Rétt í þessu, kl.15:18, var bifreiðinni KY-990 stolið frá Rjúpnasölum 3. Tveggja ára gamalt barn er í bifreiðinni og því mikilvægt að bifreiðin finnist eins hratt og mögulegt er.
KY-990 er 2005 árgerð af Toyota Previa, gul að lit. Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem hvetur hvern þann sem verður bifreiðarinnar var að hringja strax í 112.
Uppfært kl. 15:48
Samkvæmt Facebook-síðu lögreglu er bifreiðin sem lýst var eftir fundin og barnið komið í leitirnar.
Uppfært kl. 15:56
Föður og móður barnsins sem rænt var í Kópavogi rétt í þessu er stórkostlega létt eftir að sonur þeirra kom í leitirnar. Þau vilja ekki tjá sig sérstaklega um málið að svo stöddu, en segja að maðurinn sem rændi bílnum hljóti að hafa séð af sér þegar það rann upp fyrir honum að það var barn í bílnum. „Þetta var einhver ógæfumaður,“ segir faðirinn í samtali við Stundina. Samkvæmt heimildum Stundarinnar var maðurinn ölvaður.
Uppfært kl. 16:29
Lögregla hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu: „Karl á þrítugsaldri hefur verið handtekinn eftir að bíl var stolið við leikskóla í Salahverfinu í Kópavogi á fjórða tímanum í dag. Tveggja ára barn var í bílnum þegar honum var stolið, en bíllinn fannst um 25 mínútum síðar í Kórahverfinu. Talið er að barnið hafi verið sofandi meðan á þessu stóð. Lögreglan hóf víðtæk leit að bílnum um leið og tilkynningin barst, en þyrla Landhelgisgæslunnar var einnig kölluð til aðstoðar. Bíllinn hafði verið skilinn eftir í gangi þegar honum var stolið. Maðurinn sem nú er í haldi vegna málsins hefur áður komið við sögu hjá lögreglu, m.a. vegna nytjastuldar.“
Athugasemdir