Þau fimm útgerðarfyrirtæki sem áttu að fá helming alls makrílkvóta úthlutaðan til sex ára samkvæmt makrílfrumvarpi ríkisstjórnarinnar styrktu Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn um samtals 3,4 milljónir króna sama ár og frumvarpið var lagt fram. Þetta sýna ársreikningar stjórnarflokkanna.
Áætlað söluverðmæti makrílkvótans sem flokkarnir vildu úthluta fyrirtækjunum nema um 53 milljörðum króna, en um er að ræða fyrirtækin HB Granda, Samherja, Ísfélag Vestmannaeyja, Vinnslustöðina og Síldarvinnsluna. Á yfirstandandi kjörtímabili, þ.e. árin 2013, 2014 og 2015, hafa þessi fimm fyrirtæki styrkt núverandi stjórnarflokka um samtals 10,1 milljón króna.
Uppi varð fótur og fit þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og núverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, lagði fram frumvarp þann 1. apríl 2015 um að aflaheimildum í makríl yrði úthlutað til sex ára á grundvelli veiðireynslu. Um leið var lagt til að ekki yrði hægt að breyta úthlutuninni nema með sex ára fyrirvara og að hendur næstu ríkisstjórna yrðu þannig bundnar.
Stundin greindi frá því í forsíðuúttekt að ef frumvarpið yrði að lögum fengju í raun tíu einstaklingar úthlutaðan makrílkvóta að verðmæti um 35 milljarða króna. Þá var áætlað söluverðmæti makrílkvóta sem átti að renna í skaut tíu stórra útgerðarfyrirtækja rúmlega 70 milljarðar, eða 90 prósent af söluverðmæti alls makrílkvótans sem til stóð að afhenda án endurgjalds.
Frumvarpið féll í grýttan jarðveg og 51 þúsund manns skrifuðu undir áskorun til forseta Íslands um að vísa því í þjóðaratkvæðagreiðslu ef það yrði samþykkt. Á endanum dagaði frumvarpið uppi í atvinnuveganefnd.
Athugasemdir