Norski DNB-bankinn segir að enginn viðskiptavinur bankans sé það mikilvægur að bankinn myndi brjóta gegn lögum og reglum til að ganga hagsmuna viðkomandi fyrirtækis. Þetta kemur fram í svörum frá upplýsingafulltrúa DNB, Even Westerveld, við einni af spurningum Stundarinnar um Samherjamálið í Namibíu.
Stundin hefur um alllangt skeið og ítrekað reynt að fá efnisleg og sértæk svör við spurningum um viðskipti bankans við íslenska útgerðarfélagið Samherja, líkt og áður hefur komið, en bankinn hefur ekki viljað svara spurningum blaðsins. „Við áttum okkur á að þið viljið vita hvernig bankinn hefur unnið með þetta mál en við höfum hreinlega ekki leyfi til að fjalla um smáatriði í því,“ segir Even Westerveld í einni af synjunum sínum þar sem hann segist ekki geta svarað spurningum um Samherjamálið í Namibíu.
Hið sama á við um efnislegar spurningar samstarfsaðila Stundarinnar í umfjöllun um Samherjaskjölin, fréttaskýringaþáttinn Kveik í Ríkissjónvarpinu og norska ríkissjónvarpið NRK, líkt og kom fram í umfjöllun þessara miðla í gær.
Wikileaks hefur nú birt skjölin um starfsemi Samherja í DNB-bankanum sem umfjallarnir fjölmiðlanna byggja á og miðlarnir hafa haft aðgang að í gegnum Wikileaks.
Samherjamálið er nú til rannsóknar eða athugunar í þremur löndum: Namibíu, Noregi og Íslandi. Í Noregi hefur efnahagsbrotadeildin Ökokrim haft málið til skoðunar líkt og fram hefur komið.
„Almennt séð er enginn kúnni mikivægari en vinna bankans við að framfylgja lögum um reglum“
Reikningar Samherja í DNB
DNB-bankinn er helsti viðskiptabanki Samherja, eins og Samherjaskjölin sýna, og eru helstu eignarhaldsfélög Samherja eins og Esja Seafood Limited og Esja Shipping Limited á Kýpur með bankareiknininga í DNB. Samherji hefur verið í viðskiptum við DNB frá árinu 2008.
Eins og fjallað hefur verið um sagði DNB upp viðskiptasambandinu við félagið Cape Cod FS í skattaskjólinu Marshall-eyjum í maí í fyrra eftir að athuganir bankans á fyrirtækinu, og móðurfélagi þess JPC Ship Management, sýndu fram á að bankinn vissi ekki hver væru endanlegur eigandi þessara fyrirtækja.
Slíkt þekkingarleysi stríðir gegn svokölluðum KYC-reglum (e. Know your client) og stríða gegn lögum og reglum um aðgerðir fjármálafyrirtækja til að berjast gegn peningaþvætti. Samherji hafði þá millifært 9,2 milljarða króna til Cape Cod FS á tímabilinu 2010 til 2018 þaðan sem peningarnir voru notaðir til að greiða laun sjómanna í Afríku. Í slíkum tilfellum, þar sem endanlegur eigandi félagsins er ókunnur, skapast hætta á peningaþvætti og grunur vaknar um að peningaþvætti hafi mögulega átt sér stað ef viðskiptasambandið hefur verið látið óátalið í lengri tíma.
Jóhannes Stefánsson, uppljóstrarinn í máli Samherja í Namibíu, segir í viðtali við NRK, að Samherji hafi valið norska bankann út af því orðspori sem fer af honum og vegna orðspors Noregs almennt séð: „Þetta er góð leið til að þvætta peninga, peningastraumurinn kemur frá Namibíu og til fyrirtækja á Kýpur sem eru með norska bankareikninga. Þegar peningarnir eru komnir inn í norskan banka og norska hagkerfið, þá vakna færri spurningar þegar þeir eru fluttir fram og til baka vegna þess að Noregur er með gott orðspor og telst vera öruggt og traust land. Þá spyrja menn færri spurninga í öðrum löndum um uppruna fjármagnsins,“ segir Jóhannes í viðtalinu við NRK.
Af hverju var Samherji áfram viðskiptavinur DNB?
Ein af spurningunum sem vaknar í máinu er af hverju DNB gerði ekkert almennt séð í viðskiptasambandi sínu við Samherja þar sem fyrir liggur að bankinn vissi að Samherji hefði notað reikninga Cape Cod FS, að fjármálastjóri Samherja á Kanaríeyjum, Brynjar Þórsson, var skráður sem „notandi“ bankareikninga Cape Cod hluta tímabilsins og að það fjármagn sem fór inn og út af reikningum Samherja tengdist rekstri Samherja. DNB segir meira að segja í greiningu sinni á Cape Cod FS að félagið hafi verið „undir Samherja“ en að það sé það ekki lengur.
Út frá Samherjaskjölunum liggur líka fyrir að Samherji notaði að minnsta kosti tvö af félögunum sínum á Kýpur sem voru með bankareikninga í DNB til að greiða mútur til fyrirtækis James Hatuikulipi í Dubaí og eins til félags Tamson Hatukulipi í Namibíu.
Spurning Stundarinnar hljóðaði svona: „ Ef bankinn hélt, eða vissi, að Cape Cod FS hafði verið „undir Samherja“ af hverju gerði bankinn ekkert í hinum bankareikningunum og félögum Samherja sem voru með bankareikninga hjá DNB, meðal annars Esju Seafood sem borgaði nokkrar milljónir dollara í mútur til félags í Dubaí? Var hugsun bankans að Samherji væri of stór og mikilvægur viðskiptavinur til að bankinn vildi segja upp viðskiptasambandi við Samherja sem slíkt“.
Um þetta segir Westerveld: „Almennt séð er enginn kúnni mikilvægari en vinna bankans við að framfylgja lögum um reglum. Alveg óháð því hversu stór viðskiptavinurinn er þá á bankinn að tilkynna grun um refsiverða háttsemi til lögreglunnar.“
Ein af spurningunum sem DNB neitar að svara er af hverju og út frá hvaða gögnum bankinn hafi metið það sem svo að Cape Cod FS á Marshall-eyjum hafi verið undir Samherja. Spurningin hljóðaði svona: „Við hvað átti DNB, og hvaða sannanir hafði bankinn fyrir því, að félagið væri „ekki lengur undir Samherja“ í fyrra eins og það var orðað í gögnum bankans? Hvaða sannanir hafði DNB fyrir því að Samherji hafii átt félagið, þetta stendur ekki í gögnunum, var það mat bankans að þetta hafi verið svo?“
„DNB hefur aldei fengið sekt frá bandarískum stofnunum vegna brotalama í regluverki sínu gegn peningaþvætti og fjármögnunum hryðjuverka.“
DNB aldrei greitt sektir til bandarískra stofnana
Stundin spurði DNB líka af hverju bankinn hefði ekki gert neitt í viðskiptasambandi sínu við Cape Cod og JPC Ship Management sumarið 2017 þegar KYC-athugun var gerð á félögunum og niðurstaðan var sú sama að viðskiptavinirnir fælu í sér „mikla áhættu“.
Eins og segir í áhættugreiningu bankans sem greint hefur verið frá : „JPC Ship Management (á Kýpur) Ltd. hefur verið viðskiptavinur LCI, sem nú tilheyrir Ocean Industries Global Seafood Oslo. Félagið varð viðskiptavinur í kjölfar þess að sett voru gjaldeyrishöft á Íslandi í kjölfar bankahrunsins árið 2008. Viðskiptavinurinn gekkst undir KYC-athugun (Know Your Client) árið 2017 og var niðurstaðan úr henni sú að honum fylgdi mikil áhætta vegna millifærslna til Rússlands og Úkraínu en ekki var brugðist við því með nokkrum hætti. Millfærslur viðskiptavinarins til Rússlands og Úkraínu (greiðslur á launum) fela í sér mikla áhættu á peningaþvætti og sektargreiðslur [e. High AML and sanction risk].“
DNB gerði ekkert í viðskiptasambandinu fyrr en eftir að bandaríski bankinn Bank of New York Mellon stöðvaði millifærslu frá JPC Ship Managment í mars 2018, eins og bankinn hafi viljað þagga áhættuna í viðskiptasambandinu við þessi félög niður. Um þetta var ein spurning til DNB: „Af hverju var ekkert gert í málum þessara félaga fyrr en eftir að Bank of New York Mellon hafði stöðvað millifærslu frá öðru þeirra? Það kemur fram í gögnunum að DNB hafi verið hrætt við bæturnar sem bandaríska stofnanir hefðu getað látið bankann greiða fyrir að hafa brotið gegn sínu eigin regluverki. Var þetta eina ástæðan að eitthvað var að endingu gert? Hversu oft hefur DNB þurft að greiða bætur vegna slælegra varna gegn vafasömum fjármagnsflutningum?“
Um þetta segir upplýsingafulltrúinn Even Westerveld, en svarar hins vegar aðeins hluta spurningarinnar: „DNB hefur aldei fengið sekt frá bandarískum stofnunum vegna brotalama í regluverki sínu gegn peningaþvætti og fjármögnunum hryðjuverka.“
Bandaríska stofnunin sem um ræðir er SEC (The Securities and Exchange Commission) en þessi stofnun hefur í gegnum tíðina lagt háar sektir á erlend fyrirtæki sem stunda viðskipti í Bandaríkjunum og eða í Bandaríkjadollurum vegna lögbrota þeirra erlendis, eins og til dæmis vegna peningaþvætti eða mútubrota.
„Ef niðurstaðan verður að félag hafi notað bankakerfi DNB til að fremja glæpi þá mun það að sjálfsögðu hafa áhrif á viðskiptasamband þess við bankann.“
Verður Samherja bara sagt upp ef lögbrot sannast?
Annað sem Even Westerveld segir um Samherjamálið og rannsóknina á því almennt séð er að það sé lögreglan sem þurfi að rannsaka það og komast að því hvað gerðist og hvað teljist mögulegt lögbrot. „DNB rannsakar þetta til að komast að staðreyndum. Svo er það lögreglan sem verður að segja til um hvort þetta tiltekna félag hafi brotið lög eða ekki. Ef niðurstaðan verður að félag hafi notað bankakerfi DNB til að fremja glæpi þá mun það að sjálfsögðu hafa áhrif á viðskiptasamband þess við bankann.“
Eitt af því sem er áhugavert við þetta er að bankinn virðist hafa, réttilega eða ranglega og í góðri trú eða vondri, metið það sem svo að Cape Cod FS væri „ekki lengur undir Samherja“ og að íslenska útgerðin hafi því ekki lengur borið ábyrgð á félaginu.
Eitt af því sem DNB bankinn kann að vera að meina með þessum orðum er að Samherji hætti mestu að nota Cape Cod FS til að greiða út laun sjómanna sinna í Namibíu árið 2016 þegar ný lög um tekjuskatt tóku gildi í landinu, líkt og fjallað hefur verið um.
Samkvæmt þessum lögum þurftu sjómennirnir íslensku og frá Austur-Evrópu sem fengið höfðu launin sín óskattlögð útborguð í gegnum Cape Cod FS að greiða tekjuskatt af þeim í Namibíu. Margir milljarðar króna höfðu hins vegar verið millifærðir inn á félagið þann tíma sem það var sem mest virkt og greiddi út laun sjómanna Samherja. Í gögnum DNB bankans frá stofnun bankareikinga Cape Cod FS árið 2010 kemur fram að til hafi staðið að millifæra 100 milljónir króna á mánuði inn á reikningana og gekk þetta eftir nokkurn veginn næstu árin. Ef brot eins og peningaþvætti hafa átt sér stað í rekstri Cape Cod FS þá áttu þau sér stað á meðan Samherji var að nota þetta félag sama þó DNB hafi metið það svo að félagið væri „ekki lengur undir Samherja“ þegar bankareikningum þess var lokað í fyrra.
Út af óvissu um eignarhaldið á Cape Cod FS, og út af hættu á peningaþvætti vegna þessa, lokaði DNB reikningum Cape Cod í fyrra. Í tilfelli Cape Cod var þessi óvissa um eignarhald Cape Cod FS, og möguleiki á peningaþvætti og þá grunur um að peningaþvætti hafi verið stundað innan félagsins fram að því, nægjanlegt skilyrði til að loka reikningum félagsins.
Miðað við svör upplýsingafulltrúa DNB um viðskiptasamband Samherja við bankann þá er það hins vegar eingöngu sönnun á lögbrotum Samherja í gegnum DNB sem mun hafa áhrif á viðskiptasamband Samherja við DNB almennt séð. Miðað við orð Westerveld þá mun DNB einungis segja upp viðskiptasambandi sínu við Samherja ef lögbrot sannast á félagið, grunur um slíkt og möguleiki á því virðist ekki vera nægjanlegur. Viðskiptasambandi bankans við Cape Cod FS var hins vegar ekki sagt upp á grundvelli lögbrota heldur óvissu um eignarhald og mögulegra lögbrota líkt og gilti um viðskiptasamband Cape Cod FS við bankann.
Á meðan þá getur Samherji haldið áfram að nota félögin sín á Kýpur og bankareikningana í DNB, meðal annars Esju Seafood Limited sem greiddi hálfan milljarð í mútur til skúffufélags Namibíumannsins James Hatukulipi í Dubaí og sem fjármagnaði Cape Cod FS í skattaskjólinu Marshall-eyjum að stóru leyti.
Athugasemdir