Vísindamenn er rannsaka forsögu mannsins klóra sér nú í höfðinu yfir nýjum niðurstöðum rannsókna frá indónesísku eyjunni Jövu.
Frá þeim er sagt til dæmis hér á vefsíðu tímaritsins Nature.
Árið 1931 fundust beinaleifar nálægt Solo-fljóti á Jövu, nánar tiltekið á stað er nefnist Ngandong. Steingervinga- og jarðfræðingurinn Gustav Heinrich Ralph von Koenigswald stýrði hollensk-þýskum leiðangri sem bar þar kennsl á mannabein og reyndust þau vera af tegundinni homo erectus. Sú tegund kom fram í Afríku fyrir um tveim milljónum ára og var - eftir því sem best er vitað - fyrsta manntegundin sem gekk að fullu upprétt.

Hinn upprétti maður dreifðist um víða veröld og hafa leifar hans fundist í Evrópu, víða í Asíu og á Jövu. Leifar sem fundust af homo erectus á Jövu upp úr 1890 (og kallast Javamaðurinn) hjálpuðu mönnum einmitt mjög að skilja þróun mannsins á fyrri tíð, en þær reyndust vera 700.000 til milljón ára gamlar.
Hingað til hefur verið talið að homo erectus hafi dáið út fyrir mörg hundruð þúsund árum. Síðustu leifar hans í Afríku eru 500.000 ára gamlar en talin er að hann hafi skrimt í Kína þangað til fyrir 400.000 árum. Þá voru fyrstu tegundir homo sapiens komnar fram, hins viti borna manns eins og við nefnum okkur af svo mikilli hógværð.
Fræðimenn hafa deilt um hvort sapiens hafi beinlínis rutt erectus úr vegi eða hvort að erectus hafi einfaldlega ekki verið fær um að bregðast við loftslagsbreytingum sem sapiens réði við.
Hinar nýju niðurstöður á beinunum sem Koeningswald og félagar fundu hafa nú komið með eindregnar vísbendingar um það - og fleira.
Rétt upp úr 1990 bentu niðurstöður frá Solo-fljóti til þess að erectus-fólkið, sem þar bjó, hafi verið á dögum fyrir aðeins 40.-50.000 árum. Það þótti svo fráleitt að það gæti ekki staðist og efasemdarmenn bentu á að beinaleifarnar hefðu fundist í eldfjallalögum sem mjög erfitt væri að aldursgreina.
Nú, tæpum 30 árum seinna, hafa beinin verið rannsökuð að nýju með fínustu mögulegum aðferðum og niðurstöðurnar eru óyggjandi.
Homo erectus var á ferðinni við Solo-fljótið fyrir um 105.000 árum.
Sem sé 300.000 árum eftir að hann átti að hafa dáið út.
Og um það bil 100.000 árum eftir að okkar gerð af homo sapiens var vel og tryggilega komin fram í dagsljósið. Þetta er mjög merkilegt og fyllir vel út í þá gerbreyttu mynd af þróun mannsins sem vísindamenn hafa verið að draga upp síðustu árin.

Í stað þess snyrtilega þróunarkorts, sem mín kynslóð lærði í skóla og sýndi eina manntegund taka snyrtilega við af annarri og verða sífellt „háþróaðri“, þá er nú orðið ljóst að á öllum tímum (þangað til fyrir tiltölulega skömmu) voru líklega alltaf til nokkrar manntegundir samhliða og á ýmsum þróunarstigum.
Að homo erectus hafi haldið velli á Jövu svo lengi er enn ein sönnun þess.
Og þessu nýju niðurstöður gefa líka vísbendingu um annað. Ef menn reikna með að erectus hafi dáið út á Jövu fyrir tæpum 100.000 árum - því engar yngri leifar hafa fundist - þá verður ekki betur séð en Java hafi verið mannlaus í allt að 60.000 ár.

Fyrstu leifar homo sapiens sem fundist hafa á Jövu eru nefnilega 39.000 ára.
Og hvað þýðir það? Jú - það var sem sé ekki homo sapiens sem útrýmdi frænda sínum homo erectus.
Ekki á Jövu að minnsta kosti.
Einmitt um það leyti sem síðustu erectus-mennirnir bjuggu á Jövu var veðurfar að breytast þar ansi mikið. Þar höfðu verið gresjur og steppur og lágur trjágróður en nú hlýnaði, raki jókst og regnskógar breiddust út um eyjuna.
Úr því homo erectus hefur dáið út um þær mundir er ljóst að hann hafi ekki til að bera næga aðlögunarhæfni til að bregðast við breyttum aðstæðum. Og hafi svo verið á Jövu, þá má líklega draga svipaðar ályktanir um hvað olli útrýmingu erectus annars staðar nokkur hundruð þúsund árum fyrr.
Þessar niðurstöður styðja þá hugmynd að breytingar í náttúrunni hafi átt meiri þátt í brotthvarfi erectus en bölvuð frekjan í nútímamanninum.
Athugasemdir