Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vill að kosið verði um afmarkaðar breytingar á stjórnarskrá Íslands samhliða forsetakosningum á næsta ári, en Stjórnarskrárfélagið bendir á að þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá hafi þegar farið fram 20. október 2012, þegar meirihluti kjósenda samþykkti að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi um nýja stjórnarskrá.
Bjarni leggur til að kosið verði um að bæta við stjórnarskrána ákvæðum sem varða umhverfis- og auðlindamál, þjóðaratkvæðagreiðslum og takmarkað framsal veiðiheimilda.
Kosið um það sama áður
Í ályktun Stjórnarskrárfélagsins, félags áhugafólks um nýja stjórnarskrá, er bent á að öll þau atriði sé að finna í þeim drögum að stjórnarskrá sem þegar hafi verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Þar sem umrætt frumvarp fól í sér nýja stjórnarskrá, en ekki viðbætur við þá gömlu, er ljóst að hugmyndir Bjarna Benediktssonar um framvindu þessa máls eru í andstöðu við vilja meirihluta kjósenda. Ef það er hins vegar einbeittur vilji þingsins að einskorða sig við þessi tilteknu ákvæði, þá er þau öll að finna í þeirri stjórnarskrá sem þjóðin lýsti yfirgnæfandi stuðningi við í umræddri þjóðaratkvæðagreiðslu.“
64 prósent landsmanna samþykktu nýja stjórnarskrá í kosningunum 2012, en 32 prósent greiddu atkvæði á móti. Auk þess var samþykkt að náttúruauðlindir, sem ekki eru í einkaeigu, yrðu lýstar þjóðareign, að ákvæði yrði um þjóðkirkju á Íslandi, að persónukjör yrði heimilað í meira mæli en nú er, að atkvæði kjósenda alls staðar af landinu myndi vega jafnt í kosningum og að ákvæði yrði í stjórnarskrá um að tiltekið hlutfall kjósenda gæti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu.
Athugasemdir