Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur vikið úr stóli forstjóra fyrirtækisins. Er það í tilkynningu frá fyrirtækinu sagt hafi orðið að samkomulagi milli hans og stjórnar Samherja að Þorsteinn viki tímabundið þar til helstu niðurstöður innri rannsóknar fyrirtækisins á „ætluðum brotum dótturfélags í Namibíu liggja fyrir.“
Í tilkynningunni segir ennfremur að rannsóknin, sem sé í höndum norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein, muni heyra beint undir stjórn félagsins. Þá er tiltekið Samherji muni ekki tjá sig frekar um málið fyrr en „staðreyndir úr ofangreindri rannsókn taka á sig skýrari mynd.“
Samherji hefur stundað stórfelldar mútugreiðslur til stjórnmála- og embættismanna í Afríkuríkinu Namibíu til þess að ná undir sig fiskveiðikvóta. Samherji, sem er umsvifamesta útgerðarfélag Íslands með um 111 milljarða króna eigið fé, hefur greitt á annan milljarð króna í mútur á síðustu árum, að því er lesa má í umfjöllun Stundarinnar sem unnin var í samstarfi við Kveik, Wikileaks og Al Jazeera.
Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri verkefna Samherja í Namibíu, hefur lýst því að Þorsteinn Már hafi haft veg og vanda að því hvernig staðið var að mútugreiðslum í Namibíu. „„Ég greiddi engar mútur án þess að fá grænt ljós frá Þorsteini. Ég bara fékk upplýsingarnar og ég hafði samband við Þorstein og sagði: Þeir hafa óskað eftir að fá þetta til hliðar sem mútur og fæ ég grænt hjá þér? Og það var þá bara gefið grænt.“
Athugasemdir