Flugfélagið Icelandair, sem að stóru leyti er í eigu íslenskra lífeyrissjóða, rekur eigið vátryggingafélag á aflandseyjunni Guernsey á Ermarsundi. Í gegnum þetta félag, Icecap Insurance Pcc Ltd, tryggir Icelandair sig fyrir skaða í starfsemi sinni, meðal annars í gegnum önnur stærri tryggingafélög í öðrum löndum. Icelandair er íslenskt fyrirtæki með fjölþætta starfsemi erlendis en sem skráð er á hlutabréfamarkað á Íslandi. Fyrirtækið er það stærsta á Íslandi í dag og skilaði 8.7 milljarða króna hagnaði í fyrra. Það er stærsta fyrirtæki landsins, samkvæmt úttekt Frjálsrar verslunar, en það velti 125 milljörðum króna árið 2013.
Icelandair hefur rekið tryggingafélagið á Guernsey síðan árið 2004 en á árunum þar á undan, frá árinu 1996, tryggði flugfélagið sig fyrir skaða, í gegnum félag á Guernsey sem heitir Harlequin. Upplýsingafulltrúi Icelandair, Guðjón Arngrímsson, segir slíkt fyrirkomulag á tryggingamálum meðalstórra og stórra flugfélaga vera alþekkt í Evrópu. „Flest meðalstór og stór flugfélög í Evrópu reka svokölluð bundin frumtryggingarfélög (e. captive insurance company) í Guernsey eða sambærilegum löndum. Ástæðan er sú að með þessu móti er hægt að lækka iðgjöld án þess að auka áhættu sem skilar sér í lægri fargjöldum til farþega. Iðgjöld eru lægri vegna þess að lagaumhverfi bundinna tryggingafélaga er mjög íþyngjandi í EES sem leiðir af sér meiri kostnað. Þess vegna kjósa nær öll fyrirtæki að stofna slík félög utan EES.“
Athugasemdir