Nichole Leigh Mosty, þingkona Bjartrar framtíðar, telur að vafi leiki á því hvort Bjarni Benediktsson hafi frestað birtingu skýrslu um aflandseignir Íslendinga fram yfir þingkosningar. Sem kunnugt er hefur Bjarni sjálfur viðurkennt að hafa ákveðið að fresta birtingu skýrslunnar en Nichole segir ekki ljóst hvort hann hafi gert það viljandi.
Aðspurð hvað henni finnist um að Bjarni hafi ekki sagt satt um málið segir hún það ekki í lagi. Um leið bendir hún á að fjölmiðlar birti stundum rangar fréttir og að þeir verði að passa sig betur og kanna sannleiksgildi frétta áður en þær eru birtar. Nichole viðurkennir að hafa orðið miður sín þegar umræðan um aflandseignaskýrsluna og birtingu hennar kom upp, enda hafi þá viðræður Bjartrar framtíðar við Sjálfstæðisflokkinn verið á lokasprettinum.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í svörum þingkonunnar við fyrirspurn Stundarinnar um málið. Aðspurð hvað hvað henni finnist um aðkomu Bjarna að ákvörðunum um kaup skattrannsóknarstjóra á gögnum um aflandsfélög Íslendinga á síðasta kjörtímabili svarar Nichole: „Ef ég man rétt þá var það hann sjálfur sem kallaði á að skýrslan væri unnin.“
Nichole er fjórði þingmaður Bjartrar framtíðar og Viðreisnar sem svarar fyrirspurn Stundarinnar um meðhöndlun Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra og fyrrum fjármálaráðherra, á aflandseignaskýrslunni. Eins og fram hefur komið fjallar skýrslan með gagnrýnum hætti um þá stefnu sem rekin var á sviði skattalöggjafar og skattaeftirlits á útrásarárunum þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór með fjármálaráðuneytið. Bjarni fullyrti í viðtali við RÚV síðustu helgi að skýrslunni hefði ekki verið skilað í ráðuneyti sitt fyrr en eftir þingslit í október, en hið rétta er að skýrslan barst ráðuneytinu þann 13. september. Hann hefur nú viðurkennt að hafa ákveðið sjálfur að birta hvorki almenningi né Alþingi skýrsluna fyrir kosningar, enda hafi hann ekki viljað að efni hennar yrði „sett í kosningasamhengi“.
Stundin sendi öllum þingmönnum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar fyrirspurn á mánudaginn og óskaði eftir afstöðu þeirra til málsins, þ.e. hvort ákvörðun, vinnubrögð og skýringar Bjarna standist kröfur þeirra um gott stjórnmálasiðferði og vandaða stjórnsýsluhætti. Aðeins fjórir hafa svarað; þingmenn Viðreisnar þeir Jón Steindór Valdimarsson og Pawel Bartoszek, Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar og Nichole Leigh Mosty þingkona sama flokks. Spurningar Stundarinnar og svör Nichole má sjá hér að neðan, en Nicole tekur fram að henni þyki þær „leiðandi“ og „lokaðar“.
Spurningar Stundarinnar:
1. Formaður flokksins þíns sagði á Twitter í apríl: „Forsætisráðherra er tengdur aflandsfélagi og hélt því leyndu. Orðspor Íslands er undir. Það er óhugsandi að Forsætisráðherra sé stætt.“ Ertu þú sammála þessum orðum og ef svo er, hvers vegna telurðu að Bjarna Benediktssyni verði stætt sem forsætisráðherra?
2. Telurðu að það samrýmist góðum stjórnsýsluháttum og stjórnmálasiðferði að ráðherra eigi beina aðkomu að ákvörðunum um kaup skattrannsóknarstjóra á gögnum sem hafa að geyma upplýsingar um hans eigið aflandsfélag?
3. Finnst þér réttlætanlegt að ráðherra, sem sjálfur hefur geymt peninga í aflandsfélagi, ákveði að fresta birtingu á skýrslu um umfang aflandseigna Íslendinga fram yfir þingkosningar sem var efnt sérstaklega til vegna afhjúpana á aflandsstarfsemi?
4. Finnst þér í lagi að ráðherra segi almenningi ósatt um málið?
5. Sé svarið við einhverri af þessum spurningum nei, hvers vegna finnst þér þá réttlætanlegt að þinn flokkur taki þátt í að gera viðkomandi stjórnmálamann að forsætisráðherra Íslands?
6. Hvers vegna telurðu að ríkisstjórn undir forsæti þessa stjórnmálamanns geti, í samræmi við yfirlýst markmið þíns eigin flokks, aukið traust og tiltrú almennings á íslenskum stjórnmálum og unnið að almannahagsmunum í stað sérhagsmuna?
Svör Nichole:
Ég vil taka fram hér að mér finnst þessar spurningar í sjálfu sér frekar leiðandi og lokaðar, en ég mun svara þeim af einlægni og út frá mínum sjónarmiðum.
1. Mér finnst fyrst og fremst best að halda hlutum í réttu samhengi, eða réttara sagt því samhengi sem þeir tilheyra. Þarna var formaður flokksins að ræða um leyndina og þann leik sem fyrrverandi forsætisráðherra lék í kringum Wintris-málið. Hvað Bjarna Benediktsson varðar ætla ég ekki að verja hann, en hann útskýrði að minnsta kosti sitt mál og svaraði fyrir sig. Þegar spurt er hvort honum sé stætt sem forsætisráðherra, þá skiptir máli að 30 prósent þjóðarinnar kvittaði upp á endurkjör hans með meirihluta þingmanna á Alþingi og í kjölfarið var honum gefinn kostur á að mynda ríkisstjórn. Við reyndum að finna aðra lausn en það gekk ekki. Á endanum voru það sjálfstæðismenn sem voru reiðbúnir að setjast að borðinu og semja um málefni. Eitt af þeim málefnum sem við náðum að semja um var að „markvisst verður unnið gegn skattundanskotum, þar með talið í skattaskjólum“.
2. Nei, en að því sögðu: Ef ég man rétt þá var það hann sjálfur sem kallaði á að skýrslan væri unnin. Þar sem þú biður ekki um frekari skýringar þá skal ég láta þetta duga.
3. Hér þarf ég að varpa spurningunni aftur á þig. Eins og þú settir þetta upp hér get ég svarað þér einfaldlega út frá minni siðferðiskennd en staðreyndin er hins vegar sú að hér eru staðhæfingar sem eru ekki alveg staðfestar. Við höfum heyrt hans svar um „tímalínuna“ og fyrir minn part vil ég fá staðfestingu á því að það hafi verið gert viljandi áður en ég legg minn dóm á málið.
„... fjölmiðlar bera einnig mikla ábyrgð á að passa upp á hvaða fréttir eru birtar og að sannleiksgildi þeirra sé staðfest.“
4. Mér finnst aldrei í lagi að fólk segi ósatt. Við eigum öll að segja satt í okkar vinnu, sérstaklegar þegar við gætum að almannahagsmunum. Sorrý, en ég verð að taka fram hér að fjölmiðlar bera einnig mikla ábyrgð á að passa upp á hvaða fréttir eru birtar og að sannleiksgildi þeirra sé staðfest. Bara í þær fáeinu vikur sem ég hef tekið þátt í stjórnarmyndunarviðræðum hef ég lesið ótrúlegustu hluti í blöðum og netmiðlum sem eru alls ekki staðfestir og oft ekki réttir.
5. Nú er stjórnasáttmáli opinber, svo um þetta þarf ég ekki að segja meira. Við höfum lagt ólýsanlega mikla vinnu í málamiðlanir til þess að koma miklu af okkur áherslum og málefnum inn í stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég viðurkenni að ég var miður mín að slíkt mál skyldi koma upp þegar örfá skref voru eftir í viðræðunum. Þegar við fórum af stað í þetta ferðalag tók ég þá ákvörðun að mikilvægast af öllu væri að við í Bjartri framtíð hefðum áhrif. Það er mitt mat að ríkisstjórn með Bjartri framtíð innanborðs sé betri en ríkisstjórn án okkar. Ég er mjög stolt af að sjá málefni sem ég hef barist fyrir í mörg ár sem leikskólastjóri og innflytjandi koma skýrt fram í stefnaskránni.
„Við leggjum áherslu á að fá fleiri til borðsins á grundvelli málamiðlana, gagnsæis, opinnar stjórnsýslu og bættra vinnubragða.“
6. Stutt svar: Við verðum að auka traust almennings á íslenskum stjórnmálum, punktur. Það er ekki eingöngu á ábyrgð forystumanns ríkisstjórnarinnar heldur líka á ábyrgð Alþingis í heild. Við þurfum að eiga samvinnu við stjórnarandstöðuna. Þar sem við höfum átt í samtali við alla flokka vitum við vel hvar þeirra áherslur liggja í ýmsum málefnum og satt best að segja eigum við margt sameiginlegt. Við verðum öll að setja hag samfélagsins á oddinn – ekki hag flokksins og alls ekki sérhagsmuni – og vinna saman að því að breyta samfélaginu til hins betra. Við leggjum áherslu á að fá fleiri til borðsins á grundvelli málamiðlana, gagnsæis, opinnar stjórnsýslu og bættra vinnubragða.
Athugasemdir