Fólkið í landinu ber lítið traust til dómstóla. Allar götur frá því mælingar hófust 2001 hefur innan við helmingur viðmælenda Gallups sagzt bera traust til dómstólanna og sum árin innan við þriðjungur. Sárafáir lögfræðingar hafa látið málið til sín taka opinberlega svo sem vert væri. Hjördís B. Hákonardóttir, fv. hæstaréttardómari, birti þó prýðilega grein um málið í Kjarnanum 28. febrúar sl. Þar segir Hjördís m.a.:
„Traust er forsenda þess að réttaröryggi sé fyrir hendi. Það er því verulegt áhyggjuefni að traust til dómstóla mælist aðeins 37% samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallup og hefur lækkað frá síðustu könnun. ... eru niðurstöður þjóðarpúlsins grafalvarlegar en jafnframt óverðskuldaðar og því mikilvægt að reynt verði að átta sig á orsökum þeirra.“
Ég er sama sinnis og Hjördís B. Hákonardóttir að öllu öðru leyti en því að mér sýnist vantraustið vera verðskuldað og eftir því auðskiljanlegt. Til vantraustsins liggja að minni hyggju ýmsar ástæður sem ég hef marglýst á prenti og dreg hér saman á einum stað í stuttu máli.
Aðhald að skipun dómara
Tveir stjórnmálaflokkar hafa að heita má einokað dómsmálaráðuneytið allar götur frá 1927 ef tíu ár af bráðum 100 eru undan skilin. Allan þennan tíma hafa því þessir tveir flokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, haft skipan langflestra dómara á hendi sinni. Slík einokun er óheppileg. Þótt samanlagt fylgi þessara flokka hafi minnkað úr tæpum 80% í alþingiskosningunum 1927 niður í röskan þriðjung 2017 hafa þeir talið sig þurfa að ríghalda í dómsmálaráðuneytið.
Þessi skipan hefur verið umdeild svo sem í ljós kom í aðdraganda stjórnlagaþingskosningarinnar 2010. Skoðanakannanir DV sýndu þá að 83% kjósenda voru andvíg þeirri ríkjandi skipan að ráðherra einn skipi hæstaréttardómara og aðeins 6% kjósenda lýstu sig fylgjandi þeirri skipan. Nýja stjórnarskráin, sem enn bíður staðfestingar Alþingis, speglar þjóðarviljann með því að kveða á um aðhald að skipun dómara af hálfu Alþingis eða forseta Íslands eftir atvikum.
Hvers vegna hefur skipan dómara verið gömlu helmingaskiptaflokkunum svo föst í hendi? Það stafar af því að yfirráðin yfir dómsmálaráðuneytinu hefur nýtzt þessum flokkum vel og veitt þeim óbeint agavald yfir dómstólunum. Reynslan sýnir að sjálfstæði dómstólanna er ábótavant.
Ferill Hæstaréttar í fiskveiðistjórnarmálinu
Vert er í þessu viðfangi að rifja upp dæmið frá 1998 þegar formenn beggja ríkisstjórnarflokkanna þá, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, brugðust ókvæða við dómi Hæstaréttar þess efnis að synjun sjávarútvegsráðuneytisins á umsókn Valdimars Jóhannessonar um leyfi til fiskveiða bryti gegn jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar. Skömmu síðar komu fiskveiðistjórnarlögin aftur til kasta Hæstaréttar. Þá snerist málið um menn sem höfðu túlkað fyrri dóminn svo að þeim hlyti að vera heimilt að róa án kvóta. Fimm dómarar af sjö sáu nú allt í einu enga mismunun fólgna í fiskveiðistjórnarkerfinu. Tveir dómarar af sjö staðfestu þó fyrri dóm frá 1998 þar sem fiskveiðistjórnin var talin leiða af sér mismunun sem bryti gegn stjórnarskránni.
Sjómennirnir tveir sem Hæstiréttur dæmdi árið 2000 fyrir að róa án kvóta, Erlingur Sveinn Haraldsson og Örn Snævar Sveinsson, kærðu viðsnúning Hæstaréttar til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Þeir nutu til þess fulltingis Magnúsar Thoroddsen, fv. forseta Hæstaréttar, og Lúðvíks Kaaber lögfræðings og unnu frækilegan sigur. Mannréttindanefndin birti bindandi álit 2007 þess efnis að íslenzkum stjórnvöldum bæri að nema mismunun milli manna burt úr fiskveiðistjórnarkerfinu og greiða bætur sjómönnunum tveim sem unnið höfðu málið gegn ríkinu.
Stjórnvöld gerðu hvorugt.
Hugsum okkur að sjómennirnir hefðu höfðað nýtt mál gegn ríkinu til að krefjast bótanna sem mannréttindanefndin mælti fyrir um. Ákvörðun bótanna hefði þá væntanlega komið til kasta Hæstaréttar. Þar sátu þá níu dómarar, þar af a.m.k. sex sem hefðu að réttu lagi þurft að víkja sæti vegna gruns um hlutdrægni. Einn var fv. ráðuneytisstjóri sjávarútvegsráðuneytisins og var sem slíkur viðriðinn fiskveiðistjórnina. Annar var fv. ríkislögmaður og hafði sem slíkur þurft að verja málstað ríkisins í kvótamálinu fyrir rétti. Tveir aðrir dómarar höfðu tekið þátt í að snúa við fyrri dómi Hæstaréttar í Valdimarsmálinu 1998. Einn dómari enn hafði sakfellt sjómennina tvo fyrir að róa án kvóta. Enn er ónefndur dómari sem var ötull talsmaður Sjálfstæðisflokksins og kvótakerfisins áður en hann tók sér sæti í Hæstarétti.
Þar eð dómarar ráða því sjálfir hvort þeir víkja sæti vegna gruns um hlutdrægni eða ekki, eins og Hjördís B. Hákonardóttir lýsir í grein sinni í Kjarnanum, virðist ólíklegt að þessir sex dómarar hefðu vikið sæti í slíku skaðabótamáli.
Sjómennirnir tveir gátu því varla að svo stöddu bundið miklar vonir við Hæstarétt. Enda hefur Mannréttindadómstóll Evrópu nýlega dæmt ríkið til að greiða dæmdum bankamanni skaðabætur vegna gruns um hlutdrægni eins dómarans í Hæstarétti Íslands. Fleiri slík mál munu vera í deiglunni.
Hæstiréttur brást við ítrekuðu áfelli af hálfu Mannréttindadómstólsins með því að bjóða dönskum prófessor, Mads Bryde Andersen, að ávarpa 100 ára afmælissamkomu Hæstaréttar um daginn, manni sem hefur haldið því fram opinberlega „ ... að lögfræðingar sem starfa hjá Mannréttindadómstól Evrópu, við að aðstoða dómara, ráði í raun niðurstöðu dóma þar ásamt dómara þess ríkis sem mál er höfðað gegn. Þetta er að sjálfsögðu af og frá.“ – svo ég vitni aftur orðrétt í grein Hjördísar B. Hákonardóttur.
Fimm af dómurunum sex sem úrskurðuðu stjórnlagaþingskosninguna 2010 ólöglega á grundvelli kvartana þriggja flokksbundinna sjálfstæðismanna voru skipaðir af dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins og það með rökum sem hafa verið hrakin og Hæstiréttur hafnaði meira að segja sjálfur í hliðstæðu máli ári síðar, en þá var skaðinn skeður. Hlutdrægni dómsmálaráðherra við skipun í dómaraembætti hefur oftar en einu sinni bakað ríkinu skaðabótaskyldu gagnvart hæfari umsækjendum sem ráðherra gekk fram hjá. Nýlega hafa tveir dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins neyðzt til að segja af sér, annar vegna ólöglegrar skipunar í dómaraembætti. Hæstaréttardómarar bítast í blöðunum og jafnvel fyrir dómstólum. Grunur um lögbrot í Hæstarétti hefur ekki fengizt rannsakaður.
Ófullnægjandi réttaröryggi
Þessi örstutta atvikalýsing vitnar um ærin tilefni til vantrausts almennings í garð dómstóla. Vantraustið grefur undan réttaröryggi borgaranna eins og Hjördís B. Hákonardóttir varar við í grein sinni í Kjarnanum. Hvað á honum annars að finnast, manninum sem tapaði innheimtumáli gegn banka í Hæstarétti þar sem bankinn gerði sér mat úr því að maðurinn hafði ekki lagt fram hljóðrit af símtali við bankann? – hljóðrit sem bankinn átti að geyma en þóttist ekki finna. Héraðsdómur hafði dæmt manninum í vil með réttum rökum sem voru reist á framburði vitna, en Hæstiréttur sneri sýknudóminum við.
Slík mál eru mörg. Fjöldi fólks telur banka og önnur fjármálafyrirtæki hafa hlunnfarið sig með fulltingi dómstóla óháð þeim brotum sem bankamenn voru dæmdir fyrir. Lögfræðingar í lagadeildum háskólanna hefðu átt að greina og kortleggja hina umdeildu dóma en það hefur ekki enn verið gert svo að einstök dæmi þurfa að duga án samhengis við önnur mál að svo stöddu.
Menntun og réttarmenningu er áfátt
Núverandi dómarar í Hæstarétti hafa allir sjö lokið embættisprófi í lögum frá Háskóla Íslands. Meiri hluti dómaranna, fjórir dómarar af sjö, hafa engu öðru lagaprófi lokið. Aðeins tveir dómarar af sjö hafa lokið meistaraprófi og enginn doktorsprófi. Tveir dómarar af sjö eru skráðir kennarar í lagadeild Háskóla Íslands, annar prófessor og hinn dósent, og annast þeir skv. vefsetri deildarinnar samtals átta námskeið háskólaárið 2019-2020, annar fimm, hinn þrjú. Hvorugur hefur lokið nokkru lagaprófi öðru en embættisprófi frá nefndri lagadeild. Þeir eiga nú báðir í málaferlum við fv. dómara í Hæstarétti.
Rót vandans virðist mega rekja til lagadeildar Háskóla Íslands þar sem nú eru skráðir þrettán prófessorar. Af þessum þrettán próferssorum hafa fimm lokið doktorsprófi sem er lögbundin lágmarkskrafa sem allar aðrar deildir Háskóla Íslands og annarra háskóla innan lands og utan gera til prófessora.
Þegar 105 af 150 prófessorum í Háskóla Íslands þótti rétt að senda frá sér sameiginlega yfirlýsingu til varnar sjálfstæði Hæstaréttar eftir Valdimarsdóminn 1998 og árásir tveggja ráðherra á réttinn, treysti enginn lagaprófessor sér til að skrifa undir. Þeir voru þá tíu. Einn þeirra sendi mér skriflega lýsingu á refsingunum sem hann taldi sig mundu kalla yfir sig og fjölskyldu sína ef hann fylgdi sannfæringu sinni.
Ég hef orðið vitni að því í réttarsal að dómari sýndi lögmanni vanvirðingu í viðurvist skjólstæðinga lögmannsins. Lögmaðurinn kvartaði við dómstjórann. Nokkru síðar var dómarinn fluttur úr héraðsdómi í Hæstarétt. Ég hef einnig séð meðdómanda sofa – hann lá fram á borðið! – meðan lögmaður flutti mál sitt.
Mér er einnig minnisstæður dómur héraðsdóms þar sem prósentutala var ýmist skráð með níu eða 14 aukastöfum og dómarinn talnaglöggi bætti síðan við textann, væntanlega til að varpa enn skýrara ljósi á viðfangsefnið: „Unnt er að reikna niðurstöðuna með enn fleiri aukastöfum.“
Og svo var það fundurinn í einum háskólanum um stjórnarskrármálið eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 2012 þar sem annar frummælandinn hóf mál sitt á því að segjast ekki hafa lesið nýju stjórnarskrána. Nokkru síðar var hann skipaður dómari.
Vandinn sem hér er lýst er grafalvarlegur. Hann snýst þó ekki nema að litlu leyti um mannvalið í réttarkerfinu heldur varðar hann réttarmenninguna sem er ábótavant. Dómstólarnir eru eins og allt er í pottinn búið skilgetin afkvæmi stjórnmálamenningar sem Alþingi sjálft ályktaði einum rómi 2010 að sé ábótavant: „Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega ...“
Nýja stjórnarskráin
Greiðasta leiðin út úr vandanum hefur þegar verið vörðuð. Nýja stjórnarskráin sem hefur legið fullbúin fyrir Alþingi frá 2013 er stútfull af réttarbótum sem er ætlað að styrkja stjórnmálamenninguna í samræmi við ályktun Alþingis frá 2010 með því m.a. að kveða á um vandaðri vinnubrögð við skipun dómara og annarra embættismanna. Réttaröryggi borgaranna útheimtir traust í garð dómstólanna og Alþingis, traust sem nýju stjórnarskránni er ætlað að byggja upp og efla. Alþingi verður að slíta sig laust af klafa sérhagsmunahópanna sem heimta óbreytt ástand. Annars mun vantraustið ágerast.
Athugasemdir