Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir Landsréttarmálið ekkert eiga skylt við herferðir stjórnvalda gegn pólskum dómstólum. Segir hún það vera af og frá að tengja Landsréttarmálið við óeðlileg pólitísk afskipti framkvæmdavaldsins af skipan dómsvaldsins. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Ríkisstjórnin afgreiddi greinargerð á föstudag vegna áfrýjunar niðurstöðu Mannréttindadómstólsins um að Sigríður Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, hefði brotið lög við skipan dómara í Landsrétt. Málið verður tekið fyrir hjá Yfirdeild dómstólsins 5. febrúar.
Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður Dómarafélagsins og dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, hefur sagt það verulegt áhyggjuefni að pólsk yfirvöld styðji íslenska ríkið í Landsréttarmálinu. „Pólskir dómarar hafa undanfarin ár sætt ofsóknum og skipulögðum rógsherferðum stjórnar PiS-flokksins sem vill afnema sjálfstæði dómstóla, beita kynbundnu misrétti og takmarka sjálfsögð grundvallarréttindi hinsegin fólks,“ sagði hann í færslu á Facebook fyrir helgi. „Íslensk stjórnvöld eiga forðast slíkan félagsskap eins og heitan eldinn.“
Áslaug segir það alvanalegt að önnur lönd komi sjónarmiðum sínum á framfæri fyrir Mannréttindadómstólnum. „Við munum bara halda áfram með málið út frá okkar forsendum og þeim sjónarmiðum. Ég tel að Landsréttarmálið eigi ekkert skylt við málsatvik í Póllandi. Það er ansi langsótt að tengja það saman,“ sagði Áslaug við Morgunblaðið.
Hún telur ekki að afstaða pólska ríkisins muni hafa áhrif á málavexti. „Mannréttindadómstóllinn klofnaði í afstöðu sinni í neðri deildinni og við teljum minnihlutaálitið þar vera vel rökstutt. Þar kemur meðal annars fram að álit Hæstaréttar varðandi túlkun á íslenskum lögum um að dómararnir séu löglega skipaðir sé rétt niðurstaða,“ sagði Áslaug ennfremur.
Athugasemdir