Á þessum degi, þann 13. janúar, árið 1898 birti franska blaðið L'Aurore á forsíðu sinni einhverja frægustu blaðagrein allra tíma. Það var opið bréf frá rithöfundinum Émile Zola til þáverandi forseta Frakklands, Félix Faure, þar sem Zola sakaði franska herinn og frönsk yfirvöld um Gyðingaandúð og ýmis misferli og rangindi í máli herforingjans Alfred Dreyfus.

Dreyfus hafði nokkrum árum fyrr verið dæmdur í lífstíðarþrælkunarvist fyrir njósnir í þágu Þjóðverja. Franskur njósnari hafði fundið í þýska sendiráðinu í París ummerki um að einhver herforingi sendi Þjóðverjum upplýsingar um frönsk hernaðarmálefni.
Eftir rannsókn var Dreyfus, sem þá var höfuðsmaður að tign og starfaði við herforingjaráð franska hersins, talinn sekur um njósnirnar. Í janúar 1895 var hann dæmdur og sviptur herforingjatign sinni við opinbera athöfn þar sem sverð hans var brotið og tignarmerki rifin af búningi hans.
Síðan var hann fluttur til Djöflaeyju út af ströndum frönsku Guyana og átti þar illa vist, eins og nafn eyjarinnar er gleggst tákn um.
Til voru þeir sem voru sannfærðir um sakleysi Dreyfus og töldu allan málareksturinn gegn honum merki um Gyðingaandúð innan franska hersins, en Dreyfus var Gyðingur.

Strax árið 1896 rannsakaði nýr yfirmaður leyniþjónustu franska hersins málið og komst að þeirri niðurstöðu að allt annar herforingi, Ferdinand Walsin Esterhazy að nafni, væri hinn rétti njósnari Þjóðverja. Frönsk hernaðaryfirvöld vildu ekki viðurkenna að hafa látið sakfella rangan mann og þögguðu niður þessar upplýsingar.
Þá kom Zola til skjalanna og birti í sínu opna bréf ákæru á hendur franska ríkinu vegna meðferðarinnar á Dreyfus.
„J'accuse ...“ eða „Ég ákæri ...“ var hin fræga fyrirsögn - og upphafsorð - greinar Zola.
Eftir að greinin birtist þumbuðust yfirvöld lengi við og Zola var dæmdur fyrir meiðyrði í grein sinni. Þáttaskil höfðu þó orðið og þar kom að lokum að yfirvöldin neyddust til að ná í Dreyfus til Djöflaeyju og aftur var réttað í málinu.
Ótrúlegt nokk var Dreyfus aftur sakfelldur, þótt öllum mætti vera ljós að hann væri saklaus.
Hins vegar var hann náðaður um leið, svo hann þurfti ekki að sitja lengur á Djöflaeyju.
Tæpum áratug síðar fékk Dreyfus mál sitt loks tekið upp að nýju og þá var hann sýknaður.
Esterhazy var settur fyrir herrétt en sýknaður. Hann flúði þó land og bjó í útlegð á Bretlandi til æviloka.
Dreyfus hélt áfram í hernum og þjónaði með sóma í fyrri heimsstyrjöld. Hann lést 1935.
Dreyfus-málið var gríðarleg raun fyrir franskt samfélag og neyddi Frakka til að horfast í augu við spillingu í æðstu lögum samfélagsins og undirliggjandi Gyðingahatrið.
Ótal bækur hafa verið skrifaðar um málið og bíómyndir og sjónvarpsþættir skipta tugum. Nú síðast gerði Roman Polanski myndina J'Accuse í fyrra um málið en hún heitir á ensku An Officer and a Spy. Hefur sú mynd mælst ágætlega fyrir.

Athugasemdir