Austurlönd nær og Norður-Afríka eru sá hluti heimsins sem býr yfir mestum og gjöfulustum náttúruauðlindum. Á öllu þessu svæði er ekkert lýðræðisríki nema Ísrael sem hefur búið við lýðræðislega stjórnarhætti frá öndverðu 1948 og einnig Túnis frá 2013.
Eina skrefið í lýðræðisátt í Austurlöndum nær og Norður-Afríku frá 1989 var stigið í Túnis sem hratt Arabíska vorinu af stað 2011, setti sér nýja lýðræðislega stjórnarskrá og býr nú við brothætt lýðræði í stað harðsvíraðs einræðis áður. Annars staðar á svæðinu voru uppreisnir almennings barðar niður líkt og gerðist í Evrópu eftir byltingarnar 1848. Mörg okkar vonuðu að Arabíska vorið myndi leiða til gagngerra umskipta fyrir 300 milljónir manna líkt og gerðist þegar kommúnisminn hrundi í Sovétríkjunum og fylgiríkjum þeirra í Mið- og Austur-Evrópu 1989-1991. Vonin brást nema í Túnis með sínar 12 milljónir íbúa.
„Öfugt samband auðlinda og lýðræðis er engin tilviljun“
Öfugt samband auðlinda og lýðræðis er engin tilviljun. Þeir sem hafa sölsað undir sig auðlindirnar í Austurlöndum nær og Norður-Afríku og víðar reyna að halda völdum sínum með öllum ráðum til að halda öðrum niðri og hleypa þeim ekki að kjötkötlunum. Þess vegna eru ekki haldnar lýðræðislegar kosningar í þessum löndum. Kúgun er daglegt brauð. Stjórnarandstæðingar eru stundum settir út af sakramentinu, stundum fangelsaðir og stundum drepnir. Eftir miklu er að slægjast. Náttúruauðlindarentan, þ.e. tekjurnar af auðlindanýtingunni umfram kostnað, er gríðarleg. Hún nam skv. gögnum Alþjóðabankans að jafnaði 24% af landsframleiðslu á svæðinu í heild 1970–2017 borið saman við 3% fyrir heiminn allan.
Rentusókn grefur undan lýðræði
Afríka sunnan Sahara-eyðimerkurinnar, stundum kölluð Svarta Afríka, kemur næst Austurlöndum nær og Norður-Afríku að náttúruauðlindagnægð. Í Afríku nam náttúruauðlindarentan að jafnaði 10% af landsframleiðslu 1970-2017. En auðinum er misskipt milli landa: Helminginn af öllum auði Afríku – fjármagni, mannauði, náttúruauði o.fl. – er að finna í bara tveim löndum af rösklega 50, Nígeríu og Suður-Afríku.
Þau tíu Afríkulönd sem eiga mest af náttúruauðlindum búa yfir auðlindarentu sem nam 24% af landsframleiðslu þessi 47 ár 1970–2017 eins og í Austurlöndum nær og Norður-Afríku, og þetta eru þau Afríkulönd þar sem lýðræði stendur höllustum fæti. Freedom House gefur þeim nú lýðræðiseinkunnina 2,5 að meðaltali þar sem skalinn nær frá 0 (harðsvírað einræði) upp í 10 (óskorað lýðræði). Þau tíu Afríkulönd sem minnst eiga af náttúruauðlindum búa yfir auðlindarentu sem nam á sama tíma 3% af landsframleiðslu að meðaltali eins og um heiminn í heild, og þau fá að meðaltali lýðræðiseinkunnina 5,8. Þau standast prófið, hin ekki.
„Ráð þjóða til lífsviðurværis“
Munstrið er býsna skýrt í Afríku líkt og um heiminn í heild. Mörgum auðlindum er auðstolið sé þeirra ekki vel gætt. Óprúttnum mönnum hefur reynzt tiltölulega auðvelt að sölsa undir sig margar dýrmætar auðlindir náttúrunnar jafnvel þótt lög og alþjóðasáttmálar kveði á um þjóðareign á auðlindunum. Rentusóknarar telja sig margir þurfa að grafa undan lýðræði og mannréttindum til að veikja stöðu þeirra sem auðlindirnar hafa verið hafðar af.
Samkvæmt Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem er bindandi að lögum fyrir allar þær þjóðir sem hafa undirritað hann og fullgilt, þar með talin öll Afríkulöndin, er óheimilt að afhenda einkaaðilum aðgang að náttúruauðlindum í þjóðareigu sé lýðræði ekki til að dreifa. Hugsunin er sú að réttur eigandi, þjóðin, hefur þá ekki skilyrði til þess að verja rétt sinn og eigur gegn ágangi gráðugra rentusóknara. Fyrsta grein samningsins kveður á um að „Allar þjóðir mega, í sínu eigin markmiði, ráðstafa óhindrað náttúruauðæfum og auðlindum sínum brjóti það ekki í bága við neinar skuldbindingar sem leiðir af alþjóðlegri efnahagssamvinnu, byggðri á grundvallarreglunni um gagnkvæman ábata, og þjóðarétti. Aldrei má svipta þjóð ráðum sínum til lífsviðurværis.“
Eins og aðrar mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna er Alþjóðasamningurinn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ofar landslögum. Þess vegna er hægt að vísa brotum gegn samningnum til erlendra mannréttindadómstóla eins og sjómennirnir Erlingur Sveinn Haraldsson og Örn Snævar Sveinsson gerðu á sínum tíma og höfðu frækilegan sigur gegn íslenzka ríkinu fyrir Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna 2007. Mannréttindanefndin gaf þá íslenzkum stjórnvöldum skýr, bindandi fyrirmæli um að nema mannréttindabrotaþáttinn burt úr fiskveiðistjórnarkerfinu. Stjórnvöld komu sér úr klípunni með því að lofa staðfestingu nýrrar stjórnarskrár. Síðan eru liðin tólf ár.
Ásælni Kínverja
Kínverjar eru sólgnir í ýmsar auðlindir Afríku. Þeir reiða fram fjárhagsaðstoð í stórum stíl, byggja vegi, hús og brýr o.fl. og veita lán, svo stór lán stundum að áhöld eru um hvort lántakendum auðnist nokkurn tímann að standa í skilum.
Allmörg Afríkulönd hafa tekið þessum tilboðum Kínverja fegins hendi. Önnur lönd eru á varðbergi, einkum gagnvart þeim boðskap Kínverja að lýðræði sé óþarft og hamli hagvexti. Þau skilja að lýðræði er eina stjórnskipulagið sem tryggir jafnan óskoruð mannréttindi og stuðlar að stjórnarskiptum í friði, röð og reglu. Lýðræði leyfir öllum röddum að heyrast og þaggar ekki þá sem gagnrýna stjórnvöld og reyna að vísa þeim veginn að æskilegum umbótum. Höfuðkostur lýðræðis er að lýðræðislegar ákvarðanir í kosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum verða ekki vefengdar. Þeim ber öllum að hlíta hvort sem einhverjum okkar finnst að hægt hefði verið að komast að hagfelldari niðurstöðu eða ekki.
Þegar horft er á heiminn í heild, næstum 200 lönd, virðist lýðræði jafnan haldast í hendur við veraldlega velsæld. Kína er helzta undantekningin sem sannar regluna.
Þrátt fyrir auðlindagnægðina er lýðræði í sókn í Afríku. Fyrir 30 árum voru 37 einræðisríki í Afríku, þrjú lýðræðisríki og fjögur fáræðisríki sem svo eru nefnd þar eð þau eru hvorki lýðræðisríki né einræðisríki heldur eru einhvers staðar þar á milli. Frá 1989 hefur lýðræðisríkjum í Afríku fjölgað úr þrem í 20, einræðisríkjum hefur fækkað úr 37 í þrjú, og fáræðisríkjum hefur fjölgað úr fjórum í 24. Ekki verður því séð að Afríkumenn hafi verið ginnkeyptir fyrir þeim boðskap Kínverja að lýðræði sé aukaatriði ef ekki beinlínis skaðlegt.
Afríka sækir fram
Um framsókn Afríku má hafa margt til marks. Fyrir nokkru gerðu Afríkulöndin með sér viðskiptasamning (African Continental Free Trade Agreement) sem mun gera álfuna miklu að stærsta fríverzlunarsvæði heims með 52 lönd og 1.200 milljónir manns (Nígería með sínar 200 milljónir manns hefur ekki enn undirritað samninginn). Samningurinn gengur lengra en einstakir svæðisbundnir samningar. Honum er ætlað að örva viðskipti innan Afríku með sama hætti og aðrir slíkir samningar annars staðar um heiminn hafa gert, til dæmis samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið. Frjálsari viðskipti innan Afríku munu meðal annars auðvelda samstarf og uppbyggingu í orkumálum sem er ætlað að lækka raforkuverð og tryggja æ fleiri heimilum og fyrirtækjum aðgang að ódýru rafmagni og loftkælingu. Það gleymist stundum að loftkæling skipti sköpum fyrir Bandaríkin fyrir bráðum 100 árum og fyrir mörg önnur lönd um allan heim. Tvennt skipti mestu máli fyrir Singapúr, sagði landsfaðirinn Lee Kuan Yew: Umburðarlyndi gagnvart öðrum kynþáttum og loftkæling. Afríkusambandið ákvað fyrir nokkrum árum að evrópskri fyrirmynd að stefna að upptöku sameiginlegrar myntar sem hefur hlotið nafnið afró – eins og klippingin.
Sex ríkustu löndin í Afríku mælt í kaupmætti landsframleiðslu á mann eru Máritíus, Miðbaugs-Gínea, Botsvana, Gabon, Suður-Afríka og Namibía. Tvö þeirra, Miðbaugs-Gínea og Gabon, eru olíuútflutningslönd. Bæði eru morandi í spillingu, kúgun og einræði. Hin fjögur löndin eru að mörgu leyti til fyrirmyndar. Botsvana gerir út á demanta og er þekkt fyrir minnsta spillingu og mestan hagvöxt í gervallri Afríku. Namibía er ekki langt undan. Þar er ýmislegt eins og það á að vera, spillingin þar er næstminnst í allri Afríku og fer minnkandi. Spillingareinkunnin sem Transparency International gefur Namibíu (og ætti að réttu lagi að kallast einkunn fyrir heiðarleika frekar en spillingu) er nú 5,3 borið saman við 6,1 í Botsvönu. Hvorugt er falleinkunn. Namibía gerir einkum út á góðmálma og kopar til útflutnings og gengur vel. Fiskútflutningur frá Namibíu er innan við 10% af heildarútflutningi. Sjávarútveginum þar er vel stjórnað á heildina litið. Veiðigjöld hafa lengi verið snar þáttur í fiskveiðistjórninni.
Höfuðborgin í Namibíu heitir því góða nafni Vindhögg. Helztu götur borgarinnar heita eftir evrópskum afburðamönnum frá fyrri tíð, þar á meðal eru William Shakespeare, Florence Nightingale og tónskáldin Bach, Beethoven, Brahms, Mozart, Schubert, Strauss og Verdi.
Athugasemdir