Hjúkrunarfræðingurinn María Magnúsdóttir telur að mengun frá kísilmálmverksmiðjunni United Silicon við Keflavík hafi valdið henni heilsutjóni.
Margir hafa leitað sér aðstoðar vegna mögulegra einkenna af völdum mengunar frá kísilmálmverksmiðjunni síðustu daga. María er ein þeirra. Hún varð fyrir efnabruna í slímhúð í bæði munni og hálsi, sem hún rekur sjálf til mengunarinnar. Hún segist hafa sótt aðstoð vegna þessa hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, en stofnunin neitar að staðfesta fjölda tilfella.
Lækningaforstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Fjölnir Freyr Guðmundsson, neitar að gefa upp hversu margir hafa leitað til stofnunarinnar vegna sambærilegra einkenna og María. Hann ber við trúnaði. Það er á skjön við hefðbundna samskiptahætti fjölmiðla og heilbrigðisstofnana en ávallt hefur verið hægt að sækja upplýsingar um fjölda þeirra sem þangað leita, hvort sem það er vegna kynferðisbrota eða flensu.
Ekki var óskað eftir upplýsingum um einstaka mál heldur aðeins mögulegan fjölda þeirra sem hafa komið á stofnunina með ýmis konar óþægindi í öndunarfærum.
Óviðunandi og stórhættuleg staða
Þrátt fyrir leyndina hefur Stundin heimildir fyrir því að íbúar hafi leitað til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja vegna óþæginda í öndunarfærum, meðal annars vegna hálsbólgu sem fólk taldi til „eðlilegra“ veikinda ef svo mætti að orði komast, en reyndust meðal annars vera efnabrunar sem eyða upp slímhúð í munni og hálsi, samkvæmt svörum sem nokkrir viðmælendur Stundarinnar segjast hafa fengið hjá lækni.
Þá hafa einhverjir íbúar haft samband við Eitrunarmiðstöð Landspítalans en þar hafa þessar fyrirspurnir verið skráðar. María Magnúsdóttir er ein þeirra sem hafði samband við Eitrunarmiðstöðina en hún þekkir sjálf einkenni efnabruna, en hún hefur meðal annars starfað á bráðamóttöku hér á landi.
„Það skiptir engu máli hvort þú sért eitthvað viðkvæmur fyrir eða með eitthvað undirliggjandi, þú brennur hvort sem er,“ segir María sem býr skammt frá nýrri kísilmálmverksmiðju United Silicon. Hún segist hafa byrjað að finna fyrir óþægindum á mánudagskvöldið, einkenni sem margir mögulega rekja til hálsbólgu. Hún segist sjálf hafa verið heilsuhraust, aldrei glímt við neina undirliggjandi sjúkdóma eða óþægindi í öndunarfærum.
„Vegna menntunar minnar þekki ég efnabruna og vissi því nákvæmlega hvað var í gangi. Ég leitaði mér aðstoðar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem læknir staðfesti áhyggjur mínar. Þetta var sem sagt efnabruni sem olli því að slímhúðin í munni og hálsi brann að hluta til. Ég hafði síðan samband við Eitrunarmiðstöðina til þess að fá þetta skráð enda er þessi staða óviðunandi og stórhættuleg.“
Íbúar kannski átta sig ekki á efnabruna
María segist ekki glíma við nein ofnæmi og hafi aldrei verið viðkvæm í öndunarfærum. Þetta sé eitthvað sem hún sé sjálf að upplifa í fyrsta skiptið en hefur samt sem áður hjálpað til með að meðhöndla í starfi sínu sem hjúkrunarfræðingur. Hún segir að einkenni efnabruna séu þannig að viðkomandi finnur mögulega ekki fyrir þeim fyrstu klukkutímanna en síðan gæti fólk farið að finna fyrir sviða í munni og sviða í hálsi.
„Það er ein breyta í þessu sem ég vil taka fram. Þar sem ég er í faginu þá þekki ég þetta en aðrir íbúa hafa kannski ekki hugmynd um þessi óþægindi og skrifa þau kannski bara á til dæmis hálsbólgu. Fólk er að finna fyrir ertingu í hálsi og margir hverjir halda að þetta sé bara tímabundið og gerir sér kannski ekki grein fyrir muninum. Þess vegna hvet ég fólk til þess að leita sér aðstoðar ef það finnur fyrir óþægindum í hálsi, munni eða nefi og tilkynna það líka til Umhverfisstofnunar, eitthvað sem ég gerði sjálf.“
Það tók Maríu þrjá sólarhringa að jafna sig.
Krabbameinsvaldandi efni í Reykjanesbæ
„Já það tók langan tíma að ná sér á strik aftur. Morguninn eftir, á þriðjudagsmorgun, þá vaknaði ég mjög slöpp með þyngsli í höfði sem gerði það að verðum að það leið nærri yfir mig. Ég var mjög þung í höfðinu allan daginn eftir. Þetta var hræðileg tilfinning og líkaminn minn var allur mjög skrítinn. Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessu öðruvísi en svo að ég hafi verið með skrítna tilfinningu í líkamanum,“ segir María sem hefur miklar áhyggjur af stóriðjunni í bakgarði sínum. Hún hefur einnig áhyggjur af heilsu sinni en hún glímir enn við óþægindi í hálsi þó svo að slímhúðin hafi jafnað sig.
„Ég veit ekkert hvort það sé tímabundið ástand eða viðvarandi. Það þarf bara að koma í ljós en ég hef áhyggjur af þessu.“
Líkt og Stundin hefur ítarlega greint frá undanfarna daga þá hafa miklar deilur staðið um stóriðjuna í Helguvík en fyrsti ofninn af fjórum sem United Silicon ráðgerir að gangsetja hefur valdið gríðarlegri mengun í Reykjanesbæ. Stæka brunalykt hefur lagt yfir íbúabyggð en lyktin er eitthvað sem eftirlitsaðilar gerðu ekki ráð fyrir en efni og efnasambönd sem hafa myndast í verksmiðjunni undanfarna daga og hafa borist út og yfir byggð í Reykjanesbæ gætu innihaldið PAH efni og B(a)P, sem myndast við ófullkominn bruna á lífrænum efnum. Efnin eru krabbameinsvaldandi og geta einnig valdið ertingu og efnabruna við öndun.
Þessi efnasambönd og efnin sem myndast við bruna timbursins eru ekki á lista yfir þau efni sem sérstakir loftgæðismælar ná utan um en þremur slíkum mælum hefur verið komið fyrir á svæðinu. Þetta hefur fengist staðfest hjá Umhverfisstofnun. Staðsetning umræddra loftgæðismæla er mjög umdeild en hún var ákveðin út frá loftdreifilíkani sem enginn vill kannast við að hafa búið til. Loftdreifilíkanið var til að byrja með skrifað á dönsku ráðgjafa- og verkfræðistofuna COWI en talsmenn fyrirtækisins óskuðu eftir því við Umhverfisstofnun að nafn fyrirtækisins yrði afmáð úr matsskýrslu United Silicon þar sem enginn hjá COWI kannast við að hafa búið hana til.
Athugasemdir