Margt hefur rekið á fjörur Hrefnu Guðmundsdóttur, vinnusálfræðings hjá Vinnumálastofnun og meðhöfundar bókarinnar Why are Icelanders so happy, þegar hún hefur stúderað hamingjuna, sem lengi hefur verið henni hugleikin.
„Það kom mér á óvart í árdaga rannsókna á sviði hamingju að það væri heilbrigt ástand að vera tiltölulega hamingjusamur. Í einni þeirra laut rannsóknarspurningin að því hversu hamingjusamir einstaklingarnir væru á kvarðanum frá einu prósenti til tíu. Ef við skoðum aðeins kvarðann um það hversu hamingjusöm við erum á bilinu eitt til tíu, þá telst það ekki heilbrigt ástand að vera einungis fimm í hamingju, nema þegar við tökumst á við mjög erfið verkefni líkt og sorg og djúpstæð áföll. Að vera sjö í hamingju er nær því sem manneskjunni er eðlislægt. Það er mikil fegurð í því, ekki satt? Eins þótti mér virkilega ánægjulegt þegar að ég komst að því að hamingjan vex frekar með árunum heldur en hitt, þótt auðvitað sé það einstaklingsbundið. Ef við ætlum að reyna að mæla hamingjuna eins og við mælum sársauka, nota kvarðann frá einum til tíu, ef mesta hugsanlega hamingjutalan sé tíu og sú minnsta hugsanlega einn, þá er einnig deilt um það hvort betra sé að vera með töluna átta eða tíu í hamingju. Hugsanlega er þetta eina prófið í heiminum þar sem átta er kannski betri en tía. Í þessari hugmynd felst að í áttunni býr meiri yfirvegun og sátt, taka því sem að höndum ber og mæta örlögum sínum. Að í tíunni sé mögulega boginn full spenntur og því líkur á að hamingjuástandið sé tímabundið og því minni farsæld til lengdar. Nema að einstaklingurinn nái að vera mjög oft og til langs tíma í tíu í hamingju sem hlýtur að vera algjör sæla. Það var ekki nema 1% svarenda við spurningunni sem svöruðu á þá leið að þeir skildu ekki spurninguna.“
„Þetta er allt að koma“
„Þegar ég hugsa um mína eigin hamingju og þau bjargráð sem ég hef lært þá finnst mér ég búa ekki síst að þeim bjargráðum sem afi minn kenndi mér. Hann var fæddur árið 1920 og ein af hans ráðleggingum var þess lútandi að þegar mér liði illa væri besta ráðið að vera góð við einhvern. Einnig sagði hann oft að það væri ekki til það sem ekki rættist úr og að margir kviðu þeim degi sem aldrei kæmi, það tók mig þó einhverja áratugi að skilja þetta. Hann afi minn var einnig á því að það að ganga væri besta lyfið og ég er ekki frá því að þetta sé allt saman rétt hjá honum. Við finnum þetta á eigin skinni að ef við göngum talsverðan spotta þá fer eitthvað í gang, það er sem hugurinn léttist og maður fær jafnvel nýja sýn og nýjar lausnir. Eins er það með sönginn, við syngjum ekki lengi án þess að brúnin léttist. Ella þurfum við að hætta að syngja vegna harms.
En öllu má nú þó ofgera, allavega fannst ömmu minni það þegar hún var að fara að fæða sitt fyrsta barn og kvaldist af hríðum og afi stakk þá upp á því hvort það væri ekki gráupplagt að rölta hringinn í kringum þorpið. Mér skilst að amma mín hafi lítið hresst við þessa uppástungu. Við afi fórum margar göngur í Fljótshlíðinni og í kringum Hvolsvöll og þar voru málin skeggrædd og gat ég trúað honum fyrir hinum ýmsu raunum og gleðiefnum, hann stappaði í mig stálinu og á sama tíma var ekkert í umhverfinu sem truflaði samveruna.
„Hún var að fara að fæða sitt fyrsta barn og kvaldist af hríðum og afi stakk þá upp á því hvort það væri ekki gráupplagt að rölta hringinn“
Hún amma mín reyndist mér einnig ráðagóð og ráðlagði mér að leggja mig fram við að trúa því ávallt að eitthvað gott gæti gerst.
Við vinkonurnar leystum oft málin hér á árum áður símleiðis eða í göngutúrum. Við ræddum eitt og annað sem við vorum að takast á við hverju sinni sem gátu verið hin ýmsu lífsverkefni. Samtölin okkar enduðu yfirleitt á því að setningunni „þetta er allt að koma“ var flaggað. Á þeim augnablikum vorum við farnar að hlæja að hver annarri, þó ekki nema vegna eigin ófarnaðar, ólukku og óheppni. Þessi litla gildishlaðna setning var svona áminning til okkar um að þetta væri tímabundið ástand þegar upp var staðið og að nú færi þetta allt að koma hjá okkur. Að ástandið gæti nú varla versnað meira úr þessu.“
Það sem núið kennir okkur
„Nú á tímum Covid-19 höfum við sum hver haft töluvert meiri tíma en áður til þess að líta inn á við og reyna að bera kennsl á okkar eigin tilfinningar og átta okkur á því í leiðinni hvernig okkur líður og hvert við í raun viljum stefna. Þá er gott að hlusta á okkar innri rödd, sem er innsæið sjálft. Á sama tíma erum við nú að finna sterkt hversu mikið við viljum vera nálægt þeim sem okkur eru kærastir og finnum í leiðinni hversu innihaldsríkara líf okkar er vegna allra þeirra sem við erum að deila lífinu með. Við söknum og fáum að hlakka til. Hamingjan er nefnilega ekki það að vera laus við sorgir eða áhyggjur, heldur hvernig við tökumst á við þau örlög sem við fáum í fangið.“
Athugasemdir