Mennirnir sex sem handteknir voru í Namibíu í tengslum við uppljóstranir í Samherjaskjölunum munu sitja áfram í gæsluvarðhaldi. Á meðal þeirra eru Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, og Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra. The Namibian greinir frá.
Sexmenningarnir voru handteknir í nóvember eftir að Stundin, Kveikur, Wikileaks og Al Jazeera ljóstruðu upp um mútugreiðslur Samherja til að öðlast fiskveiðiheimildir í Namibíu. Auk Esau og Shanghala voru handteknir frændurnir James og Tamson „Fitty“ Hatuikulipi, sem kallaðir voru „hákarlarnir“ og komu til Íslands á vegum Samherja.
Dómari við hæstarétt í Windhoek, höfuðborg Namibíu, úrskurðaði í dag að beiðni þeirra um að fá handtökur þeirra úrskurðaðar ólöglegar yrði ekki tekin fyrir. Beiðni þeirra var ekki talin áríðandi og var þar með vísað frá. Mál mannanna verður næst tekið fyrir 20. febrúar 2020.
Athugasemdir