Peningaþvættissérfræðingur DNB bankans, Roar Østby, sagði upp störfum í bankanum í haust og er uppsagnarfresti hans að ljúka. Í norskum fjölmiðlum eru starfslokin sett í samband við Samherjamálið. „Roar Østby sagði upp starfi sínu fyrr í àr og hættir því miður í DNB,“ segir upplýsingafulltrúi DNB, Thomas Midteide. í samtali við Dagens Næringsliv. Hann hefur leitt vinnu DNB í gegn peningaþvætti og fjàrmögnun hryðjuverka í mörg ár.
DNB NOR er stærsti bankinn í Noregi og á norska ríkið rúmlega 34 prósenta hlut í fyrirtækinu.
9,1 milljarðs millifærslur
Eins og greint var frá í samvinnuverkefni Stundarinnar Wikileaks, fréttaskýringaþáttarins Kveiks í Ríkissjónvarpinu og katörsku sjónvarpsstöðvarinnar Al Jazeera á þriðjudaginn hætti DNB viðskiptum við félag tengdu Samherja í skattaskjólinu Marshall-eyjum í Kyrrahafinu í maí í fyrra.
DNB gerði þetta vegna þess að bankinn taldi að óvissa væri um raunverulegt eignarhald félagsins og þar af leiðandi væri uppi grunur um að það væri notað til að stunda peningaþvætti. Þegar óvissa er um eignarhald slíkra fyrirtækja geta fjármálafyrirtæki metið það sem svo að hætta sé á að hægt sé að nota fyrirtækin til að stunda peningaþvætti og geta bankar þá ákveðið að loka á viðskipti sín við þau.
Samherji hafði neitað þetta félag, Cape Cod FS, til að greiða laun sjómanna sinna í Afríku allt frá árinu 2010. Samtals millifærðu félög Samherja 9,1 milljarð króna inn á reikninga Cape Cod FS á tímabilinu og sama upphæð var millifærð af reikningum félagsins á tímabilinu. Millifærslurnar út af reikningunum voru aðallega launagreiðslur til Austur-Evrópubúa eða „Rússa“ eins og Samherjamenn kölluðu þá, samkvæmt bankayfirlitum frá hinum ýmsu fyrirtækjum Samherja. Um var að ræða fimm bankareikninga sem DNB NOR lokaði vegna hættu á peningaþvætti.
Samherjamálið hefur vakið mikla athygli í Noregi og er mikið um það fjallað í norskum miðlum.
DNB gagnrýndur fyrir lélegt eftirlit
DNB NOR hefur verið í fréttum síðustu ár, líkt og nokkrir aðrir stórir bankar á Norðurlöndunum, fyrir að hafa ekki staðið sig í stykkinu hvað varðar eftirlit með peningaþvætti. Breskur sérfræðingur í peningaþvætti, Gavin Neilsson, hefur sagt í viðtölum við sænska fjölmiðla að Norðurlöndin séu á milli 5 og 10 árum á eftir Bretlandi og Bandaríkjunum þegar kemur að vörnum gegn peningaþvætti.
Norska fjármálaeftirlitið, Finanstilsynet, hefur meðal annars gagnrýnt bankann fyrir að hafa ekki sinnt eftirliti með viðskiptavinum sínum út frá hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nægilega vel.
Í bréfi til DNB NOR í fyrra sagði norska fjármálaeftirlitið hins vegar að svo virtist sem bankinn væri að taka sig taki að þessu leyti.
„Að Roar hætti hefur ekkert með Samherjamálið að gera.“
Neita tengslum við Samherjamálið
Uppplýsingafulltrúi DNB neitar því hins vegar að starfslokin hafi eitthvað með Samherjamálið að gera. „Að Roar hætti hefur ekkert með Samherjamálið að gera. Hann hefur sagt upp störfum sjálfur eftir að hafa unnið á þessu sviði í mörg ár,“ segir hann.
Ljóst er hins vegar að DNB hafði upplýsingar um Samherjamálið þegar Roar Østby ákvað að hætta í bankanum. Þetta sýna gögn sem fyrir liggja í Samherjaskjölunum, meðal annars gögnin þar sem ákveðið var að loka bankareikningum þessara félaga.
Í frétt Dagens Næringsliv um málið er fundið að því að DNB hafi ekki tilkynnt um starfslok Östbys eða þá staðeynd að nýr yfirmaður hefði tekið við því að leiða vinnu bankans gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með skömmum fyrirvara. Bankinn segir að um 1000 millistjórnendur séu í bankanum og að ekki sé gert opinbert sérstaklega þegar breytingar verða á starfshögum þeirra sem gegna þessum hlutverkum.
„Ikke under Samherji lenger“
Ekki „lengur undir Samherja“
Í gögnunum um starfsemi Samherja í Afríku kemur fram að norski bankinn hafi talið félagið á Marshall-eyjum vera „undir Samherja“ á einhverjum tímapunkti.
Í greiningu DNB NOR á félaginu, sem gerð var áður en bankareikningum þess var lokað, kemur fram að félagið tilheyri Samherja ekki lengur og að í dag séu þrír einstaklingar skráðir eigendur samkvæmt starfsmanni hjá starfsmannaleigunni JPC Shipmanagement á Kýpur sem útvegaði Samherja starfsmenn á verkmiðjutogara félagsins í Afríku, meðal annars Namibíu: „Ekki lengur undir Samherja. 3 einstaklingar eru efstir í eigendakeðjunni.“ (Ikke under Samherji lenger. 3 privatpersoner på topp i eierstrukturen).
Starfsmaður JPC Shipmanagement sendi hins vegar aðeins staðfestingu á eignarhaldi þess félags en ekki félagsins á Marshall-eyjum. Starfsmaðurinn sagði að engin hlutabréf, eða „bearer shares“ á ensku, væru gefin út fyrir félagið í skattaskjólinu en að eignarhald félagsins væri hið sama og á starfsmannaleigunni á Kýpur.
Þetta var ekki nægilega greinargott svar að mati DNB NOR og kemur fram í greiningu bankans að það hafi í raun „enga vitneskju“ um endanlegt eignarhald Cape Cod FS. Ljóst er hins vegar að það var Samherji sem notaði og fjármagnaði þetta félag á Marshall-eyjum, meðal annars með millifærslum frá Kýpur og Namibíu. Því er ekki hægt að segja að JPC hafi verið eigandi Cape Cod FS en það er hægt að fullyrða að það var Samherji sem notaði Cape Cod.
Á þessum forsendum sagði DNB upp viðskiptum við þetta félag og lokaði bankareikningum þess í maí 2018.
Athugasemdir