Þingmenn Framsóknarflokksins vildu að lagt yrði fram fjárlagafrumvarp fyrir kosningarar í haust og tjáðu þann vilja sinn á síðasta þingflokksfundi.
Þetta kemur fram í bréfi sem Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sendi þingliði Framsóknarflokksins í gær. Eyjan vitnar í bréf Gunnars Braga og segir að þar sé gagnrýnt að fjárlagafrumvarp verði ekki lagt fram fyrir kosningar:
Það hefur ekki verið afgreitt innan framsóknarflokksins. Ekki meðal ráðherra né þingflokks. Reyndar var alveg skýrt á síðasta þingflokksfundi að þeir sem tjáðu sig vildu fjárlög. Mér vitanlega var hvorki dagsetning né fjárlagamálið rætt við formann flokksins.
Þá kemur fram að þingmenn Framsóknarflokksins séu óánægðir með að „halda út í kosningabaráttu án þess að geta kynnt fjárlagafrumvarp sem byggir á árangri síðustu ára í stjórnarsamstarfinu“.
Eftir að flýtingu þingkosninga var heitið í apríl stefndi ríkisstjórnin lengi vel að því að lagt yrði fram frumvarp til fjárlaga rétt áður en gengið yrði til kosninga. Hefði þetta gengið eftir hefði kynning fjárlagafrumvarpsins og umræður um efni farið fram á sama tíma og kosningabarátta stjórnmálaflokkanna er í algleymingi.
Á fimmtudaginn funduðu Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra með fulltrúum stjórnarandstöðunnar og staðfestu að kosið yrði til Alþingis þann 29. október næstkomandi. Fram kom í viðtali við Bjarna á vef RÚV að hann teldi að klára mætti helstu mál ríkisstjórnarinnar fyrir þann tíma en að fjárlagafrumvarp yrði ekki lagt fram fyrr en eftir kosningar.
Gunnar Bragi og fleiri úr þingliði Framsóknarflokksins virðast ósáttir við þessa niðurstöðu. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, tjáði sig um málið á Facebook í dag og skrifaði:
Ég tel að það sé lang best að slíta þinginu á mánudaginn og boða til kosninga innan 6 vikna eins og lög mæla um. Þetta segi ég til að hlífa landsmönnum við bulli, vitleysu og fyrru sem verður annars næstu vikurnar. Í hádegisfréttum voru tvö mál komin strax í ágreining – þ.e. búvörusamningar og vegaframkvæmdir – þetta verður óbærilegt.
Athugasemdir