DV hefur ítrekað fjallað um lúxuslíf fjárfestisins Björgólfs Thors Björgólfssonar frá haustinu 2017. Hvergi var tekið fram að hann væri fjárhagslegur bakhjarl fjölmiðilsins. Björgólfur Thor hefur verið sakaður um að hafa bein áhrif á fréttaflutning DV af andstæðingum sínum.
Í dag var upplýst að Novator, félag Björgólfs Thors, hafi verið eini lánveitandi og helsti bakhjarl DV frá árinu 2017. Þetta kom fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins þar sem kaup Torgs ehf., félagsins sem á Fréttablaðið, á Frjálsi fjölmiðlun, félagsins sem á DV, voru samþykkt. Björgólfur hefur lánað félaginu 475 milljónir króna hið minnsta og hefur hluta skuldarinnar verið breitt í hlutafé í stað endurgreiðslu.
Flestar þeirra frétta sem DV hefur birt um Björgólf Thor fjalla um lúxuslíf hans og þá sérstaklega vináttu hans við knattspyrnustjörnuna David Beckham.
Ein fréttin er með fyrirsögnina „Beckham og Björgólfur Thor eru bestu vinir: Þetta hafa þeir brallað saman í gegnum árin“. Í henni, eins og öðrum fréttum DV um þá, er fjallað um ferðir þeirra saman á íþróttaleiki, vínekrur og í laxveiði.
„„Ég er sko vinur þinn,“ gæti verið lagið sem Björgólfur Thor Björgólfsson, syngur fyrir David Beckham þegar þeir eru á ferð og flugi,“ segir í fréttinni. „Miðað við hversu miklum tíma þeir félagar eyða saman, er ekki úr vegi að stimpla þá sem bestu vini.“
„Miðað við hversu miklum tíma þeir félagar eyða saman, er ekki úr vegi að stimpla þá sem bestu vini“
Í annarri frétt er fjallað um heimsókn hans á veitingastað með fyrrum leikmönnum Manchester United. „Sjáðu hverja Björgólfur Thor hitti í gær: „The Boss““
Þá hefur DV meðal annars fjallað um hús Björgólfs Thors, stöðu hans á lista Forbes yfir ríkasta fólk í heiminum, málsvörn hans vegna falls Landsbankans, sem hann átti fyrir bankahrun, og pistil hans þar sem hann fjallar um hvað valdið hafi hruninu. Í pistlinum segist hann hafa beðist afsökunar á sínum þætti í eigna- og skuldabólunni og á andvaraleysi gagnvart þeim hættumerkjum sem hrönnuðust upp.
„Það var enginn annar sem baðst afsökunar!“
„Ég reiknaði með að aðrir fylgdu í kjölfarið og bæðust afsökunar á hlut sínum í aðdraganda hrunsins,“ skrifaði Björgólfur Thor. „Ég varð alveg gáttaður þegar enginn brást við. Ekki bissnissmenn, ekki bankamenn, ekki embættismenn, ekki eftirlitsaðilar, ekki fjölmiðlamenn, ekki þingmenn, ekki ráðherrar, ekki fyrrverandi stjórnendur Seðlabankans. Það var enginn annar sem baðst afsökunar! Þannig urðu aldrei til nein drög að sáttum þegar samfélagið þurfti mest á því að halda.“
Í engri fréttanna var tekið fram að Björgólfur Thor væri fjárhagslegur bakhjarl DV. Þær upplýsingar lágu ekki fyrir opinberlega, en Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður og eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar, neitaði að svara því í samtölum við Stundina hver hefði lánað félaginu pening til að greiða tapreksturs þess. Þá neitaði Ragnhildur Sverrisdóttir, talskona Björgólfs Thors og Novator, því að hann kæmi að fjármögnun DV árið 2017.
Spurði hvort Björgólfur hefði áhrif á umfjöllun
Björgólfur Thor og Róbert Wessman, stofnandi og forstjóri samheitalyfjafyrirtækisins Alvogen, hafa átt í opinberum illdeilum um árabil sem hófust þegar þeir unnu saman hjá Actavis á síðasta áratug. Björgólfur rak þá Róbert úr stóli forstjóra Actavis eftir að hann hafði eignast fyrirtækið.
Í byrjun árs 2017 eignaðist Róbert meirihluta í Pressunni, félaginu sem átti DV, þegar hann lagði 150 milljónir inn í félagið. Ekki var hins vegar haldinn stjórnarfundur eftir að Róbert eignaðist meirihluta í félaginu og gátu fyrri eigendur og stjórnarmenn Pressunnar, þeir Björn Ingi Hrafnsson og Arnar Ægisson, því selt allar eignir fyrirtækisins út úr því og til Frjálsrar fjölmiðlunar án þess að Róbert kæmi að þeim viðskiptum. Fyrir vikið tapaði hann um 150 milljónum króna.
Nú er komið í ljós að Björgólfur Thor fjármagnaði Frjálsa fjölmiðlun frá upphafi. Það var þó gert með lánveitingum, en ekki eignarhaldi og því ekki þörf á að tilkynna stuðninginn til fjölmiðlanefndar, sem tryggja á gagnsæi í eignarhaldi fjölmiðla. Karl Garðarsson, framkvæmdastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar og fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, sagðist á þessum tíma ekki heldur vita betur en að Sigurður væri eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar. „Ég veit ekki betur en Sigurður G. sé skráður eigandi einn,“ sagið hann. „Ég samdi við hann.“
Í frétt á vef DV í júní 2018 var Róbert svo vændur um að hafa keypt sér viðskiptaverðlaun tímaritisins European CEO sem forstjóri ársins í lyfjabransanum. Í samskiptum við Stundina neitaði tímaritið því að verðlaunin væru seld, þó fyrirtækið hefði keypt hjá því auglýsingar. Halldór Kristmannsson, talsmaður Róberts og Alvogen, sagðist telja að einhver kynni að öfunda Róbert Wessmann út af velgengni Alvogen og vilja grafa undan honum.
„Maður spyr sig eðlilega hvort Björgólfur Thor sé farinn að hafa bein áhrif á umfjöllun DV“
„Þegar maður les svona umfjöllun eins og var um málið á vef Dv.is í gær þá veltir maður fyrir sér hver heldur um pennann,“ sagði Halldór. „Það skráir sig enginn fyrir þessari frétt og þegar ég hafði samband við ritstjórn blaðsins þá voru menn ekki vissir um hvaða blaðamaður hafði skrifað fréttina. Getur verið að það hafi verið einhver utanaðkomandi, jafnvel sá aðili sem talið er að fjármagni rekstur DV? Maður spyr sig eðlilega hvort Björgólfur Thor sé farinn að hafa bein áhrif á umfjöllun DV.“
Athugasemdir