Karl Wernersson, fjárfestir og fyrrverandi aðaleigandi Milestone, var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti Íslands í gær auk þess sem tveir aðrir dómar féllu honum í óhag í réttinum, meðal annars fyrir að færa fé úr eignarhaldsfélaginu Milestone í eigin vasa þegar félagið var nánast komið í þrot.
„Brot þessi voru skipulögð og drýgð í samverknaði af óskammfeilni“
Fyrsta málið, sem dómur féll í, er mál ákæruvaldsins gegn honum og nokkrum öðrum aðilum, meðal annars Steingrími bróður hans og Guðmundi Ólasyni, sem var forstjóri Milestone. Það snýst um fjármögnun Milestone á hlutabréfakaupum af Ingunni Wernsdóttur, systur Karls, árið 2005.
Í viðskiptunum tóku forsvarsmenn Milestone ákvörðun um að láta fyrirtækið kaupa hlutabréf Ingunnar, systur Karls og Steingríms, í Milestone. Vegna þess voru þremenningarnir meðal annarrs ákærðir fyrir umboðssvik. Inntakið í málinu er að óheimilt og ólöglegt hafi verið fyrir forsvarsmenn Milestone að láta félagið fjármagna hlutabréf fyrir Karl og Steingrím persónulega.
Í dómi Hæstaéttar er fallist á þann skilning ákæruvaldsins að viðskiptin hafi verið umboðssvik eins og þar segir: „Við ákvörðun refsingar ákærðu Karls, Steingríms og Guðmundar er til þess að líta að brot þeirra samkvæmt I. kafla ákæru snerust um mjög háar fjárhæðir, sem lánardrottnar Milestone ehf. fóru þegar upp var staðið á mis við að fá notið til greiðslu krafna sinna. Brot þessi voru skipulögð og drýgð í samverknaði af óskammfeilni,“ segir í dómi Hæstaréttar Íslands.
55 milljóna króna greiðslu til Karls rift
Tveir síðarnefndu dómarnir snérust um málaferli þrotabús Milestone gegn Karli og þarf hann samkvæmt þeim að endurgreiða þrotabúinu nærri 90 milljónir króna vegna greiðslna til hans frá fyrirtækinu sem Hæstiréttur telur hafa verið „ótilhlýðilegar“ eins og segir í niðurstöðu Hæstaréttar í seinni málunum tveimur.
Athugasemdir