„Maðurinn sem hér situr hefur ítrekað sýnt að hann vill ekki leggja spil sín á borðið,“ sagði Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, um Eyþór Arnalds, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, þegar þau ræddu saman í þættinum Bítið á Bylgjunni í morgun. Til tals voru kaup Eyþórs á hlut Samherja í Morgunblaðinu með seljandaláni frá fyrirtækinu sem hefur verið afskrifað að stórum hluta, eins og Stundin hefur greint frá.
„Þetta mál snýst ekkert endilega um það með hvaða hætti Samherji, þetta fyrirtæki sem hefur nú verið staðfest að greiði mútur til stjórnmálamanna hafi í huga að nýta Eyþór,“ sagði Dóra Björt. „Það er hagsmunaárekstur falinn í því að taka við gjöfum, hundruðum milljóna frá stórum fjárhagslegum aðila. Það er nú aðalatriðið. Þess vegna er það þannig að jafnvel þótt menn hafi verið í fullkomlega löglegum viðskiptum þurfa þeir að svara fyrir þau þegar þeir fara í stjórnmálin. Vegna þess að það er mikilvægt að almenningur geti fullvissað sig um að þeir séu eigin herra og ekki með leynda sérhagsmuni.“
Eignarhaldsfélag Eyþórs sem á hlutabréf í Morgunblaðinu er á endanum fjármagnað af Kýpurfélagi Samherja, Esju Seafood, sem er miðpunkturinn í mútugreiðslum og fjármagnsflutningum Samherjasamstæðunnar erlendis, sem Stundin hefur greint frá ásamt RÚV, Wikileaks og Al Jazeera. Eyþór fékk 225 milljón króna kúlulán frá Samherja fyrir kaupum á hlutnum sem að miklu leyti hefur verið afskrifað.
„Það er alltaf óheppilegt að stjórnmálamenn séu mikið í fjölmiðlum,“ sagði Eyþór í þættinum. „Það var Pírati sem átti í Stundinni og Samfylkingarþingmaður sem átti í Kjarnanum. Össur Skarphéðinsson var ritstjóri tveggja blaða á meðan hann sat á þingi. En ég sagði strax og ég fór í pólitíkina að ég mundi draga mig úr þessu. Fór úr stjórn og hef ekki haft afskipti af þessu. Ég tel betra að hafa fjarlægð á milli.“
Vísar Eyþór þarna til þess að Smári McCarthy, þingmaður Pírata, hafi átt 2 prósenta hlut í Stundinni þegar hann var kosinn á þing árið 2016. Seldi hann hlut sinn í kjölfar þess.
Eyþór situr enn í stjórn fyrirtækja með net dótturfélaga, þrátt fyrir loforð hans fyrir borgarstjórnarkosningar 2018 um að draga sig úr viðskiptalífinu. Félag Eyþórs, Ramses II ehf., er stærsti einstaki eigandi Morgunblaðsins með rúmlega 20 prósenta hlut. Hann hefur ekki svarað ítrekuðum fyrirspurnum Stundarinnar vegna málsins.
Dóra Björt sagði að hana grunaði að sannleikurinn í málinu væri svartur af því að Eyþór hefur ekki svarað af hvaða ástæðum lánið frá Samherja var afskrifað. Hún sagði Eyþór vera margsaga í málinu og ekki koma heiðarlega fram.
„Þetta eru líka peningar fengnir frá fyrirtæki sem hefur beinlínis það hlutverk að múta stjórnmálamönnum“
„Þetta er mjög vont mál allt saman og það er rosalega vont þegar stjórnmálamaður hefur svo bein tengsl við svo stóran hagsmunaaðila í okkar samfélagi,“ sagði Dóra Björt. „Nú kemur svo í ljós að það er ekki nóg með að hann er algjörlega háður þarna mjög stórum hagsmunaaðila. Þetta eru líka peningar fengnir frá fyrirtæki sem hefur beinlínis það hlutverk að múta stjórnmálamönnum.“
Eyþór sagði Dóru Björt rugla honum saman sem persónu og félaginu sem hann á. „Í öðru lagi finnst mér nú ósæmilegt að segja að Samherji sé einhvers konar mútufélag, eins og mér heyrist hún vera að segja,“ sagði hann. „Það að Samherji hafi fengið fjármögnun frá öðru félagi sem er í einhverjum rekstri síðan og svo framvegis gerir ekki Samherja að einhvers konar félagi eins og hún lýsir. Viðskiptin voru á milli Samherja og félags í minni eigu.“
Eyþór sagðist ekki vera sá eini í borgarstjórn sem á fjárhagslegra hagsmuna að gæta utan starfs síns sem borgarfulltrúi og bætti því við að seljandalán væru algeng í áhættusömum viðskiptum. „Ef við eigum að fara í nýjar spurningar gagnvart mér þá á sama að gilda um aðra finnst mér. Þannig að ég segi eigum við ekki bara að klára þessar reglur sem var samþykkt fyrir ári síðan að gera, Dóra, um að auka upplýsingagjöfina og láta það gilda um alla, en ekki fara í dylgjur gagnvart mér og öðrum fyrirtækjum.“
Athugasemdir