Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir Samherjamálið sýna að arðurinn af fiskveiðiauðlindunum sé ekki notaður til að lækka skatta á láglaunafólk, greiða fólki mannsæmandi laun eða efla velferðarþjónustu. „Öðru nær, hann er notaður til að fjármagna spillingarbandalög sem teygja sig heimsálfanna á milli.“
Efling hefur samþykkt að styðja við kröfu Stjórnarskrárfélagsins um lögfestingu nýrrar stjórnarskrár og vekur stéttarfélagið athygli á þeim stuðningi í ljósi Samherjamálsins. Sólveig Anna segist mjög stolt af því að stjórn stéttarfélagsins hafi samþykkt þann stuðning.
„Ástæðan fyrir því að stjórnarskráin sem almenningur kom sér saman um í kjölfar hrunsins var kæfð, er að í henni var öflugt ákvæði um þjóðareign á fiskveiðiauðlindinni. Íslensk auðstétt gat ekki þolað það að íslenskur almenningur fengi eðlilega hlutdeild í arðinum af fiskinum okkar. Alveg eins og Þorsteinn Már stjórnar stjórnmálastéttinni í Namibíu með mútum, þá stjórna menn eins og hann því hvaða stjórnarskrá fólkið á Íslandi fær að velja sér,“ segir Sólveig Anna.
Athugasemdir