Svo virðist sem Íslenska Þjóðfylkingin, nýstofnaður stjórnmálaflokkur fólks sem er mótfallið fjölmenningu og vill takmarka komu innflytjenda til Íslands í enn meira mæli en gert er nú þegar, sé með mótmæli og beinar aðgerðir á prjónunum. Þar verður spjótum sérstaklega beint að múslimum og rétti þeirra til að reisa sér bænahús hér á landi.
Stundin hefur ekki náð tali af Helga Helgasyni, formanni Þjóðfylkingarinnar, í dag en á umræðuvettvangi flokksins á Facebook má sjá myndband af manni sýna félögum sínum spjald úr froðuplasti sem virðist vera í vinnslu. Þar á að standa „enga mosku hér“. Samkoman á sér stað fyrir utan Café Catalínu í Kópavogi þar sem hreyfingin hélt stofnfund sinn á dögunum.
„Þetta held ég að væri mjög sniðugt að við myndum vera með á staðnum þar sem við keyrum niður Ártúnsbrekkuna (…) vera með þetta skilti á morgnana þegar umferðin er alveg vitlaus, við þurfum ekki að vera nema kannski fimm sex þarna, taka tíma frá 7 til 9 og vera með kaffi með okkur á brúsa, ha“ segir maður í myndbandinu. „Snilldin,“ svarar konan sem tekur upp myndbandið. Þá segir maðurinn að skiltið sé úr froðuplasti og kosti lítið. „Þetta getum við líka verið með á Austurvelli, enga mosku hér.“
Athugasemdir