Þorsteinn Már Baldvinsson, sem vék til hliðar sem forstjóri Samherja í dag, segir að hann hafi vikið vegna þess að honum hafi blöskrað umræðan um fyrirtækið, en ekki vegna þess að hann hafi talið sig eða fyrirtæki hafa brotið gegn lögum. „Mér blöskrar orðið umræðan. Samherji er ekkert sálarlaust fyrirtæki. Það eru 800 starfsmenn á Íslandi og annað eins erlendis. Þessar árásir hér á Íslandi á starfsfólk og fjölskyldur þeirra, mér finnst þetta vera orðið fulllangt gengið. Þess vegna, með því að stíga til hliðar, er ég að vona að sú umræða geti róast eitthvað,“ segir Þorsteinn í viðtali við Stöð 2.
„Mér blöskrar orðið umræðan“
Þorsteinn segir Samherja hafa óskað eftir fundi með skattrannsóknarstjóra og að hann hafi trú á að þau mál þoli skoðun hvar sem er. Samherji hafi þá líka verið ásakað um peningaþvætti. „Ég held að menn viti ekki alveg hvað þeir eru að tala um. Við höfum verið ásakaðir um að flytja milljarða frá Afríku, það er líka rangt. Það eru þarna ákveðnar greiðslur sem að við höfum óskað eftir því að verði farið ofan í og það verði gert,“ segir Þorsteinn Már og skorar á fólk að gæta orða sinna. Spurður hvaða greiðslur hann sé að tala um segir Þorsteinn Már að það séu greiðslur sem hafi verið til umfjöllunar í fjölmiðlum, án þess að skýra það frekar.
Spurður hvað hafi breyst frá því að Samherji gaf út yfirlýsingu, þar sem skuldinni var alfarið skellt á Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmann Samherja og heimildarmann Stundarinnar, Kveiks, Wikileaks og Al Jazeera, og þar til nú að Þorsteinn hafi séð ástæðu til að stíga til hliðar segir Þorsteinn að það séu aðrar hliðar á málinu og þeim verði komið á framfæri þegar fram í sækir. „Það er kannski ekki allt satt og rétt sem hann segir,“ segir Þorsteinn um Jóhannes. Þegar bent er á að samkvæmt gögnum hafi Samherji haldið áfram að greiða mútur eftir að Jóhannes hætti störfum og hvernig hægt sé að skella allri skuldinni á hann í því ljósi segir Þorsteinn Már: „Við skelltum ekkert allri skuld á Jóhannes. Við vorum bara að segja það að við vékum honum úr starfi vegna þess að það voru gerðir hlutir sem að við vorum ekki sammála.“
„Þetta mun koma í ljós“
Spurður hvort hann neiti því að Samherji hafi borið fé á menn í Namibíu neitar Þorsteinn því ekki heldur svarar: „Ég segi bara, þetta mun koma í ljós.“
„Sko, Kristján Þór er ekki minn maður í ríkisstjórn“
Þorsteinn var jafnframt spurður um fund Kristjáns Þórs Júlíussonar með honum og namibískum aðilum sem voru staddir hér á landi og funduðu með fulltrúum Samherja. Var Þorsteinn spurður hvort hann hefði sagt að Kristján Þór væri sinn maður í ríkisstjórn Íslands. „Sko, Kristján Þór er ekki minn maður í ríkisstjórn. Mér finnst þessi umræða, ég veit ekki hvað orð ég á að hafa um hana. Kristján Þór getur ekki gert að því að við höfum kynnst fyrir langa löngu.“ Spurður frekar hvort hann hafi verið að nota vinskap þeirra Kristjáns Þórs til að sýna Namibíumönnum pólitísk tengsl sín svaraði Þorsteinn: „Ef þú átt einhverja vini þá misnotar þú þá ekki.“
Athugasemdir