Þorsteinn Már Baldvinsson, fyrrverandi forstjóri Samherja, hefur sagt sig úr stjórn norska sjávarútvegsfyrirtækisins Nergård. Þetta kemur fram í norskum fjölmiðlum. Samherji á tæp 40 prósent í Nergård og sat Þorsteinn Már í stjórninni frá árinu 2014 þar til nú. Sonur Þorsteins Más, Baldvin Þorsteinsson, situr hins vegar áfram í stjórninni. Samherji fjárfesti í fyrirtækinu árið 2014.
Ástæðan fyrir afsögn Þorsteins úr stjórn norska fyrirtækisins er fréttaflutningur Kveiks, Stundarinnar og Al Jazeera um mútugreiðslur Samherja í Namibíu í síðustu viku. Fréttaflutningurinn byggir á gögnum sem Wikileaks lét fjölmiðlunum í té og sem Wikileaks hefur nú birt opinberlega á vefsíðu sinni.
„Samvinna okkar við Þorstein hefur verið góð.“
Forstjóri Nergård, Tommy Torvanger, segir að Þorsteinn Már hafi gert Nergård mikið gagn sem stjórnarmaður og að hann búi yfir mikilli þekkingu, sérstaklega hvað varðar byggingu skipa. „Samvinna okkar við Þorstein hefur verið góð. Hann býr yfir mikilli þekkingu. Hann er búinn að vera okkur mikilvægur. Svo sjáum við bara til hvað framtíðin ber í skauti sér.“
Þorsteinn Már hefur nú sagt sig úr stjórn Síldarvinnslunnar, þar sem hann var formaður, sem og úr stjórn útgerðarfélagsins Framherja í Færeyjum, þar sem hann einnig var formaður, og nú úr stjórn Nergård í kjölfar fréttaflutnings um mútugreiðslurnar í Namibíu.
Þá hætti hann einnig sem forstjóri Samherja í síðustu viku en samkvæmt útgerðarfélaginu er sú ráðstöfun tímabundin og kann Þorsteinn Már því að snúa aftur í forstjórastólinn.
Athugasemdir