Ríkisstjórn Íslands kynnti það sem hún kallaði „stærstu efnahagsaðgerðir Íslandssögunnar“ síðustu helgi til að bregðast við efnahagsáhrifum Covid19-veirunnar. Það er forvitnilegt að bera björgunarpakkann saman við aðgerðir sem aðrar ríkisstjórnir í Evrópu boða.
Þjóðverjar hafa kynnt 50 milljarða evra björgunarpakka fyrir sjálfstætt starfandi, freelansera, smáfyrirtæki og menningarstofnanir – beina ríkisstyrki sem fara í að greiða nauðsynlegan rekstrar- og viðhaldskostnað næstu þrjá mánuði. Þetta eru 1,5% af vergri landsframleiðslu þar í landi, sem í íslensku samhengi væru sirka 45 milljarðar. Það bólar ekki á neinu sambærilegu á Íslandi.
Í Þýskalandi hefur líka verið stofnaður 500 milljarða evra stöðugleikasjóður þar sem 100 milljarðar verða nýttir til að bjarga stærri fyrirtækjum og eignast hlut í þeim (um 3% af VLF, sem væru sirka 90 milljarðar í íslensku samhengi) og hinir 400 milljarðarnir (11,6% af VLF) er í formi ríkistryggðra lána, alls um 14,5% af VLF Þýskalands.
Til samanburðar eru bein útgjöld ríkissjóðs Íslands vegna björgunarpakka ríkisstjórnarinnar metin á 59 milljarða króna samkvæmt kynningarefninu eða um 2% af VLF.
234 milljarða upphæðin sem ríkisstjórnin kokkaði upp með frekar óheiðarlegri talnaleikfimi er um 7,8% af VLF, tæpur helmingur af umfangi björgunarsjóðs Þjóðverja.
Hægristjórnin hérna í Bretlandi boðar ríkistryggð lán upp á 330 milljarða punda, eða um 15 prósent af VLF Bretlands meðan íslensku brúarlánin til atvinnulífsins eru metin á 81 milljarð króna samkvæmt kynningarefni ríkissjórnarinnar eða 2,7% af VLF Íslands.
Þetta eru dæmi frá annars vegar landi þar sem aðhaldssemi í ríkisfjármálum hefur verið trúarsetning um áratugaskeið og hins vegar landi þar sem mjög ógeðfelldur hægriflokkur ræður öllu sem hann vill ráða. Í sósíaldemókratískari ríkjum eins og t.d. Danmörku er beinn ríkisstuðningur til fólks og fyrirtækja enn meiri.
Ríkisstjórnin á Íslandi hefur hins vegar kosið að fara allt aðra leið, gera miklu minna og hreyfa sig miklu hægar. Það er pólitísk ákvörðun og tíminn mun leiða í ljós hverjar afleiðingarnar af henni verða.
Athugasemdir