlega algengt. Fyrir stuttu óskaði samfélagsmiðillinn Karlmennskan, sem ég hef sjálfur umsjón með, eftir frásögnum kvenna af nýlegri reynslu af markaleysi, vanvirðingu, áreitni eða ofbeldi karla. Á innan við 24 klukkustundum bárust mér 150 frásagnir af nýlegum dæmum um nauðganir, óviðeigandi snertingar, ógnandi framkomu við konur í þjónustustörfum og almenna kvenfyrirlitningu í samskiptum. Þetta er ekkert nýtt og vel þekkt úr reynsluheimi kvenna. En hver voru viðbrögð stráka og karla við þessum frásögnum? Algjör þögn. Nema nokkrir sáu sig knúna til að benda mér á að strákar verði líka fyrir ofbeldi og að oft séu konur að senda mjög misvísandi skilaboð. Með öðrum orðum, ofbeldi karla gegn konum kemur körlum ekki við, heldur er í raun konum að kenna því þær senda misvísandi skilaboð. Þessi viðbrögð, hunsun og afskiptaleysi karla eru í fullkomnu samræmi við þau viðhorf sem birtust í rannsókninni minni.
„10 ára hrokafullar stelpur“
Ég dreg þá ályktun að karlar þoli ekki að vera ekki við völd, þoli ekki að þeim séu sett mörk, þoli ekki þegar umræðan er ekki á þeirra forsendum og geti ekki horfst í augu við að þeirra eigin viðhorf séu fyrirstaða jafnréttis. Þessi viðhorf spretta upp á yfirborðið þegar karlar upplifa að sér vegið eða að þeir telja sig eiga meiri virðingu skilið. Óháð því hvort upplifunin eigi rétt á sér eða ekki, þá er afskaplega opinberandi að heyra einn virtasta vísindamann okkar tíma tala um heilbrigðisráðherra Íslands sem „hrokafulla 10 ára stelpu“. Vísindamaðurinn myndi líklega aldrei segja að hann bæri ekki virðingu fyrir konum, þrátt fyrir að ummælin beri það ekki með sér að hann beri virðingu fyrir konum. Og það er í þessari þversögn sem ekkert breytist, það er með þessari þversögn sem karlar halda áfram að komast upp með að taka ekki ábyrgð og horfast í augu við hvernig viðhorfin þeirra viðhalda ójafnrétti. Birtingarmyndir ójafnréttisins eru ekki bara yfirlæti og vanvirðing heldur kerfisbundið ofbeldi, mismunun og útilokun.
Biðin eftir betri kynslóð
Sumir telja allt vera á betri leið, jafnréttið sé alltaf að verða meira og yngri kynslóðir séu opnari fyrir jafnrétti en þær eldri. Ég leyfi mér að efast um að kynjamisréttinu sé viðhaldið einungis af eldri kynslóðum og með útdauða þeirra verði allt betra. Þá afstöðu byggi ég meðal annars á samtölum mínum við hundruð unglingsdrengja síðastliðin tvö ár (í kringum fyrirlestra sem ég hef haldið um jafnrétti og karlmennsku) og á niðurstöðum rannsóknar minnar. Þar hefur birst mér djúp andspyrna við femínisma, jafnrétti og afneitun á reynslu kvenna meðal annars á lýsingum af ofbeldi, vanvirðingu, fyrirlitningu og markaleysi karla. Þessa andspyrnu sækja ungir strákar að sjálfsögðu til samfélagsumræðu um femínista, konur og einkum femínískar konur sem neita að láta yfir sig ganga. Ég er efins um að nokkuð muni breytast á meðan ungir strákar telja þau sem benda á ofbeldi vera ofbeldismanneskjur og að þau sem benda á mismunun séu að mismuna. Eina sem mun breytast, er að ungir strákar læra fágaðri aðferðir við að viðhalda sínum karllægu yfirráðum og munu ekki nota grímulausa frasa eins og eldri kynslóðir. Það er ekki af því að karlar eða strákar eru fæddir fávitar, heldur af því að þeir neita að hlusta og horfast í augu við reynsluheim sem er ekki þeirra. Þeir gangast undir hugmyndir kynjakerfisins (feðraveldisins) sem hefur tryggt þeim réttinn til að vera við völd. Það er ekki tilviljun að ofbeldi karla gegn konum er jafn algengt og rótgróið og raun ber vitni, það er lögmál kynjakerfisins sem strákar og karlar neita að horfast í augu við. Þannig grafa þeir ekki bara undan árangri jafnréttisbaráttu heldur viðhalda kerfisbundnu misrétti, styrkja íhaldssamar karlmennskuhugmyndir í sessi og stuðla að því að kynbundið ofbeldi fái áfram að þrífast.
Athugasemdir