25. mars 2020
„Þetta er fimmtándi dagurinn sem við erum lokuð inni á heimili okkar. Við erum fjögur. Börnin brosa og ærslast um íbúðina. Eftir morgunmat eiga þau að læra heima eftir þeim fyrirmælum sem berast frá skólanum þeirra daglega. Þetta er í fyrsta sinn sem ég er hrygg frá því faraldurinn hófst. Pabbi var að hringja í mig til að segja mér frá því að föðurbróðir minn hafi greinst með COVID-19 og hafi verið lagður inn á gjörgæslu. Ég get ekki ímyndað mér andlát án hinstu kveðju. Talan yfir fjölda látinna og smitaðra á Spáni hækkar stjórnlaust. Í dag eru 4.089 dánir og 56.188 smitaðir, samkvæmt opinberum tölum. Tölurnar verða hærri á morgun. Forsætisráðherrann, Pedro Sánchez, hefur ekki enn fyrirskipað algjöra einangrun á landsvísu. Ég hef á tilfinningunni að þeir vilji frekar að fólkið látist heldur en efnahagslífið veikist. Það lítur út fyrir að Spánn fylgi fordæmi Donalds Trump. Það hjálpar mér að horfa á hverjum degi á risavaxinn sítrusviðinn sem breiðir úr sér fyrir framan gluggann hjá okkur. Ég held að þetta séu tvö tré sem hafa verið svo lengi í faðmlögum að nú er ómögulegt að þekkja þau í sundur. Í dag sá ég í því fugla í hreiðurgerð. Þvílík gleði! Dagurinn hófst í sólskini. Nú byrjar að rigna. Ég tek þvottinn af snúrunni.“
26. mars 2020
„Í dag talaði ég í síma við frænku mínu, Gemmu Mateus, sem er hjartalæknir á spítalanum í Bellvitge í Barcelona. Ég fékk hnút í magann. Það er ekki nógu mikið pláss á gjörgæslunni til að sinna öllum sjúklingunum. Svo margir hafa sýkst að það hefur lamað heilbrigðiskerfið. Ríkisstjórnir Spánar og Katalóníu hafa á undanförnum árum leyft heilbrigðiskerfinu að hrynja og núna treysta þeir á heilbrigðisstarfsfólk eins og hermenn í fremstu víglínu. Þvílík skömm. Jesús, sambýlismaður minn, er að baka. Við hömstruðum ekki matvöru eins og svo margir aðrir, jafnvel þó að við óttumst það versta. Á morgun verður kaka í morgunmat! Ég er blaðamaður og menningarmiðlari. Að undanförnu hefur menningarlífið sýnt á sér gjafmildu hliðina og boðið ýmsa ókeypis viðburði á netinu. Bransi sem hið opinbera hefur gert lítið úr veitir innilokuðum sálum neyðaraðstoð. Þvílík skömm! Frændi minn sem er sýktur af COVID er ennþá á gjörgæslu og ástand hans er alvarlegt. Klukkan er orðin fimm. Samkvæmt rútínunni er nú komið að Jane Fonda-æfingum. Ég hef stundað þær í tvær vikur og fylgi nú æfingum fyrir lengra komna. Ég fer í leikfimifötin mín. Börnin mín klæðast þegar íþróttafötum. Ég elska þegar Jane Fonda segir: „Resist!“
27. mars 2020
Aldrei hafa fleiri látist á einum degi á Spáni: 832 á 24 tímum.“ Þannig er fyrirsögnin á forsíðu El País klukkan 16.16. Ég les í vefútgáfu La Vanguardia að vinnumálaráðerra Spánar greinir frá því að atvinnuleysisbætur hafi náð hæstu hæðum. Simó, eldra barnið mitt sem er 10 ára, var í boltaleik og eyðilagði óvart fígúru úr Dragon Ball-safninu sínu. Hann hrundi saman. Ég man ekki eftir því að hafa séð hann gráta svona mikið, nokkurn tímann. Á meðan pabbi hans hughreysti hann hugsaði ég um þann tilfinningalega skaða sem hlýst af þessum heimsfaraldri, bæði fyrir einstaklinga og samfélagið. Við eigum ekki bara eftir að þurfa að endurreisa efnahagskerfið, heldur manneskjur líka, samfélög.
„Ég man ekki eftir því að hafa séð hann gráta svona mikið, nokkurn tímann“
Við erum alltaf með kveikt á útvarpinu. Það tengir okkur umhverfinu, meira núna en nokkru sinni. Já, við erum ímyndin fjölskyldunnar sem situr límd við útvarpið, eins og í seinni heimsstyrjöldinni. Fréttirnar eru ekki allar slæmar. Í dag voru sagðar fréttir af litlum og meðalstórum fyrirtækjum, sem með hraða og ótrúlegri aðlögunarhæfni hafa breytt starfsemi sinni og hafa nú tvöfalt markmið: Að koma í veg fyrir að fara á hausinn sjálf en berjast í leiðinni gegn faraldrinum. Hrukkukremið mitt er búið. Undir venjulegum kringumstæðum færi ég út á götu til að kaupa nýja krukku, en þetta eru ekki dagar lágkúru. Sem betur fer á ég á svölunum yndislega Aloe Vera-plöntu sem hefur verið í fjölskyldunni í margar kynslóðir. Hún gefur mér raka þessa dagana og er ánægð með að verða til gagns.
28. mars 2020
„Loksins hefur ríkisstjórn Spánar tekið ákvörðun um að stöðva alla starfsemi sem ekki er bráðnauðsynleg í landinu, frá og með mánudegi. Þannig hefur það verið hér í Katalóníu frá því að formlega var lýst yfir heimsfaraldri. Líkt og ég geri alla daga hringdi ég í pabba. Hann er 79 ára og býr einn. Hann er verkfræðingur en er mikill heimspekingur í sér, meðal annars vegna aðdáunar sinnar á löngum göngutúrum, sem hann klárar nú samviskusamlega inni í 90 fermetra íbúðinni sinni. Í dag spurði hann mig: „Af hverju tölum við um innilokun fyrst núna, þegar við erum í raun og veru alltaf innilokuð? Í íbúðum okkar, í vinnunni, í borgunum. Ginebra, dóttir mín sem er sjö ára, er búin að finna geisladiskasafnið mitt. Hún bað mig að hlusta á tónlist með sér. Sem betur fer á ég ennþá geisladiskaspilarann minn. Við dönsuðum af krafti við Radiohead, Pixies, The Cardigans. Ég deildi líka með henni undarlegri aðdáun minni á söngleikjum Andrew Lloyd Webber. Ég skemmti mér stórkostlega. Klukkan átta um kvöldið fórum við upp á þaksvalirnar og klöppuðum fyrir heilbrigðisstarfsfólki. Þetta er orðin helgiathöfn sem við endurtökum á hverjum degi, alltaf á sama tíma. Við klöppum í samhljómi með hundruðum annarra sem frá þökum sínum, svölum og bakgörðum stappa stálinu í læknana, hjúkrunarfræðingana og hitt heilbrigðisstarfsfólkið, svo það geti haldið áfram baráttunni gegn þessum ósýnilega, litlausa og þögla óvini. Þetta er allt svo undarlegt.“
29. mars 2020
Maðurinn minn þarf að fara út að kaupa í matinn. Hann reynir að fara einu sinni í viku. Hann fer út á götu í latexhönskum, með grímu fyrir andlitinu og með gleraugu. Þegar hann kemur aftur heim sótthreinsar hann allar vörurnar, bæði þær pökkuðu og þær fersku. Svo fer hann úr öllum fötunum, lokar þau ofan í poka og fer svo í sturtu. Í þessu fylgjum við leiðbeiningum heilbrigðisyfirvalda. Það tekur tíma að kaupa inn. Krakkarnir hafa ekki farið í skólann síðan 13. mars en þau sækja stafrænar kennslustundir og fá heimavinnu frá skólanum. Ég á ekki von á að þau snúi aftur þangað á þessu ári. Ég óttast að menntakerfið eigi eftir að versna við þessa kreppu, sem herjar bæði á heilsu og efnahag.
„Hann fer út á götu í latexhönskum, með grímu fyrir andlitinu og með gleraugu“
Ég lýk deginum með því að lesa úrval af bestu sögum hans Chekhovs og ímynda mér rússneska lækninn skrifa af sinni einstöku skerpu og einfaldleika um hversdagsleika heimilanna meðan á innilokuninni stendur. Tilhugsunin gerir mig dapra. Nágranni minn leikur á píanóið af meiri ákafa en áður. Hann hefur breytt efnisskránni. Áður hljómaði Mánaskin Debussy, nú er það Mamma, hans Freddie Mercury.
30. mars 2020
Ég las hrífandi grein um daginn. Sögu 89 ára gamals afa, Don Rafael, sem flúði hjúkrunarheimilið þar sem hann bjó, til þess að koma í veg fyrir að hans tími kæmi. Sá gamli komst svo að því að margir vina hans höfðu látist úr COVID-19. Ég komst ekki hjá því að hugsa um Gamlingjann sem skreið út um gluggann og hvarf eftir Jonas Jonasson. Annar rigningardagur og veðurstofan spáir vatnsveðri alla vikuna. Við munum ekki geta farið upp á þaksvalirnar með tjaldstólana okkar til að njóta sólarinnar þessa vikuna. Á Spáni eru 849 látnir til viðbótar og aftur er met slegið. Ríkisstjórnin samþykkir aðgerðir til að styðja við efnahagslífið. Eftir að þetta er allt saman yfirstaðið þarf að taka djúpa umræðu um hvers konar land við viljum vera. Við höfum tekið ákvörðun um að planta tré í íbúðinni. Stóru tré með vorblómum á. Sagt er að ef þú faðmir tré líði þér betur. Við eigum engan garð, né nokkra mold en við eigum hvítan vegg, málningu og ímyndunarafl.
31. mars 2020
Síðasta færslan í þessa dagbók. Það eru margir mánuður fram undan, áður en ástandið verður aftur eðlilegt. Ég vona – og það segi ég af einlægni – að það verði annar veruleiki en sá sem var, áður en þessi heimsfaraldur hófst, með sínum afleiðingum fyrir heilsu, samfélag og efnahag, sem enn er óljóst hverjar verða. En ég óttast að minni okkar muni slævast og þynnast út og að við verðum ófær um að rökræða og skapa nýjar sviðsmyndir og ný tækifæri. Ég er skeptísk vegna þess að ríkisstjórnir okkar forðast sjálfsskoðun og samfélagið er upptekið af því að komast upp úr efnahagskreppunni. Núna tengjumst við hvert öðru í gegnum sýndarveruleika og mér finnst það hörmulegt. Í dag sat ég fjarkennslustund í menningarfræði. Fimmtán manneskjur tengdar í fjórar klukkustundir, gagngert til að rökræða málefni safna. En engar rökræður áttu sér stað og það fannst mér hughreystandi. Við erum tegund sem þarfnast raunverulegs staðar til að eiga í samræðum og gera tilraunir. Ég loka dagbókinni í íbúðinni minni í Gracia í Barcelona, þar sem stöðug þögn ríkir á götum og torgum. Á morgun kemur nýr dagur, svipaður þeim í dag: Fjarvinna, börnin læra heima, ég geri leikfimi og les. Hann verður litaður af djúpum söknuði til vina okkar og fjölskyldu. Ég ber þá von í brjósti að framtíðin verði öðruvísi.
Athugasemdir