25. mars 2020
„Ég bý í útjaðri smábæjar sem er í klukkustundar fjarlægð frá höfuðborg Ungverjalands, ekki langt frá slóvensku landamærunum. Undanfarna áratugi hafa þessi landamæri milli tveggja landa í Evrópusambandinu ekki haft mikla þýðingu. Nú eru þau þau allt í einu næstum áþreifanleg. Við konan mín erum bæði sjálfstætt starfandi.
Tekjur okkar koma að mestu leyti úr kvikmyndaiðnaðinum sem hefur farið hratt vaxandi í landinu. Við vorum fullbókuð í hin ýmsu verkefni fyrir kvikmyndir þegar útgöngubannið skall á. Fyrst fannst okkur ofsahræðslan sem var að brjótast út vegna covid-19 bæði yfirdrifin og ýkt. Þau hugrökku myndu halda áfram að vinna á meðan hinir færu í felur. Skilningur okkar jókst smám saman, nokkuð hratt í rauninni. Vonandi nógu hratt til að bjarga mannslífum. Svo kom að því að upptökum kvikmyndanna var frestað einni af annarri. Í dag átti ég að vera í hlutverki þýsks hermanns í hollenskri kvikmynd um Önnu Frank. Konan mín átti að leika gyðingakonu í útrýmingarbúðum. Við vorum búin að klippa okkur og búningarnir voru tilbúnir. Tökum hefur nú verið frestað, ef það verður nú einhvern tímann af þeim. Á meðan á óvissunni stendur þurfa einstaklingar að standast prófraunina um það hvort þeir geti borið ábyrgð á sjálfum sér og öðrum. Foreldrar eiga að loka sig af með börnum sínum. Búðir eru enn opnar en afgreiðslutíminn er takmarkaður. Fjöldi þeirra sem mega dvelja á sama stað er verulega takmarkaður. Fólk stendur í röðum á götunni, fyrir framan apótekið eða verslun slátrarans. Ef fólk væri ekki farið að hamstra nauðsynjar væri enginn skortur á mat eða vítamínum. Ekki þó af grímum og öðrum varnarbúnaði. Það er ekki einu sinni til nóg að slíkum vörum fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Við reynum að sýna skynsemi og söfnum dálitlum birgðum. Það eru sögusagnir um að brátt skelli á strangt útivistarbann. Herinn er þegar orðinn mjög sjáanlegur í sumum hlutum landsins. Við búum í litlum bæ sem hefur lítið hernaðarlegt mikilvægi. Í höfuðborginni er lögreglan og herinn sjáanleg á götunum. Það er ekki hughreystandi, heldur gerir það flesta órólega. Konan mín kennir þunguðum konum hugleiðslu. Augljóslega getur hún ekki hitt þær núna. Hún kennir sinn fyrsta tíma í gegnum fjarfundabúnað í dag. Mömmunni tilvonandi virðist þykja það þægileg leið. Ég kenni konunni minn hvernig hún geti betur notað myndavélina í símanum sínum. Svona aðlögumst við. Ég reyni að sannfæra mömmu mína um að fara ekki út að kaupa í matinn, heldur biðja einhvern að gera það fyrir hana. Hún býr langt í burtu, í suðurhluta Ungverjalands. Hún fékk einu sinni krabbamein. Hún jafnaði sig á því en hún er viðkvæm. Allir sem eru eldri en við eru á okkar ábyrgð núna. Fyrir nokkrum dögum var lagt fram frumvarp á þinginu um að ríkisstjórnin fái verulega aukið vald í ótakmarkaðan tíma. Það fór ekki í gegn en sumir, eins og samtök og stofnanir Evrópusambandsins, hafa lýst yfir áhyggjum. Á tímum útgöngubanns getur fólk ekki hópast saman úti á götu og sagt hug sinn í mótmælum.
„Herinn er þegar orðinn mjög sjáanlegur í sumum hlutum landsins“
Ég held þetta væri auðveldara ef það ríkti traust á milli almennings og stjórnvalda. Það reynir á andlega þegar heimsfaraldri og pólitískum óróa er skellt saman. Suma daga er þetta óbærilegt. Aðra daga virðist ástandið óraunverulegt, eins og þegar við gleymum okkur í nýjum daglegum rútínum. Það hafa aldrei fleiri greinst sýktir af veirunni en í dag. Það var áfall. Ungur breskur diplómati léstu úr COVID-19. Hann var yngri en ég. Tálsýnin um að ungur aldur verji okkur gegn vírusnum er að leysast upp. Þeir sögðu að aðeins gamla fólkið væri í hættu. Nú er ungt og sterkt fólk að gefa eftir. Sorgin vegna allra þeirra sem láta lífið liggur á hjarta mínu. Við konan mín umgöngumst ekki annað fólk. Við reynum að faðma hvort annað oftar en venjulega. Í dag föðmuðumst við átta sinnum.“
26. mars 2020
„Hún vogaði sér út úr húsi. Hún er líka garðahönnuður og -snyrtir. Vinur okkar sem er listamaður bað hana að hanna garðinn sinn. Það var áður en pestin braust út. Við höfum nær engar tekjur núna. Hún verður að fara. Hún býr til andlitsgrímu úr efniviði sem hún finnur í húsinu. Þær fást ekki í búðum. Hún klæðist hönskum. Hún lofar að halda fjarlægð við fólk. Hún er meira en tíu árum eldri en ég. Það þýðir að hún er í meiri hættu. Ég faðma hana nokkrum sinnum áður en hún fer. Ég reyndi eins og ég gat að fá kvikmyndafyrirtækið til að greiða inn á bankareikninginn okkar. Venjulega greiða þeir með seðlum. Við förum í röð við skrifstofur þeirra og þeir borga þér fyrir hvern dag framleiðslunnar sem þú tókst þátt í. Nú er það ekki hægt. Ég held áfram að senda tölvupósta og að hringja hressileg símtöl, reyni að nöldra ekki, láta eins og ég sé hreint ekki áhyggjufullur, bara að forvitnast. Ég hef stundum áhyggjur af peningamálunum næstu mánuðina. Ég hélt ég yrði í tvo mánuði í útgöngubanni. Í dag tilkynntu yfirvöld að tíminn yrði framlengdur og líklegur tímarammi sé þessi: Faraldurinn nái hámarki í júní eða júlí. Það er skrýtið, að ég hef áhyggjur af sundlauginni. Hún er lokuð núna. Ég verð að synda til að halda mér í jafnvægi. Vonandi lifi ég þetta af. Undarlegt að ég skuli hafa áhyggjur af þessu. Ætti ég að skrifa bók? Hvernig á ég núna að vinna fyrir mér? Ég kenndi ensku í þorpinu samhliða kvikmyndaverkefnunum. Ég gæti gert það á netinu, en eru krakkarnir ekki að fá nóg af fjarkennslu? Og kennarar líka? Og foreldrarnir? Allir að reyna að vinna að heiman og sjá um krakkana, elda og halda sér réttum megin við línuna. Má bjóða þér að bæta við aukatímum í ensku? Nei, held ekki. Garðvinna konunnar minnar skiptir öllu máli fyrir tekjur okkar. Við fáum smá summu inn á reikninginn okkar frá einni umboðsstofunni. Frábært. Upplýsingunum sem okkur berast, frá ríkisstjórninni annars vegar og úr öðrum fréttum hins vegar, ber ekki saman. Það skapar spennu sem hverfur ekki. Fjöldi látinna á Ítalíu er ógnvekjandi. Þeir ítreka að við eigum öll að halda okkur heima, eiga ekki í samskiptum við aðra, til að komast hjá því að eins fari fyrir okkur. Á Ítalíu er heilbrigðiskerfið miklu betra en hér í Ungverjalandi. Heilbrigðisstarfsfólk er upp til hópa gamalt og á lélegum launum. Hvernig förum við að þessu? Við eldum heima alla daga. Það er hlýleg rútína sem skiptir máli. Stundum eldum við saman. Stjórnvöld segja að það sé til nóg af matvöru í búðum. Einhvers staðar las ég að á Ítalíu séu þeir hættir að sinna fólki yfir sextugu. Ég trúi því ekki. Það hljóta að vera falskar fréttir. Einhver hjálpaði mömmu minni að ná í vistir svo hún þyrfti ekki að fara úr húsi. Margir bjóða fram hjálp sína núna. Ég kemst við þegar ég heyri slíkar fréttir. Öll góðverk hafa margföldunaráhrif og skipta máli. Bakarí bauðst til að gefa heilbrigðisstarfsfólki brauð. Leigubílstjórar keyra lækna án endurgjalds. Leikarar og jógakennarar bjóða ókeypis tíma á netinu. Tónlistarmenn bjóða hverjum sem er að hlusta á tónleikana sína.
„Öll góðverk hafa margföldunaráhrif og skipta máli“
Samfélagið stendur saman. Karl Bretaprins greindist með COVID-19 en er í lagi. Greta Thunberg setti sjálfa sig í einangrun. Í Svíþjóð er fólk ekki prófað nema það hafi alvarleg einkenni. Sama á við um Ungverjaland. Mörg okkar geta verið smituð með væg einkenni. Við verðum að forðast annað fólk til að bjarga lífi þeirra.
27. mars 2020
Eftir að ég skrifaði í dagbókina í gær kom konan mín mjög þreytt heim. Hún var að vinna utandyra í garði í öðru þorpi, ekki mjög langt í burtu. Hún kom heim með dálítið af reiðufé. Ég bað hana að biðja kúnnana sína um að leggja frekar inn á bankareikninginn hennar, það er öruggara. Svo ákvað ég að þvo seðlana – þetta er peningaþvottur í bókstaflegri merkingu. Mamma hringir í morgunsárið og ég spyr hana hvort hún hafi einhvern tímann gert það sama, að þvo peninga. Hún segir mér að það sé betra að strauja seðlana. Kórónavírusinn þoli hita illa. Svo í stað þess að skrúbba strauja ég. Ég fylgist með fréttum. Nú er það opinbert: Frá og með morgundeginum er strangt útgöngubann. Enginn má fara að heiman nema að eiga brýnt erindi. Nú megum við ekki lengur fara í göngutúr. Við erum heppin. Við búum í sveitinni og búum í húsi með garði. Ég má fara út í garð, því þar er ég ennþá tæknilega heima hjá mér. Aðrir sem búa í litlum, þröngum íbúðum borgarinnar eru í verri málum. Ég man að ég á brýnt erindi til borgarinnar. Ég verð að sinna því áður en útgöngubannið skellur á. Það þýðir að ég verð að taka lest. Konan mín býr til andlitsgrímu handa mér. Hún verndar mig ekki en líklega getur hún að einhverju leyti varið aðra fyrir mér. Ég þarf að kaupa D-vítamín sem er nauðsynlegt ónæmiskerfinu, svo það geti varist vírusnum. Það er ekkert apótek í bænum okkar. Ég fer því til borgarinnar í dag. Það verður ekki svo auðvelt á morgun. Lögreglan og herinn munu sjá til þess að útgöngubanninu verði framfylgt. Það er skrýtið að horfa upp á að hvorki lögreglumennirnir né hermennirnir nota hlífðarbúnað. Eru þeir ekki í hættu? Vel á minnst. Það er bara forsætisráðherrann sem ávarpar almenning í fjölmiðlum. Forsetinn hefur verið hljóður. Hvar er hann? Hver á bakvið þetta?
„Nú er það opinbert: Frá og með morgundeginum er strangt útgöngubann“
Á milli manna gengur skjal merkt landlækni, þar sem fram kemur að ef sjúklingur með annan undirliggjandi sjúkdóm og COVID-19 deyr, eigi að skrá dánarorsökina á hinn undirliggjandi sjúkdóm, ekki á veiruna. Aðeins ef sjúklingur hefur enga undirliggjandi sjúkdóma má kenna vírusnum um dauða hans. Þetta þýðir að dánartölurnar verða lægri en raunveruleikinn er. Að mínu viti ætti ríkisstjórnin að gera einmitt hið öfuga. Hún ætti frekar að ýkja dánartíðnina svo almenningur horfist í augu við hvað þessi vírus er hættulegur og hjálpi til við að hemja útbreiðslu hann. Hvað er ég að skrifa? Þeir hafa þegar smitað huga minn með rökfræðinni sem þeir aðhyllast. Aðferðinni að afskræma staðreyndir eftir hentugleika hverju sinni. Nei. Við ættum að treysta fólki fyrir sannleikanum. Það er svo einfalt. Ekki minna, ekki meira. Ef ekki núna, hvenær þá? Ríkisstjórnin segir að hún vilji koma í veg fyrir ofsahræðslu og ringulreið. Hún ætti þá að hefta útbreiðslu sjúkdómsins með því að deila með almenningi öllum þeim upplýsingum sem hún býr yfir, því það er ekkert sem stjórnvöld geta gert til að minnka ofsahræðsluna og ringulreiðina sem fólk finnur til þegar það missir ástvini sína. Efnahagslífið er enn í hægum gangi en margir hafa misst vinnuna. Einhverjar aðgerðir hafa verið kynntar til að létta fjárhagserfiðleika fólks. Ákveðinn hópur þarf ekki að greiða suma skatta fyrr en síðar. Þeir fresta líka aðgerðum vegna ógreiddra skatta. Það verður ekki skrúfað fyrir rafmagn og gas á meðan á heimsfaraldrinum stendur, jafnvel þó að fólk greiði ekki reikninga sína. Það má heldur ekki flytja fólk sem ekki getur greitt af húsnæðislánum sínum af heimilinu. Það er nauðsynlegt svo allir hlýði skipuninni að halda sig heima. Sjóður var settur á fót fyrir starfandi listamenn. Það er ekki auðvelt að fá styrk úr honum en þeir sem hann fá gætu lifað af. Hann er aðallega ætlaður leikhús- og tónlistarfólki sem náð hefur ákveðinni stöðu. Minna þekktir listamenn og kvikmyndagerðarmenn uppfylla ekki skilyrðin. Við konan mín fáum ekkert. Ég býst því við að halda áfram peningaþvættinum. Líklega mun ég ekki greiða skattana mína. Þetta verður því peningaþvottur í tvöföldum skilningi. Hliðarhagkerfi þeirra sem reyna að lifa af er strax byrjað að myndast. Fólk skiptist á þjónustu og greiðir hvert öðru til hliðar við opinbera hagkerfið, til að hjálpast að. Það væri gott að geta reitt sig á ríkið þegar neyðarástand ríkir í efnahagslífinu, því hér borgum við almennt háa skatta. Ríkið er að hluta til bandamaður okkar, þegar kemur að því að setja reglur til að hefta faraldurinn, eins og að loka skólum og opinberum stofnunum. Og að hluta til óvinur okkar sem nýtir sér tækifærið sem nú skapast til að sölsa til sín völd. Kæru manneskjur, hér og um allan heim. Það erum við sjálf sem erum erum hinir raunverulegu bandamenn hvert annars. Það verður ljósara með hverjum deginum.
28. mars 2020
„Þetta er fyrstu dagurinn af ströngu útivistarbanni í landinu. Nú er öllum landsmönnum bannað að fara að heiman, nema að hafa fyrir því mikilvæga ástæðu. Sagt er að hver sá sem brjóti þessar reglur verði sektaður. Við eigum nægar vistir í að minnsta kosti tvær vikur. Ég fyllti á þær á fyrstu ferð minni út fyrir hússins dyr í viku. Það var meira streituvaldandi en ég átti von á. Ég var með heimagerða andlitsgrímu allan daginn. Hún var of lítil á mig og þrýsti óþægilega á nefið á mér, sem brotnaði í kvikmyndatökum fyrir nokkrum mánuðum. Eftir nokkra klukkutíma var ég orðinn órólegur vegna sársaukans og þráði að snerta á mér andlitið. Mér varð hugsað til þess hvað það er heftandi að mega það ekki. Ég klæddist lika latexhönskum. Ég hitti mann til að innheimta peningaskuld fyrir vin minn. Hann lét mig hafa reiðufé. Nú þyrfti aftur að strauja seðla. Ég er farinn að venjast því. Maðurinn klæddist hvorki grímu né hönskum. Hann gerði grín að mér: „Þú þarft ekki að vera svona hræddur,“ sagði hann. Aðeins um þriðjungur þeirra sem ég mætti klæddist hlífðarbúnaði. Grímurnar eru af öllu tagi, þær eru að verða tískuvarningur eða tól til sjálfstjáningar, eins og sólgleraugu. Ég las hjartnæma færslu eftir heilbrigðisstarfsmann um það hversu veik vörn gríman er gegn vírusnum. Þriðjungur smitaðra eru heilbriðisstarfsmenn. Hún bað alla að leggja sitt af mörkum til að bæta starfsumhverfi þeirra. Það væri fallegt að klappa fyrir þeim og kalla þau hetjur, en meira þyrfti til. Svo bað hún okkur að halda okkur heima, til að hægja á vírusnum. Mamma hringdi í mig og spurði hvort mér væri sama ef hún gæfi heimili fyrir munaðarlaus börn gömlu heimilistölvuna. Þar væri aðeins til ein tölva sem börnin verða að deila í fjarnáminu. „Auðvitað,“ sagði ég. Hún vill gera það sem hún getur til að hjálpa. Ég þvoði allt sem ég keypti. Ég er eins og trylltur þvottabjörn þessa dagana. Þetta var kvíðavaldandi dagur, ekki síst þegar ég sá hvað margir virðast ekki taka ástandið alvarlega. Útivistarbannið mun ekki breyta miklu. Í þessu landi hafa allir sínar eigin afsakanir, útskýringar og ástæður fyrir öllu sem þeir gera. Þeir munu halda áfram að fara út. Mér er svo illt í nefinu og ég er með hausverk eftir að hafa borið óþægilegu grímuna i allan dag og andað að mér loftinu í höfuðborginni. Ég get ekki ímyndað mér hvernig heilbrigðisstarfsfólkinu líður. Ég hef séð myndir af því, uppgefnu með sprungna húð í andlitinu. Mér skilst að pabbi þvoi sér nú um hendurnar uppúr klór. Hann er kominn út í hinar öfgarnar en sápuþvottur myndi duga. Í Þýskalandi og Ameríku kynntu stjórnvöld leiðir að því að örva efnahag landanna og tilkynntu um styrki fyrir fjölda atvinnulausra. Ég skrifaði undir áskorun um að allir Ungverjar ættu að fá lágmarksframfærslu frá ríkinu á meðan á þessu stendur. Á einum degi höfðu mörg þúsund manns skrifað undir en svo var undirskriftasöfnuninni skyndilega hætt. Heimurinn hefur gjörbreyst. Hann verður aldrei eins. Ég vona að við höldum í lærdóminn um rétta forgangsröðun, þolinmæði og auðmýkt. Ég hef á tilfinningunni að þetta sé bara byrjunin.
29. mars 2020
Vantraustið sem hefur byggst upp á undanförnum áratugum í Ungverjalandi er engu líkt. Það er fullkomlega réttlætanlegt vegna aðgerða stjórnvalda en það er hættuleg staða þegar kemur að því að milda erfiðleikatíma. Eitt af stóru vandamálunum við miðstýrð valdakerfi er að þau gangast upp í því að halda upplýsingum leyndum, auk þess að þau skortir gagnrýni og ábyrgð. Þetta kemur svo vel í ljós, nú þegar reynir á samfélag okkar og menninguna alla. Borgarstjórinn í borginni þar sem mamma mín býr kvartar yfir því að fá ekki nýjar tölur um fjölda smitaðra í borginni sem er á hans ábyrgð. Sá sem á að taka ákvarðanirnar fær ekki einu sinni að vita hver raunveruleg staðan er þegar kemur að útbreiðslu COVID-19-veirunnar. Leyndarhyggjan nær til alls landsins. Hún nær yfir raunverulegan fjölda smitaðra og aðgengi að varnarbúnaði og sýnatökum. Um hversu margir eru smitaðir í raun. Hversu margir hafa látist. Hver verði næstu skref. Á næstu dögum verður aftur tekið fyrir í þinginu frumvarpið sem veitir forsætisráðherra okkar heimild til að stjórna landinu með tilskipunum. Þau fóru ekki í gegn við fyrstu atkvæðagreiðlu. Þá gerðu þeir lista yfir alla þá sem voru á móti. Nú eru góðar líkur á því að ríkisstjórnin okkar verði sú eina í Evrópu sem hefur fullkomið vald yfir þegnum sínum í ótakmarkaðan tíma. Ekkert annað Evrópuríki velur að fara þessa leið til að hefta útbreiðslu faraldursins.
„Sá sem á að taka ákvarðanirnar fær ekki einu sinni að vita hver raunveruleg staðan er þegar kemur að útbreiðslu COVID-19-veirunnar“
Almenningur skipuleggur stafræn mótmæli og undirbýr áskorun. Hundruð þúsunda skrifa undir áskorunina en aðeins tæplega tíu þúsund manns skráðu sig inn á mótmælin. Fólkið treystir ekki ríkisstjórninni. Ég óttast að það sé með réttu. Það er komið vor og við förum í gönguferð. Fólk sem býr saman má ganga saman úti á götu, ef það forðast að eiga í samskiptum við aðra. Ég held áfram að þýða smásögur úr ensku, verkefni sem ég fékk frá ritstjóra sem svo hvarf og hefur ekki svarað síðan. Ég vona bara að hann birtist einn daginn aftur og borgi mér fyrir vinnuna. Óvissan er mikil. Það er að vissu leyti gott að vera sjálfstætt starfandi og vera vanur óvissu. Ég hugsa að margir eigi erfitt núna, þegar þeir hafa enga stjórn á aðstæðum sínum. En lífið er hvort sem er ekki á okkar valdi. Þess vegna þurfum við frelsi og traust. Að geta lært að taka ábyrgð og treysta. Já. Treysta. Treysta á okkur sjálf, á hvert annað, lífið og að breytingar verði til hins betra. Ef ekki núna, þá hvenær?
30. mars 2020
Í dag verður aftur tekið fyrir frumvarp til laga um sem framlengir um ókominn tíma neyðarlögin sem sett voru á til að takast á við kreppuna í Ungverjalandi. Í síðustu viku hefði þurft ⅘ atkvæða til að koma því í gegn en nú þarf aðeins ⅔ atkvæða, sem flokkur forsætisráðherra ræður þegar yfir. Í kvöld er því nokkuð víst að þessi lög taki gildi. Þetta er pólitíska hlið málanna, sem skiptir máli en hefur á sama tíma enga þýðingu. Baráttan við faraldurinn veltur ekki á þessu. Helstu afleiðingar laganna tengjast öðru: Að hafa í frammi skoðanir og gefa upplýsingar sem stangast á við fullyrðingar hins opinbera, hvað varðar ástandið vegna kórónavírussins eða hvað sem kemur í veg fyrir að ríkisstjórnin fari sínu fram, verður refsivert og varðar fimm ára fangelsi. Ég var að átta mig á að ef ég viðra skoðanir mínar á aðgerðum stjórnvalda undir nafni og þær birtast á prenti á það líka við um mig. Að skrifa þessa dagbók á opnum vettvangi verður glæpsamlegt athæfi frá og með morgundeginum. Það er mikið grasrótarstarf í gangi. Fólk kennir hvað öðru að sauma andlitsgrímur. Spítölunum berast styrkir. Þau sem selja lyf, mat og mikilvæga þjónustu halda áfram starfsemi, þrátt fyrir að með því hætti þau á að hitta smitað fólk. Fjölskyldur aðlagast ástandinu og sinna menntun að heiman. Stjórnendur sjúkrahúsa undirbúa sig fyrir álag og reyna að viða að sér starfsfólki til að vera reiðubúnir. Samkvæmt opinberum tölum eru 477 sýktir og fimmtán látnir. Stóra verkefnið er að hefta útbreiðsluna, hægja á henni, til að koma í veg fyrir að hér skapist ástand svipað því sem er á Ítalíu og Spáni. Hvort neyðaraðgerðirnar og lagabreytingarnar sem hér hafa verið gerðar eiga eftir að duga á eftir að koma í ljós. Sumir kenna gríni á samfélagsmiðlum um að almenningur taki ástandinu ekki nógu alvarlega. Ég held að það sé eina leiðin til að lifa af. Það er í eðli Ungverja að gera grín að öllu, ýmist til að gagnrýna eða til að sætta sig við það sem þeir geta ekki breytt. Sársaukinn að baki gríninu er það sem gerir það fyndið. Það mildar sársaukann að hlæja.
„Að skrifa þessa dagbók á opnum vettvangi verður glæpsamlegt athæfi frá og með morgundeginum“
Hjá mörgum kemur óttinn í bylgjum. Þeim líður vel þar til einn daginn að þeir fá felmturskast og eru slegnir niður af ofsakvíða sem þeir vita ekki hvernig á að takast á við. Ég er búinn að fá köst. Ég vona að þau komi ekki aftur. Konan mín þarfnast faðmlaga og hughreystingar. „Fyrsta faðmlag dagsins er mikilvægast,“ segir hún. Það setur tóninn fyrir daginn.
31. mars 2020 „Við erum öll í þessu saman. Kórónavírusinn kennir okkur að það kemur okkur við hvað er að gerast hjá fólki í öðrum heimshlutum. Eða í næsta húsi. Það sem við gerum hefur bein áhrif á líf annarra. Ég get bjargað mannslífum með því að halda mig heima. Ég get sett sjálfan mig og aðra í hættu með því að hitta þá. Heilbrigðisstarfsfólk berst fyrir einhvern sem gæti verið ég sjálfur eftir nokkrar vikur. Eldri borgari lætur lífið. Gæti hafa verið annað foreldra minna. Það er erfitt að halda sig heima. Þannig er það líka fyrir milljónir annarra um allan heim. Við göngum gegnum fjárhagslega erfiðleika. Það gerir líka milljarður manna um allan heim. Hver þeirra er einstaklingur, manneskja. Þetta er ekkert venjulegt vandamál. Það er í senn alþjóðlegt og persónulegt. Mér líður illa en það er forvitnilegt að vita að tilfinningar mínar eru þær sömu og svo margra annarra. Þjáning mín er sjú sama og þeirra. Nú er ekki erfitt að ímynda mér hvernig þeim líður eða hvað þau eru að gera. Ég finn til nándar með svo mörgum og ég veit að þeim líður eins, að þeir geta ímyndað sér sársauka minn og erfiðleika, því hann er samtímis og sambærilegur þeirra. Við erum saman. Aðskilin líkamlega og samfélagslega en sameinumst í lífsreynslunni. Ég finn sterkt fyrir orku augnablikanna. Hún er yfirþyrmandi. Á sama tíma einstök. Við erum að vakna. Ég býst ekki við að gleyma þessu nokkurn tímann. Né að ég vilji gleyma því. Lagabreytingin sem gefur ríkisstjórninni völd til að stjórna með tilskipunum hefur verið samþykkt og hafa þegar tekið gildi. Það er áhugavert hvað ég vandist hugmyndinni hratt, því það er ekkert sem hægt er að gera til að sporna við þessu strax. Ég hef ekki fundið til kvíða vegna þessa síðustu daga en fyrir viku var ég í uppnámi og virkilega hræddur. Svo hætti ég því. Hugurinn aðlagast ástandinu. Hann getur ekki verið stöðugt á verði, sættir sig við hið óásættanlega ef engu er hægt að breyta. En ég get ekki sýnt andlit mitt né gefið upp rétt nafn. Fram að þessu var ekki ólöglegt að vera á annarri skoðun. Nú er það það. Við lærum að lifa með þessu og sjáum til hvort ríkisstjórnin gefur völdin aftur þegar ástandinu lýkur. Því miður hefur hún ekki haft tilhneigingu til þess að gefa eftir völd hingað til.
„Við erum saman. Aðskilin líkamlega og samfélagslega en sameinumst í lífsreynslunni“
Ég fæ skyndilegt kvíðakast. Hausverkur, kaldur sviti, einbeitingarleysi, spenna. Ég get ekki andað eðlilega, pirringur og skapsveiflur. Það er ógnandi skuggi yfir öllu. Látbragðsleikur er lausnin. Í dýraríkinu reynir bráðin að blanda sér í hóp rándýranna þegar hún er í hættu. Ég er ekki frelsisbaráttumaður. Ég er friðarsinni. Ég mun blanda mér í hópinn og lúta höfði. Ég lýk þessari dagbók með andvarpi. Það er góð tilfinning að vita að ég geti deilt sannleika mínum með öðrum. Að vera ein rödd í kór ólíkra radda á einmitt þessu augnabliki. Að þeir sem heyra raddir okkar finni fyrir okkur, þekki okkur og tengi við okkur. Sögur okkar eru eins. Þeirra, okkar.“
Athugasemdir