Nú er komið á daginn að ríkasti Íslendingurinn hefur leynilega fjármagnað DV og DV.is, þriðja stærsta vefmiðil landsins, í hátt í þrjú ár, í stöðugum taprekstri. Stundin spurði Sigurð G. Guðjónsson lögmann, skráðan eiganda DV, hver stæði að baki félaginu, en hann neitaði að svara og talskona Björgólfs Thors Björgólfssonar, sem er metinn á hátt í 200 milljarða króna, sagði ósatt.
Það skuggalega við þetta er ekki bara að einn fjölmiðill er byggður á grunni leyndar og óheiðarleika. Það sem er hættulegt fyrir íslenskt samfélag er virknin og stóra myndin, hvernig fjölmiðlar lifa af, hver tilvistargrundvöllur þeirra er. Það er talað um að fjölmiðlar séu fjórða valdið, en fjórða valdið er á valdi sykurpabbanna.
Hvernig lifa þeir?
Það skiptir máli fyrir samfélag að fjölmiðlar geti lifað. Næsti kosturinn er að fjölmiðlar geti ekki lifað sjálfstætt, en lifi á forsendum annarra. Í tilfelli Íslands er staðan sú að fjölmiðlar lifa mestmegnis á forsendum sykurpabba, auðmanna sem kjósa að niðurgreiða tiltekna miðla.
Fréttablaðið, sem er nýr eigandi DV og Hringbrautar, er niðurgreitt af Helga Magnússyni, sem hefur meðal annars auðgast á Bláa lóninu.
Morgunblaðið er niðurgreitt af útgerðarfélögum og hefur tapað minnst 2,2 milljörðum króna á níu árum frá því að Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, varð ritstjóri.
Það er líka í eigu Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðsisflokksins í Reykjavík, en eins og Stundin hefur greint frá er ekki annað að sjá en að útgerðarfélagið Samherji hafi gefið honum fimmtung í Morgunblaðinu og afskrifað skuldina.
Aðrir eigendur eru ein mesta auðkona landsins, Guðbjörg Matthíasdóttir, og Kaupfélag Skagfirðinga, sem lagði Morgunblaðinu til fé síðast í fyrra.
Það þarf ekki að afskrifa fjölmiðla sem eru í eigu auðmanna. Washington Post á til dæmis mikilsvert framlag til bandarísks samfélags, þótt það sé í eigu auðmannsins Jeff Bezos, eiganda Amazon. Kjarninn.is, sem hefur verið fjármagnaður í óverulegu tapi af nokkrum frumkvöðlum og nú fengið til liðs við sig fleiri fjársterka athafnamenn, hefur fært fram gagnrýnið sjónarhorn og er langt því frá í ráðandi stöðu.
Auðmenn eru auðvitað misjafnir sem og fyrirætlanir þeirra. Sumir vilja breyta samfélaginu í samræmi við hugmyndafræði sína, aðrir í samræmi við hagsmuni sína og enn aðrir vilja eflaust viðhalda óháðri blaðamennsku. Við vitum ekki hvers vegna Björgólfur Thor ákvað að verja rúmlega hálfum milljarði af sínum tvö hundruð í að halda úti DV, en vísbendingar eru um að það tengist átökum hans við annan auðmann.
Óháð því hefur það óumflýjanlega áhrif á samfélag okkar að fjölmiðlar landsins treysti á sykurpabba. Ein augljós afleiðing er að það er mjög erfitt fyrir sjálfstæða fjölmiðla að lifa heilbrigðu lífi í samkeppni við niðurgreidd fyrirtæki.
Hvers vegna?
Davíð ritstýrir Morgunblaðinu og á Fréttablaðinu hefur skapast hefð fyrir því að setja einhvern vin eiganda sem ritstjóra. Núverandi ritstjóri, Jón Þórisson, hefur afar takmarkaða reynslu af fjölmiðlum, byrjaði sem sumarblaðamaður á sextugsaldri, samhliða laganámi, á Morgunblaðinu árið 2015. „Vissulega er hægt að finna reynslumeiri menn en það er líka hægt að finna menn sem hafa minni reynslu,“ sagði hann í tilefni ráðningarinnar.
Meðal stefnuskrár Fréttablaðsins er að „efla atvinnulífið“. Morgunblaðið á sér einnig æðri tilgang um að hafa áhrif á hugsanir fólks í átt að frjálsum viðskiptum: „Tilgangur félagsins er að styðja frjálst viðskiptalíf og efla heilbrigðan hugsunarhátt í öllum þjóðfélagsmálum. Tilgangi þessum hyggst félagið fyrst og fremst ná með útgáfustarfsemi og fjölmiðlun.“
Auðvitað má segja að það sé pólitískur undirtónn í stefnuyfirlýsingu Stundarinnar, svo dæmi sé nefnt, sem gengur út á að almenningur þurfi að fá upplýsingar frá óháðum fjölmiðlum sem ekki eru í eigu helstu hagsmunaaðila, niðurgreiddir af auðmönnum eða með flokkspólitískar tengingar.
En út frá frumspekilegri eða líffræðilegri nálgun er munur á því að fyrirbæri lifi á ákvörðunum almennings um að kaupa áskrift, eða ákvörðunum auðmanns um að veita hluta fjármuna sinna til tapreksturs á upplýsingamiðlun til almennings, óháð því hver fyrirbærin eru.
Átök bakvið tjöldin
Á bakvið tjöldin hafa síðan átt sér stað ævintýralegar vendingar. Fjölmiðlarekstur Björgólfs Thors virðist vera hluti af samkeppni hans við Róbert Wessmann. Hluti af aðkomu Björgólfs Thors var að bjarga Birni Inga Hrafnssyni, fyrrverandi borgarfulltrúa, og líklega vafasamasta fjölmiðlamanni landsins, sem þá hafði svikið Róbert eftir að hann lagði honum til fé.
Björn Ingi var meðal annars ritstjóri Markaðarins fyrir hrun, sem var viðskiptablað Fréttablaðsins, og skrifaði fréttir til stuðnings bankamönnum. Hann var þá leynilega með hundruð milljóna króna kúlulán hjá Kaupþingi, og tók samtímis viðtal við forstjóra Kaupþings. Hluti af siðferðislega frjálsræðinu sem Björn Ingi naut var að hann er ófeiminn við að blanda sér inn í viðskiptalega og stjórnmálalega hagsmuni sem fjölmiðlamaður. Á einum tímapunkti sagðist hann vera að „klastra saman ríkisstjórn“, í tölvupósti til samstarfsmanns Róberts Wessmann, sem sagði Björn Inga haf hótað honum ítrekað. Síðar reyndi hann að stofna stjórnmálaflokk fyrir félaga sinn, Sigmund Davíð Gunnlaugsson.
Björn Ingi hafði verið höfundurinn að yfirtöku á DV haustið 2014, með hjálp aðila eins og Björns Leifssonar í World Class, sem mislíkaði fréttir um hvernig hann fékk afskrifaðar skuldir eftir hrun, og Sigurðar G. Guðjónssonar, sem rak meiðyrðamál auðmanna gegn DV. Árin áður hafði DV reynt að reka sig í óháðu eignarhaldi, en gengið reksturinn verið erfiður og því var leitað til nýrra hluthafa sem á endanum leiddi til þess að miðillinn stóð ekki sjálfstæður.
Lögbundið að gefa upp eigendur
Eftir að Björn Ingi Hrafnsson hafði rekið DV í þrot og tekið yfir alls kyns fjölmiðla í fallinu, kom Björgólfur á laun til bjargar. Skylt er samkvæmt fjölmiðlalögum að gefa upp opinberlega eigendur fjölmiðla, og Sigurður G. Guðjónsson varð leppur fyrir Björgólf. Sigurður G. neitaði þráfaldlega að svara spurningum Stundarinnar um hver væri endanlegur eigandi DV. Fjölmiðlanefnd var ófær um að sýna fram á raunverulegt eignarhald. Karl Garðarsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, var gerður að framkvæmdastjóra.
Í eignartíð Björgólfs Thors hefur DV stundað blaðamennsku sem snýst að miklu leyti um að afrita efni annars staðar frá. Það gildir ekki bara um að meginþorri efnisins er tekinn af samfélagsmiðlum, heldur að miðillinn byggir á því að afrita fréttir sem aðrir fjölmiðlar hafa lagt vinnu í að framleiða, og birtir þær síðan með grófari fyrirsögn sem er smelluvænlegri. Jafnvel hafa verið teknar heilar greinar frá öðrum miðlum og þær birtar á DV.is orðrétt, að viðbættum umorðunum. Stundum hefur fólk, sem farið hefur í viðtal annars staðar, verið afskræmt í meðförum DV.is þegar miðillinn stelur efninu og reynir að sjokkera til að fá lestur.
Þetta hefur þýtt að fjölmiðill sem reynir að vera sjálfstæður og óháður, þarf að keppa við annan sem er niðurgreiddur af auðmanni um tæpar sjö milljónir króna á hvern starfsmann á ári, og notar niðurgreiðsluna til að afrita og stundum afskræma vinnu hins.
Reynt að hafa áhrif á styrki
Í dag komu fram tölur sem sýndu fram á 17 prósent tekjufall fjölmiðla á milli áranna 2017 og 2018. Það er náttúruleg þróun, enda hefur kostnaður við fréttaöflun fallið á sama tíma. Hættan er að fjölmiðlar í niðurgreiðsluumhverfi muni þurfa að leggja lágmarksorku í fréttavinnslu og fréttir verði því að megninu til unnar af upplýsingafulltrúum hagsmunaaðila.
Haustið 2018 kynnti Lilja Alfreðsdóttir frumvarp um nýja styrki til einkarekinna fjölmiðla líkt og á hinum Norðurlöndunum, upp á 400 milljónir króna, sem átti að greiða út fyrir lok mars í ár. Frumvarpið hefur strandað í meðförum allsherjar- og menntamála nefndar Alþingis, sem Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, veitir formennsku.
Þegar COVID-faraldurin hófst var ákveðið að frysta frumvarpið. Í staðinn var byrjað að tala um neyðaraðgerðir fyrir fjölmiðla vegna tekjufalls tengt faraldrinum. Niðurstaðan virðist hins vegar vera að fresta eigi stuðningi við fjölmiðla samkvæmt frumvarpinu, en veita þess í stað neyðarstuðning sem verður nákvæmlega sá sami og lagt var upp með áður en neyðin hófst. Eini munurinn er að núna er ætlunin að veita þá seinna, fyrir 1. september en ekki lok mars.
Eitt lykilatriðið í frumvarpi Lilju og ráðuneytisins, var að dreifa ætti styrkjunum vel og setja þak á hversu mikið hvert fjölmiðlafyrirtæki gæti fengið. Fréttablaðið og Morgunblaðið hafa barist gegn þessu, rétt eins og þingmenn eins og Óli Björn Kárason í Sjálfstæðisflokknum, sem setti DV í þrot upp úr aldarmótum. Óli Björn fékk í gegn breytingu á orðalagi í frumvarpi Alþingis um neyðarstuðninginn, þar sem fjarlægt var ákvæðið um valddreifingu: „Enn fremur að litið verði til þess að stuðningur verði hlutfallslega meiri til minni aðila og þak verði sett á fjárhæð styrkja til einstakra aðila.“
Samkeppniseftirlitið hefur hins vegar stutt dreifingu gegn samþjöppun. Umsögn Samkeppniseftirlitsins undirstrikar hins vegar vandamálið við sykurpabbavæðingu fjölmiðla:
„Í sumum tilvikum blasir við að ráðstöfun þessara aðila á fjármunum í fjölmiðlarekstur hefur það meginmarkmið að ljá hagsmunum viðkomandi aðila enn sterkari rödd og vinna þeim þannig frekari framgang.“
---
Fyrirvari um hagsmuni: Höfundur er eigandi að 12% hlut í Útgáfufélaginu Stundinni. Hér má sjá hagsmunaskráningu ritstjóra.
Athugasemdir