Eitt stærsta samfellda svæðið í Evrópu þar sem ekki er föst búseta færðist í dag enn nær því að vera gert að þjóðgarði, þegar umhverfisráðuneytið kynnti áform sín um lagafrumvarp um Hálendisþjóðgarð á miðhálendi Íslands.
Sem stendur eru aðeins þrír þjóðgarðar á Íslandi: Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, þjóðgarðurinn Snæfellsjökull og Vatnajökulsþjóðgarður. Þess utan eru önnur friðlýst svæði alls 111 talsins.
Í fyrirhuguðu lagafrumvarpi er almenningur flokkaður undir helstu hagsmunaaðila. Leitað er eftir mati á áhrifum lagasetningar í samráðsgátt stjórnvalda.
Þverpólitísk nefnd hefur verið að störfum frá vorinu 2018, með fulltrúum allra flokka á Alþingi, tveimur fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga og svo sitt hvorum fulltrúanum frá forsætisráðuneytinu og umverfis- og auðlindaráðuneytinu. Nefndin komst meðal annars að þeirri niðurstöðu að mörk Hálendisþjóðgarðsins miðuðust við þjóðlendur í eigu ríkisins og svo þegar friðlýst landsvæði á miðhálendinu, en næði ekki inn á eignalönd. Þá er meðal annars gert ráð fyrir bílastæðagjöldum við þjóðgarðamiðstöðvar.
Í lýsingu á áformum um frumvarp um Hálendisþjóðgarð er vísað til þess að skýrsla Hagfræðistofnunar Háskólans í desmber síðastliðnum hefði haft þá niðurstöðu að friðlýsing hefði góð efnahagsleg áhrif.
40% af miðhálendinu er nú þegar friðað, einna helst innan Vatnajökulsþjóðgarðs, Þjórsárvera, Guðlaugstungna og Friðlands að Fjallabaki. Fyrirhugað lagafrumvarp beinist að því að friðlýsa þann hluta miðhálendisins sem er þjóðlenda og sem er í eigu íslenska ríkisins. Því var ákveðið að undanskilja þann hluta miðhálendisins sem ekki er í ríkiseigu, nema ef eigendur jarðanna kjósi sjálfir að vera hluti þjóðgarðs.
„Þá skapast tækifæri til að ráðstafa fjármunum í auknum mæli til innviðauppbyggingar á svæðinu sem m.a. er nauðsynleg til að fyrirbyggja að verðmæt svæði verði fyrir skemmdum af völdum ágangs vegna aukinnar aðsóknar ferðamanna. Ef vel er á málum haldið getur stofnun þjóðgarðs haft jákvæð áhrif á byggðaþróun og verið tekjuöflun fyrir atvinnustarfsemi í nærumhverfinu og á landsvísu,“ segir í lýsingu á áformunum um lagafrumvarp.
Áformað er að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, leggi fram lagafrumvarpið á Alþingi næsta vor. Frestur til að skila inn athugasemdum við áformin er til 4. desember næstkomandi, en drög að frumvarpinu verður einnig kynnt í samráðsgátt.
Athugasemdir