Óhagstætt er að kaupa kjöt hjá Heimkaupum, miðað við heimsendingaþjónustu Nettó, og hæsta verðið er almennt í Iceland en það lægsta í Bónus, samkvæmt nýrri könnun Alþýðusambands Íslands á verði jólamatvæla.
Meðal undantekninga er verðið á frosnum, heilum kalkún. Í Bónus er kílóverð kalkúns 1.598 krónur og einni krónu hærra í Krónunni, en í Nettó, Kjörbúðinni og Iceland er kílóverðið aðeins 1.198. Þannig geta sparast 2.400 krónur með því einu að kaupa sex kílógramma heilan kalkún í þessum þremur verslunum frekar en í Bónus eða öðrum verslunum með enn hærra verð. Ekki eru metin gæði vöru og ekki er tiltekinn uppruni hennar í könnun ASÍ.
Helst er það í kjötinu sem Nettó og Fjarðarkaup veita Bónus og Krónunni harða verðsamkeppni. Það er einnig í kjöti sem afbrigði eru í verðlagningu hjá Iceland, en í nánast öllum öðrum vöruflokkum er Iceland með hæsta verðið, nokkru ofar en Hagkaup sem kemur næst. Costco er ekki mælt í verðkönnun ASÍ.
ASÍ kynnti niðurstöður sínar rétt í þessu og tilgreindi sérstaklega verðmun í kjöti, en einnig er gegnumgangandi verulegur verðmunur á Bónus og Iceland.
„Mikill verðmunur var á jólamat í verðkönnun ASÍ sem framkvæmd var þriðjudaginn 17. desember. Oft var um 1.500-2.000 kr. verðmunur á kílóverði af kjöti og getur því munað háum upphæðum þegar kaupa þarf mikið magn af kjöti og mögulega fleiri en eina tegund. Sem dæmi má nefna að 2.006 krónu eða 67% munur var á kílóverði af Kea hangilæri sem jafngildir 4.012 kr. verðmun ef keypt er tveggja kílóa læri.
„Í mörgum tilfellum var einnig mikill munur á verði á öðrum algengum jólavörum eins og konfekti og ávöxtum og grænmeti“
Í mörgum tilfellum var einnig mikill munur á verði á öðrum algengum jólavörum eins og konfekti og ávöxtum og grænmeti. Má þar nefna að 1.730 kr. munur var á hæsta og lægsta verði á 2kg Quality Street konfekt dós.
Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni, í 75 tilvikum af 122 en Iceland oftast með hæsta verðið í 57 tilvikum. Þess ber þó að geta að lægsta verðið á kjöti dreifðist á margar verslanir,“ segir í tilkynningu ASÍ.
Athugasemdir