Guðmundur Kristjánsson, útgerðarmaður kenndur við Brim, er sá einstaklingur sem ræður óbeint yfir mestum kvóta innan kvótakerfisins á Íslandi þegar eignarhald og aflaheimildir stærstu útgerðanna eru greindar niður. Sá kvóti sem Guðmundur hefur yfir að ráða persónulega í gegnum Brim og eignarhald sitt í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum nemur rétt rúmlega 4,5 prósentum af heildarkvótanum á Íslandi. Verðmæti þessa kvóta Guðmundar, út frá varlega áætluðu söluverðmæti á aflaheimildum út frá þorskígildistonnum, er rúmlega 35 milljarðar króna.
Stundin hefur tekið út umráðaréttinn yfir aflaheimildunum sem Fiskistofa úthlutar og sundurgreint hvaða einstaklingar það eru sem fara með þessar aflaheimildir. Ein af niðurstöðunum er sú að þeir fimm einstaklingar, sem ráða yfir mestum kvóta á Íslandi í gegnum eina eða fleiri af tíu stærstu útgerðunum miðað við kvóta, ráði óbeint, í gegnum eignarhaldsfélög og útgerðir, yfir meira en 15 prósent af úthlutaðri heimild til að nýta stærstu auðlind Íslendinga.
Tíu stærstu útgerðarfyrirtæki landsins hafa ráðstöfunarrétt yfir meirihlutanum af fiskveiðiauðlindinni, eða rúmlega 54 prósentum fiskveiðikvótans, en þessi hlutdeild þeirra hefur aukist um rúmlega 2,5 prósentustig frá því í árslok 2007. Sé litið enn lengra aftur, til ársins 2004, þá hefur hlutdeild tíu stærstu útgerðanna aukist um rúmlega tíu prósentustig á tíu árum. Sú samþjöppun sem orðið hefur í aflaheimildum á Íslandi síðastliðin tíu ár blasir því við.
Úthluta makrílkvóta fyrir 70 milljarða
Við þetta bætist svo makríllinn verðmæti, sem er ekki inni í þessari heildartölu yfir úthlutaðan kvóta, þar sem hann er ekki orðinn hluti af kvótakerfinu. Makríllinn var næst verðmætasta sjávarafurðin sem Ísland flutti út í fyrra þegar útflutningsverðmæti hans nam rúmlega 22,4 milljörðum króna.
Til stendur að úthluta 135 þúsund tonna makrílkvóta af 150 þúsund tonna heildarkvóta til nokkurra stórra útgerða út frá veiðireynslu þeirra á tegundinni á árunum 2011 til 2014 en Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra leggur makrílfrumvarpið fram. Þessar tölur komu fram í úttekt Fiskifrétta um afleiðingar makrílfrumvarpsins í síðasta mánuði. Þegar heildarsöluverðmæti þessara 90 prósenta af makrílkvótanum er reiknað út, miðað við þær forsendur sem gefnar eru í þessari grein, kemur fram að það er rúmir 70 milljarðar króna. Ef frumvarpið verður að veruleika geta þessar útgerðir selt og eða veðsett makrílkvótann líkt og gildir um annan kvóta.
Í makrílveiðunum hefur samþjöppunin verið enn meiri en nefnt er í tilviki annarra aflaheimilda hér að ofan því fimm stærstu útgerðirnar hafa umráðarétt yfir samtals 57 prósentum af þeim 135 þúsund tonnum sem um ræðir.
HB Grandi fær úthlutað mest allra útgerðarfélaga af þessum aflaheimildum í makríl ef frumvarpið verður samþykkt á Alþingi. Útgerðin fær nærri 20 þúsund tonn af makríl og er áætlað söluverðmæti þess fisks rúmlega 13,5 milljarðar króna.
Sá einstaki útgerðarmaður sem er langefstur á listanum yfir óbeinan umráðarétt yfir aflaheimildum í makríl er Guðbjörg Matthíasdóttir, eigandi Ísfélagsins í Vestmannaeyjum. Makrílkvótinn sem hún mun hafa óbeinan umráðarétt yfir í gegnum Ísfélagið er rúmlega 10 milljarða króna virði. Áætlað heildarsöluverðmæti kvótans sem Guðbjörg, og níu aðrir óbeinir eigendur íslenskra stórútgerða, fá úthlutað á grundvelli veiðireynslu ef makrílfrumvarpið verður að lögum nemur rúmum 35 milljörðum króna.
Athugasemdir