Íslenska kortafyrirtækið Valitor viðurkennir í tölvupósti til Stundarinnar að hafa átt í viðskiptum við breska fjármálafyrirtækið eMerchantPay og eiganda þess, Jónas Reynisson. Þessar upplýsingar fengust í kjölfar ítarlegrar umfjöllunar Stundarinnar um íslensku færsluhirðingarfyrirtækin Valitor og Borgun. Þær staðfesta það sem Stundin hefur áður greint frá; að bæði fyrirtækin högnuðust gríðarlega á skömmum tíma með vafasömum viðskiptum við Jónas Reynisson, fyrrverandi sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Hafnarfjarðar, sem sagði starfi sínu lausu þar árið 2001 og flutti lögheimili sitt til Búlgaríu.
„Þessi gríðarlegi vöxtur tengdist meðal annars vafasömum viðskiptum við erlenda aðila, viðskiptum sem Jónas Reynisson kom nálægt.“
Slóð Jónasar Reynissonar nær út um allan heim, meðal annars alla leið frá Íslandi og til aflandsfélaga en eitt þeirra var skráð á Bresku Jómfrúareyjunum. Það félag dúkkaði upp í hinum svokölluðu „Panama-skjölum“. Í þeim skjölum sem Stundin hefur undir höndum eru tengsl aflandsfélagsins við Sparisjóð Hafnarfjarðar auk þess sem hægt var að finna ýmsar upphæðir sem hlaupa á hundruðum þúsunda Bandaríkjadollara. Jónas og eiginkona hans, hæstaréttarlögmaðurinn Hanna Lára Helgadóttir, voru skráð fyrir félaginu.
Athugasemdir