Tveir af sjö þingmönnum Viðreisnar hafa svarað fyrirspurn Stundarinnar þar sem óskað er eftir afstöðu þeirra til ákvörðunar Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra og fyrrum fjármálaráðherra, um að fresta birtingu skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum fram yfir þingkosningar.
Pawel Bartoszek telur að meðhöndlun Bjarna á skýrslunni sé „ámælisverð“ og að það sé ekki í lagi að ráðherrann hafi ekki greint rétt frá í viðtali um málið. Þrátt fyrir þetta sé Bjarna treystandi til að vera í forsvari fyrir nýja ríkisstjórn. Jón Steindór Valdimarsson vill að fólk og ráðherrar segi satt og bendir á að Viðreisn hafi það að markmiði að ástunda góða stjórnsýsluhætti og vönduð vinnubrögð.
Eins og Stundin greindi frá í vikunni fjallar skýrsla starfshóps um aflandseignir Íslendinga með gagnrýnum hætti um þá stefnu sem rekin var á sviði skattalöggjafar og skattaeftirlits á útrásarárunum þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór með fjármálaráðuneytið.
Bjarni Benediktsson, þá fjármála- og efnahagsráðherra, fullyrti ranglega í viðtali við RÚV síðustu helgi að skýrslunni hefði ekki verið skilað í ráðuneyti sitt fyrr en eftir þingslit í október, en hið rétta er að skýrslan barst ráðuneytinu þann 13. september. Hann hefur nú viðurkennt að hafa ákveðið að birta hvorki almenningi né Alþingi skýrsluna, enda hafi hann ekki viljað að efni hennar yrði „sett í kosningasamhengi“.
Stundin sendi öllum þingmönnum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar fyrirspurn á mánudaginn og óskaði eftir afstöðu þeirra til málsins, þ.e. hvort ákvörðun, vinnubrögð og skýringar Bjarna standist kröfur þeirra um gott stjórnmálasiðferði og vandaða stjórnsýsluhætti. Þá óskaði Stundin eftir afstöðu þingmannanna til aðkomu Bjarna að ákvörðunum um kaup skattrannsóknarstjóra á gögnum sem höfðu meðal annars að geyma aflandsfélag sem Bjarni átti sjálfur hlut í.
Aðeins fjórir þingmenn hafa svarað fyrirspurn Stundarinnar, þar af Pawel Bartoszek og Jón Steindór Valdimarsson, þingmenn Viðreisnar. Báðir telja að ný ríkisstjórn muni, þrátt fyrir vinnubrögð Bjarna Benediktssonar sem nú verður forsætisráðherra, geta aukið traust og tiltrú almennings á íslenskum stjórnmálum.
Spurningar Stundarinnar:
1. Telurðu að það samrýmist góðum stjórnsýsluháttum og stjórnmálasiðferði að ráðherra eigi beina aðkomu að ákvörðunum um kaup skattrannsóknarstjóra á gögnum sem hafa að geyma upplýsingar um hans eigin aflandsfélag?
2. Finnst þér réttlætanlegt að ráðherra, sem sjálfur hefur geymt peninga í aflandsfélagi, ákveði að fresta birtingu á skýrslu um umfang aflandseigna Íslendinga fram yfir þingkosningar sem var efnt sérstaklega til vegna afhjúpana á aflandsstarfsemi?
3. Finnst þér í lagi að ráðherra segi almenningi ósatt um málið?
4. Sé svarið við einhverri af þessum spurningum nei, hvers vegna finnst þér þá réttlætanlegt að þinn flokkur taki þátt í að gera viðkomandi stjórnmálamann að forsætisráðherra?
5. Hvers vegna telurðu að ríkisstjórn undir forsæti þessa stjórnmálamanns geti, í samræmi við markmið þíns eigin flokks, aukið traust og tiltrú almennings á íslenskum stjórnmálum og unnið að almannahagsmunum í stað sérhagsmuna?
Pawel Bartoszek svaraði:
Sæll og takk fyrir fyrirspurnina,
Svo ég setji mig ekki á hærri siðferðisstall en ég á skilið þá sagði ég mig ekki úr Sjálfstæðisflokknum vegna Pananalekans, heldur vegna hugmyndafræðilegs ágreinings um nokkur lykilmál. Né hef ég viljað útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Að því má, réttilega, draga þá ályktun að mér finnst aðkoma Bjarna Benediktssonar að þeim málum ekki með þeim hætti að ég vilji útiloka samstarf við hann.
Athugasemdir