Njáll Trausti Friðbertsson og Valgerður Gunnarsdóttir, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, stóðu ekki við yfirlýsingar sínar um að þau myndu ekki samþykkja fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar óbreytta. Bæði greiddu atkvæði með áætluninni í nótt þrátt fyrir að áætlunin feli í sér áform sem Valgerður telur að muni „rústa“ fyrirtækjum og „gjörbreyta atvinnustigi í þorpum og bæjum úti um land“.
RÚV greindi frá því þann 20. apríl síðastliðinn að þingmennirnir tveir ætluðu ekki að samþykkja áætlunina nema hún tæki breytingum enda væru þau óánægð með áform um skattahækkanir á ferðaþjónustu. Báðir þingmennirnir tengjast fyrirtækjum í greininni; Njáll Trausti er sjálfur hluthafi í fyrirtæki sem leigir út orlofshús til ferðamanna á Akureyri og synir Valgerðar Gunnarsdóttur reka gistiþjónustu á Norðurlandi.
Sagði Valgerður í viðtali við RÚV að hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu, sem gert er ráð fyrir í fjármálaáætluninni, ætti eftir að rústa fyrirtækjum og gjörbreyta atvinnustiginu á landsbyggðinni. „Ég tel þetta óheillavænlegt skref og muni hafa mest áhrif á minni og meðalstór fyrirtæki úti á landsbyggðinni sem hafa verið að fjárfesta mikið og gjörbreyta atvinnustigi í þorpum og bæjum úti um land. Og þetta mun rústa þeim fyrirtækjum,” sagði hún.
Þann 18. maí skilaði meirihluti fjárlaganefndar áliti um fjármálaáætlun þar sem fram kom að breyting á virðisaukaskatti á miðju ári væri ekki æskileg og við undirbúning næsta fjárlagafrumvarps þyrfti að leita leiða til að endurskoða þær áætlanir. Engu að síður lagði meirihluti nefndarinnar til að áætlunin yrði samþykkt óbreytt í nefndaráliti sem meðal annars var undirritað af Njáli Trausta sjálfum. Þannig er nú gert ráð fyrir stórauknum skatttekjum frá ferðaþjónustunni í tekjurammanum sem liggur til grundvallar stefnu ríkisstjórnarinnar. Áformin um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu eru líka á meðal helstu aðgerða sem stefnt er að til að draga úr þenslu í hagkerfinu og auka aðhaldsstig ríkisfjármála.
Njáll og Valgerður greiddu bæði atkvæði með fjármálaáætluninni á Alþingi í nótt án þess að gera grein fyrir atkvæði sínu eða setja fyrirvara við málið.
Athugasemdir