Mestalla fyrstu öldina fyrir upphaf tímatals okkar geisaði samfelld borgarastyrjöld í hinu uppvaxandi Rómaveldi. Lýðveldið í Róm reyndist ekki þess umkomið að halda aftur af metnaðargjörnum herforingjum sem bitust um völdin hver við annan.
Alþýðufundir urðu vettvangur lýðskrumara, öldungaráðið mátti sín lítils.
Langvinn átök auðmanna (patrisía) og alþýðumanna (plebeia) tóku nú að hverfa í skuggann af valdabrölti herstjóranna.

Árið 60 höfðu þrír valdagírugir herforingjar og pólitíkusar í raun skipt með sér völdunum þegar þeir mynduðu hið svonefnda „fyrra þrístjóraveldi“.
Þetta voru þeir Crassus, Pompeius og Julius Caesar.
Næstu árin sýslaði hver sitt. Crassus fór í herferð gegn hinum persnesku Pörþum en var drepinn árið 53, Pompeius hélt að mestu kyrru fyrir í Róm en Caesar aflaði sér mikillar herfrægðar með því að leggja alla Gallíu (Frakkland) undir Róm.
Sigrar Caesars voru svo afgerandi að öldungaráðið óttaðist - með réttu - að hann ætlaði að nota herfrægð sína til að gerast einræðisherra.
Þar sem Caesar hafði stuðst við leifar flokks plebeia á leið sinni til valda töldu patrisíarnir í öldungaráðinu að hann myndi skerða þeirra hlut og jafnvel taka sér konungskrúnu, en fátt vakti Rómverjum meiri hryllings en konungsnafnið.
Í lok ársins 50 hafði Caesar lokið við hernám Gallíu og stefndi til Rómar. Hann hafði aðeins eina hersveit með sér, hina rómuðu 13. legíó Gemina. Samkvæmt lögum og hefðum var herforingjum bannað að koma í fylkingarbrjósti hersveita sinna alla leið til Rómaborgar sjálfrar.
Fljótið Rubicon markaði þau landamerki sem herforingi mátti ekki fara yfir með her sinn. Ef hann gerði það taldist hann réttdræpur.

Í Róm beið öldungaráðið milli vonar og ótta. Öldungaráðsmenn höfðu gert bandalag við Pompeius, hinn forna valdafélaga Caesars, og þeir réðu yfir heilmiklu liði. Orðstír Caesars var hins vegar orðinn svo mikill að ekki virðist hafa hvarflað að Pompeiusi og félögum að verjast Caesari ef hann mætti með þá 13. til Rómaborgar.
Þeir urðu því að treysta á að Caesar léti staðar numið við Rubicon.
Þann 10. janúar árið 49 var Caesar kominn með hersveit sína að Rubicon en yfir ána lá brú. Í sumum heimildum er frá því greint að Caesar hafi hikað. Átti hann að stíga það skref að fara yfir ána sem hefði í för með sér opinbera stríðsyfirlýsingu gegn öldungaráðinu?
En hafi Caesar hikað er ekki líklegt að þar hafi ráðið virðing Caesars fyrir fornum lögum um landamerki. Hann var kominn alltof langt í valdasókn sinni og metnaði til að láta staðar numið. Fremur má ætla að hann hafi íhugað hvort hann ætti að staldra við og bíða eftir hinum herdeildunum sínum, sem voru á leiðinni til hans frá Gallíu.
Ævisagnaritarinn Svetoníus, sem sat að skriftum meira en öld síðar, lýsti atburðum á sinn dæmigerða dramatíska hátt:
„[Caesar] hinkraði við og hugleiddi mikilvægi þess skrefs sem hann var í þann veginn að stíga, og hann sneri sér að [undirforingjum sínum] og sagði:
„Vér getum enn snúið til baka en ef vér förum yfir þessa hina litlu brú, þá blasir ekki annað við oss en berjast til þrautar.“

Meðan Caesar hikaði gerðist þetta: Maður birtist ægifagur og þokkafullur og settist niður og lék á pípu. Nálægir fjárhirðar komu askvaðandi til að hlýða á hann og ekki aðeins þeir, heldur einnig fjölmargir hermenn [Caesars] og þar á meðal nokkrir lúðrablásarar, og skyndilega þreif hann lúður af einum þeirra, hljóp niður að ánni þar sem hann blés til sóknar og hélt svo þegar yfir ána.
Er Caesar sá þetta hrópaði hann:
„Höldum hvert þangað sem fyrirboðar guðanna og illska óvinanna kallar oss. Teningnum er nú kastað!““
Eða eins og það hljómar á latínu:
„Iacta alea est.“
„Teningakastið“ var komið frá gríska gamanleikjaskáldinu Menander sem uppi var á þriðju öld fyrir upphaf tímatals okkar. Frasann mun vera að finna í leikritinu Flautustelpan sem kannski hefur orðið Svetoníusi innblástur að sögunni um pípuleikarann sem hvatti Caesar og félaga áfram yfir Rubicon.
En sennilegast er að Caesar hafi hvergi hikað heldur arkað beint yfir Rubicon, sem raunar var lítill farartálmi.
Og vel að merkja er hvergi í fornum heimildum gefið í skyn að Caesar hafi í raun kastað teningum við Rubicon. Hafi hann yfirleitt sagt eitthvað um teninga, þá var bara um að ræða alkunnugt orðatiltæki, en ekkert hættuspil í raun og veru.
Og þegar fréttist að hann væri kominn yfir Rubicon og á leið til Rómar brast flótti á lið öldungaráðsins og Pompeiusar og allir flýðu sem fætur toguðu til Suður-Ítalíu og sigldu þaðan til Grikklands.
Eftir stóð Caesar allsráðandi í Róm.

Athugasemdir