Namibískir sjómenn sem misstu störf sín árið 2015 eftir verkfall mótmæltu í borginni Walvis Bay í dag. Þeir kröfðust þess að Bernhardt Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra landsins, verði áfram í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á mútugreiðslum Samherja til að öðlast fiskveiðiréttindi í landinu. Dómstóllinn féllst rétt í þessu á gæsluvarðhald yfir sex manns fram í febrúar 2020 að því fram kemur hjá namibíska fjölmiðlinum Informanté.
Sjómennirnir segja að brottrekstur þeirra í kjölfar verkfalls hafi verið óréttmætur. 25 sjómenn úr þeirra röðum hafa látist síðan þá, að því segir í umfjöllun blaðsins The Namibian. Leiðtogi verkalýðsfélags þeirra sagði þá gera kröfu um að Esau sæti gæsluvarðhaldi þar til réttarhöld yfir honum fara fram. Esau var einn af sex mönnum sem handteknir voru vegna málsins, sem Stundin, Kveikur, Wikileaks og Al Jazeera upplýstu um í nóvember.
Mótmæli brutust út við dómshúsið í Windhoek í dag þegar fjallað var um gæsluvarðhald sexmenninganna. Á meðal þeirra handteknu eru Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og frændurnir James og Tamson „Fitty“ Hatuikulipi, sem kallaðir voru „hákarlarnir“ og komu til Íslands á vegum Samherja. Munu þeir allir vera í haldi til 20. febrúar.
Athugasemdir