Hópur kvenna mótmælti aðgerðaleysi þegar kemur að ofbeldi gagnvart konum með gjörningi við stjórnarráðið síðdegis í gær. Gjörningurinn er íslensk útgáfa af síleska gjörningnum „El violador en tú camino“ eða „Nauðgari á þinni leið“, sem var frumfluttur við þjóðarleikvanginn í Santíagó í nóvember.
Síleskar konur vildu með gjörningnum mótmæla nauðgunarmenningu, en þar í landi enda aðeins 8 prósent nauðgunarmála með sakfellingu. Myndband af flutningi þeirra vakti mikla athygli á netinu og voru í kjölfarið haldnir viðburðir í Kólumbíu, Mexíkó, Frakklandi, Spáni, Bretlandi og Tyrklandi.
„Þær okkar sem höfum á einhverjum tímapunkti upplifað hættu eða ofbeldi af þeirri einföldu ástæðu að við verum konur, skiljum hvert einasta orð í laginu og við erum margar,“ segir Katrín Harðardóttir, einn skipuleggjenda gjörningsins.
Íslensku konurnar dönsuðu og fluttu íslenska útgáfu af textanum þar sem beint er sjónum að feðraveldinu og ríkisvaldinu. Í textanum segir meðal annars: „Og sökin var ekki mín, hvar sem ég var eða í hverju sem ég var: nauðgarinn ert þú“.
„Þessi fullyrðing sílesku kvennanna sem skrifuðu femíníska „sálminn“ hefur vakið hrifningu og lof margra, en einnig valdið gagnrýni annarra,“ segir Katrín. „Þú-ið sem vísað er í er nauðgarinn, en það nær einnig yfir þann fjölda fólks sem þykist ekki taka eftir kynferðisáreitni eða lætur jafnvel glæpamenn ganga lausa, eins og nú um jólin hér í Reykjavíkinni. Þess vegna er minnst á lögreglu, dómara, ríki og ráðherra, þau sem gætu tekið til róttækra aðgerða til þess að koma í veg fyrir nauðganir, morð og kynferðisáreitni, en gera það ekki. Og þess vegna bendum við beint á héraðsdóm, enda gaf hann okkur ærna ástæðu til í hádeginu.“
Íslenskur texti lagsins „Nauðgari á þinni leið“
Feðraveldið fellir dóm,
gegn konum fyrir fæðingu.
Refsingin er kúgun
sýnileg og dulin,
í dómsorði hulin.
Feðraveldið fellir dóm,
gegn konum fyrir fæðingu.
Refsingin er kúgun
sýnileg og dulin,
í dómsorði hulin.
Kvennamorð og ofbeldi,
Nauðganir og mansal
og kynferðisáreitni.
Málin niður falla
Fyrir ofbeldiskalla.
Sökin er ekki mín, hvar sem ég var eða í hverju sem ég var.
Sökin er ekki mín, hvar sem ég var eða í hverju sem ég var.
Því gerandinn ert þú,
já, nauðgarinn ert þú.
Það eru löggur,
dómarar
sýslumenn
og ráðherrar!
Það er kúgandi ríki
í karlrembu líki.
Það er kúgandi ríki
Í karlrembu líki.
Því gerandinn ert þú
já, nauðgarinn ert þú.
Sofðu unga ástin mín og örvæntu ekki
við mæður, systur og dætur.
Stöndum sterkar á fætur,
tökum siðleysi gröf.
Nýtum okkar lög
og kærum ríkisvaldið,
því nauðgarinn ert þú
já gerandinn ert þú.
Gerandinn ert þú.
Gerandinn ert þú.
Athugasemdir