Abd Errachia Buzu, 25 ára hælisleitandi frá Níger, var sóttur af lögregluþjónum og sendur úr landi í gærkvöldi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Að eigin sögn bíður hans ekkert nema líf á götunni á Ítalíu, en þar hefur honum þegar verið neitað um hæli. Abd hefur dvalist á Íslandi í rúmlega ár, en ferðast um heiminn síðan hann var 15 ára gamall.
Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir og Júlíus Óskar Ólafsson eru nýútskrifuð úr Laugalækjarskóla. Í lokaverkefni sínu við skólann fjölluðu þau um hælisleitendur og kjör þeirra á Íslandi. Á meðal viðmælenda þeirra var Abd. Hér að neðan má sjá viðtal Ragnheiðar við hann:
Í viðtalinu kemur fram að Abd hélt ungur að aldri frá Níger til Ghana og Líbíu. Þaðan fór hann yfir Miðjarðarhafið til Ítalíu þar sem hann dvaldist í átta ár við slæm kjör.
Hann dvaldi um skeið í Þýskalandi, en þaðan lá leiðin til Kanada þar sem hann vonaði að sín biði betra líf. Þegar hann átti viðkomu á Íslandi var hann gripinn með fölsuð skilríki á Keflavíkurflugvelli. Í kjölfarið sótti hann um hæli hér.
Abd hefur búið í litlu herbergi ofarlega á Laugavegi síðan í júlí í fyrra. Þar hefur hann beðið fregna af hælisumsókn sinni. Fyrir um fimm mánuðum var honum tilkynnt að hann yrði fluttur aftur til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Úr þessu varð ekki fyrr en í gærkvöldi.
Blaðamaður Stundarinnar hitti Abd um helgina, en þá kvaðst hann ánægður með að óvissan yrði brátt á enda. Nú vissi hann að minnsta kosti hvað biði sín; líf betlarans á götunni á Ítalíu.
Tekið skal fram að nemandinn sem tók viðtalið við Abd, Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir, tengist Stundinni með þeim hætti að hún er systir blaðamanns.
Athugasemdir