Framlög til framhaldsskóla munu dragast saman á næstu árum ef fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gengur eftir. Gert er ráð fyrir óbreyttum framlögum að raungildi árið 2018, en eftir það munu þau lækka árlega um 0,6 prósent sem svarar til 630 milljóna útgjaldalækkunar á árunum 2018 til 2022.
Í greinargerð áætlunarinnar er tilgreint að „umtalsverður sparnaður“ komi fram í framhaldskólakerfinu vegna styttingar námstíma til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú. „Sá sparnaður endurspeglast í lægri framlögum til málefnasviðsins. Þrátt fyrir lækkun á framlögum til framhaldsskólastigsins aukast útgjöld á hvern nemanda um sem nemur 3–5% á ári að raunvirði,“ segir í áætluninni.
Gert er ráð fyrir því að framhaldsskólanemendum haldi áfram að fækka. Svo virðist sem 25 ára reglan svokallaða verði áfram í gildi, en hins vegar er stefnt að því að grípa til aðgerða til að auðvelda einstaklingum sem ekki hafa lokið formlegu námi eftir grunnskóla að afla sér viðurkenndrar menntunar.
Athugasemdir