Forsvarsmenn verksmiðjunnar United Silicon hafna því að óheimil losun verksmiðjunnar, sem gerð var án vitundar Umhverfisstofnunar, hafi falið í sér losun „hættulegra“ efna.
Verksmiðjan er í „gjörgæslu“ Umhverfisstofnunar vegna ítrekaðra brota á starfsleyfi og hefur Vinnueftirlitið gert 17 athugasemdir við aðbúnað starfsfólks og gefið United Silicon frest til að koma öryggis- og vinnuverndarmálum sínum í lag. Umhverfisstofnun hefur skráð 12 frávik frá starfsleyfi verksmiðjunnar og kvartar undan misvísandi og röngum upplýsingum frá forsvarsmönnum hennar.
Stundin birti í gærkvöldi myndband af óheimilli losun verksmiðjunnar. Að mati starfsmanna sem Stundin ræddi við var um skaðleg efni að ræða, en forsvarsmenn verksmiðjunnar gera lítið úr áhrifum þess í yfirlýsingu sinni.
Í yfirlýsingu frá verksmiðjunni kemur fram að unnið sé að úrbótum á þeim brotum sem myndböndin sýna.
Yfirlýsing United Silicon
„United Silicon telur óhjákvæmilegt að gera athugasemdir við umfjöllun á vefnum Stundin.is í morgun. Þar er birt myndband frá því um miðjan desember sl. sem sagt er að sýni losun á eiturefnum. Hið rétta er að myndbandið sýnir atvik þegar verið var að losa stíflu í reykhreinsivirki sem leiddi til að kísilryk barst út um opna lúgu. Vegna þess hversu mikið ryk barst út í andrúmsloftið var þessi vinna stöðvuð eftir skamma stund og öðrum aðferðum beitt sem ekki leiddu til ryklosunar. Það ryk sem sést á myndbandinu er ekki eitrað eða hættulegt heldur verðmæt afurð og mikilvæg söluvara United Silicon sem safnað er í reykhreinsivirki, pakkað í sekki og selt meðal annars til sementsvinnslu erlendis.
Myndband sem tekið er um kl 14:30 í gær sýnir einnig kísilryk sem þyrlaðist upp þegar verið var að losa sambærilega stíflu, en án þess að nota blásara. Unnið er að úrbótum til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur.
Fullyrðingar Stundarinnar um að undanfarið hafi „hættuleg eiturefni“ verið losuð út í andrúmsloftið úr reykhreinsivirki verksmiðjunnar í skjóli nætur eru tilhæfulausar með öllu og ekki ljóst hvaða tilgangi það þjónar að halda slíkum ósannindum fram.
Rétt er að benda á að United Silicon er með 3 mengunarmælistöðvar, staðsettar samkvæmt ábendingum Umhverfisstofnunar og eru mælingar þeirra allar birtar á vefsíðunni andvari.is. Þessar mælingar sýna skýrt, að frá upphafi framleiðslu í nóvember, hefur mengun aldrei farið upp fyrir lögsett viðmiðunarmörk.“
Athugasemd ritstjórnar: United Silicon brást þeirri skyldu sinni að tilkynna brot sitt á starfsleyfi og er ekki unnt að staðfesta innihald þeirrar mengunar sem dreifðist við brotið. Á meðfylgjandi myndböndum má sjá aðbúnað starfsfólks og svo brot United Silicon á starfsleyfi. Brot félagsins eru ítrekuð og hafa orsakað að verksmiðjan hefur verið ávítt af eftirlitsstofnunum Aðeins er um að ræða upphafið að rekstri verksmiðjunnar, enn á eftir að ræsa þrjá af fjórum ofnum hennar. Stundin mun halda áfram að fjalla um brot United Silicon á næstu dögum og viðbrögð eftirlitsstofnana við þeim.
Athugasemdir