Yfirheyrslum er lokið yfir þremur skipverjum af grænlenska togaranum Polar Nanoq en samkvæmt Grími Grímssyni, yfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hefur ekki verið tekin ákvörðun um það hvort óskað verði eftir gæsluvarðhaldi.
Þá ákvörðun þarf lögreglan að taka fyrir hádegi í dag, að minnsta kosti hvað varðar tvo þeirra handteknu. Þeir voru handteknir rétt eftir hádegi í gær. Þriðji maðurinn var handtekinn síðar í gærdag og því getur lögreglan haft hann í haldi lengur en hina tvo. Lögreglan getur haldið þeim í tuttugu og fjóra klukkutíma án þess að óska eftir gæsluvarðhaldi. Að þeim tíma liðnum þarf annað hvort að óska eftir gæsluvarðhaldi eða sleppa þeim úr haldi.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar er líklegt að lögreglan óski eftir gæsluvarðhaldi en þó liggi ekki fyrir hvort það eigi við um alla þrjá. Tveir af þeim handteknu eru frá Grænlandi en ekki er vitað um þjóðerni þess þriðja en um borð voru skipverjar frá bæði Færeyjum og Grænlandi. Lögreglan getur ekki greint frá því sem kom fram við yfirheyrslur yfir mönnunum en segir rannsókn málsins miða vel. Rannsóknin á hvarfi Birnu Brjánsdóttur sé nú rannsakað sem sakamál.
Þá hefur tæknideild lögreglunnar lokið störfum í togaranum Polar Nanoq sem lagði að höfn í Hafnarfirði í gær rétt eftir klukkan ellefu. Gríðarlegur viðbúnaður lögreglu var við höfnina í gærkvöldi en hún hafði óskað eftir því að almenningur myndi halda sig frá. Ekki virðast þau skilaboð hafa skilað sér til allra því tugir einkabíla voru á svæðinu. Stór hluti þeirra elti síðan lögreglubifreiðar niður á Hverfisgötu sem fluttu þá sem handteknir voru til yfirheyrslu.
Björgunarsveitir munu halda áfram að leita í birtingu í kring um vegarslóða á Strandarheiði. Þá hefur lögreglunni borist fjöldi ábendinga að undanförnu og er nú unnið úr þeim.
Allir þeir sem telja sig hafa upplýsingar um hvarf Birnu Brjánsdóttur eru beðnir um að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000.
Athugasemdir