Þrjú íslensk börn á aldrinum 8, 12 og 16 ára voru skilin eftir á Kastrup flugvelli í Kaupmannahöfn í gær en starfsfólk WOW air leyfði þeim ekki að innrita sig í flug sem var á leið til Íslands. Ástæðan var sú að ekki hafði verið keypt fylgdarþjónusta með yngsta barninu. Ekki var haft samband við foreldra barnanna vegna málsins og voru þau því skilin eftir fylgdarlaus á flugvellinum. „Það er ekkert neyðarnúmer sem WOW air býður upp á og við náðum ekki í neinn,“ segir Hrund Óskarsdóttir, stjúpmóðir barnanna, í samtali við Stundina. „Við erum í algjöru sjokki yfir þessu.“
„Við erum í algjöru sjokki yfir þessu.“
Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, segir flugfélagið þurfa að fara eftir Evrópureglugerðum sem segja að börn megi ekki ferðast án fylgdarmanns. „Þau hefðu þurft að vera búin að kynna sér reglurnar áður en þau bóka á netinu,“ segir Svanhvít. „Þetta eru öryggisreglur sem við erum með og það er alls ekki hægt að breyta út frá þeim. Ef börn, eða aðrir farþegar, mæta í innritun með ófullnægjandi upplýsingar, í þessu tilfelli án fylgdar, þá höfum við heimild til að neita þeim um innritun. Það er það sem átti sér stað í gær.“ Hún segir ýmsar ástæður fyrir því að ekki sé hægt að víkja frá þessum reglum, til dæmis gæti verið um forræðisdeilu eða mansal að ræða.
Athugasemdir