Makrílfrumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegsráðherra hefur meðal annars verið gagnrýnt fyrir það hversu lítið hlutfall makrílsins komi í hlut strandveiðibáta, eða einungis fimm prósent, nái frumvarpið fram að ganga. Hins vegar muni 82 prósent makrílkvótans koma í hlut tíu stórútgerðarmanna. Bent hefur verið á að í Noregi sem dæmi sé allt að tuttugu prósent makrílkvótans eyrnamerkt strandveiðiflotanum, bæði til þess að tryggja atvinnu í dreifðum byggðum landsins og til þess að auka verðmæti aflans. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir að Íslendingar hefðu átt að líta til Norðmanna við mótun frumvarpsins og þá gagnrýnir hann harðlega að ekki hafi verið haft samráð við félagið í ferlinu.
Verðmætari afli og augljós byggðasjónarmið
„Norðmenn hefja til dæmis ekki veiðarnar fyrr en makríllinn hefur náð ákveðinni stærð og fituprósentu, svo þeir veiða nánast eingöngu verðmætasta makrílinn,“ segir Örn. Hann bendir á að makríll veiddur á króka sé mun verðmætari og vandaðri afurð en sú sem veidd er á önnur veiðarfæri. Fiskurinn sé snöggkældur og komi til vinnslu samdægurs. Þá séu veiðarnar að auki mun vistvænni.
Athugasemdir