Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, gagnrýndi Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra harðlega á Alþingi í dag vegna ummæla sem Benedikt lét falla um gagnrýni Landspítalans á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.
„Landspítalinn tekur aukningu hjá okkur og ber saman við sína ósk um fjármagn og telur að aukningin sé niðurskurður af því að ekki er orðið við öllum hans óskum,“ sagði Benedikt í viðtali við Morgunblaðið sem birtist í morgun.
„Ég verð að segja það eins og er, virðulegi forseti, að mér finnst þessi sýn hæstvirts ráðherra á fjármál og stöðu Landspítalans eiginlega þyngri en tárum taki,“ sagði Kolbeinn í umræðum undir liðnum störf þingsins. „Að tala um útfærða áætlun Landspítalans um hvað þarf til að standa undir þeim lögbundnu verkefnum sem honum er falið, sem óskalista, eins og einhvern jólagjafalista um hvað væri í besta heimi allra mögulegra heima gott að fá; það þykir mér eiginlega grátlegt.“
Eins og Landspítalinn hefur bent á er hvorki gert ráð fyrir tækjakaupum vegna nýs Landspítala né nauðsynlegri endurgerð eldri húsa við Hringbraut í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Telja stjórnendur spítalans að sú forgangsröðun sem birtist í áætluninni bendi til þess að ríkisstjórnin vilji kynda undir þeirri þróun að heilbrigðisþjónusta færist frá sjúkrahúsum og til veitenda utan sjúkrahúsa, svo sem til einkarekinna læknastofa. María Heimisdóttir, fjármálastjóri spítalans, hefur fullyrt að ef fjármálaáætlunin verði að veruleika þurfi sjúkrahús á Íslandi að skera niður í rekstri um tæpa 5,2 milljarða á næstu fimm árum til að skapa svigrúm til nýrra verkefna. Strax á næsta ári vanti um 10 milljarða til rekstrar, nauðsynlegra tækjakaupa og annars stofnkostnaðar á Landspítalanum.
Í ræðu sinni á Alþingi í dag benti Kolbeinn á að gagnrýni Landspítalans byggði á áætlunum um hve mikla fjármuni þyrfti til að halda sjó í rekstri spítalans og tryggja þá þjónustu sem honum er skylt að veita samkvæmt lögum. „Þessir fjármunir skila sér ekki og það þýðir að spítalinn þarf að skera niður þjónustuna. Þetta er ekkert flókið Þetta er ekki óskalisti heldur útfærð áætlun um hvað það er sem spítalinn þarf til að veita nauðsynlega þjónustu,“ sagði Kolbeinn. „Og það þýðir ekki fyrir hæstvirtan fjármálaráðherra að gera lítið úr þessum áætlunum með því að kalla þetta óskir og segja að það geti ekki allir fengið það sem þeir vilja. Það eru bara ódýr pólitísk undanbrögð.“
Sagði hann að betur færi á því að fjármálaráðherra viðurkenndi einfadlega að ekki væri pólitískur vilji hjá ríkisstjórninni til að fjármagna Landspítalann með fullnægjandi hætti. „Hann yrði þá maður meiri ef hann gerði það, hæstvirtur ráðherra, í stað þess að skýla sér á bak við eitthvað svona. Stundum finnst mér eins og hæstvirtur fjármálaráðherra búi í Excel-skjali og sjái ekki að á bak við tölurnar sem þar eru er raunveruleg þörf er fólk með raunverulegar þarfir.“
Athugasemdir