Íslenska þjóðfylkingin hélt í síðustu viku landsfund sinn á Café Catalina í Kópavogi. Var fréttaflutningur af fundinum fremur lítill, en þó var þar einn blaðamaður, Þórarinn Þórarinsson. Segist Þórarinn, sem fór á fundinn í dulargervi, með Donald Trump-húfu og í Útvarp Sögu-bol, telja að þarna sé um íslenskan fasistaflokk að ræða. Á fundinum hafi þau reynt að skilgreina sig sem stjórnmálaafl og að augljóst hafi verið að fundargestir hafi verið hræddir við fasista- og rasistastimpilinn sem vofir yfir þeim. „Þau óttast að vera skilgreind sem hægri öfgaflokkur, sem er ekkert út í bláinn, en það eru einhverjar meiningar um að reyna að fjarlægja sig frá því.“
Sagði hann einnig að fundargestir hefðu mikið talað um að á Íslandi ríkti ekki lýðræði heldur „RÚV-ræði,“ sem væri ástand sem flokkurinn hygðist berjast gegn. Að moka þyrfti öllu hústökufólkinu í Efstaleitinu út, sem handvelur ESB-sinna og vinstrimenn í öll viðtöl. Sökuðu fundargestir vinstrimenn um að misnota fréttastofu RÚV í fréttaskýringum og kröfðust þeir þess að stjórnvöld sæju til þess að hlutleysi fréttastofu yrði framfylgt.
Athugasemdir